19.01.1953
Efri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh:

(Eysteinn Jónsson): Ég vil leyfa mér að þakka meiri hl. fjhn. fyrir afgreiðslu hans á málinu. Jafnframt mun ég segja hér fáein orð út af afstöðu minni hlutans í fjhn. og ræðu þeirri, sem frsm. minni hl. flutti nú rétt í þessu, þ. á m. leiðrétta misskilning, sem mér sýnist koma fram hjá honum í sambandi við einstök atriði málsins.

Minni hl. segir hér í nál., þar sem hann víkur að umsögn bankanna um málið, að Landsbankanum hafi verið gefinn kostur á að athuga frv. og gert athugasemdir við ýmis veigamestu atriði þess og lýst sig andvigan þeim. Blærinn á þessu hjá hv. minni hl. á að vera sá, að Landsbankinn hafi í raun og veru tekið afstöðu gegn frv. Þetta er alveg rangfærsla, eins og álit það ber með sér, sem hv. minni hl. birtir sjálfur með álitsgerð sinni. Það eru við nokkur einstök atriði gerðar aths. af hendi Landsbankans, eins og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir, og veigamesta atriðið af þeim, sem þar var gerð aths. við, var tekið til greina, áður en frv. var lagt fyrir Alþingi.

Að séráliti Jóns Árnasonar bankastjóra kem ég ofur lítið síðar.

Þá vill hv. minni hl. gera tortryggilegt það ákvæði frv., að afhenda skuli til eignar Framkvæmdabankanum nokkur hlutabréf ríkisins, og segir í því sambandi í nál., að dr. Benjamín Eiríksson hafi sagt á fundi í fjhn., að hann hugsaði sér, að hlutabréf þessi yrðu seld síðar af bankanum. Hv. minni hl. vill gefa mönnum í skyn með þessu og raunar fullyrti það í sinni ræðu, að ætlunin mundi vera að koma þessum hlutabréfum í brask með því að koma þeim fyrst yfir í Framkvæmdabankann og hann seldi þau síðan. Hv. minni hl. gekk hins vegar alveg fram hjá því, sem er höfuðatriðið, að í frv. er bankanum bannað að selja þessi hlutabréf, alveg berum orðum. Það stendur alveg skýrum stöfum í frv., að bankanum er bannað að selja þessi hlutabréf. Það er því óskiljanlegt, hvað hv. minni hl. er að fara með þessum málflutningi. Hitt er svo annað mál, að bankanum er ætlað það hlutverk að kaupa og selja aftur síðar önnur hlutabréf til þess að greiða fyrir stofnun fyrirtækja, en það er óskylt þessu ákvæði um hlutabréf áburðarverksmiðjunnar og önnur þau hlutabréf, sem eftir frv. er gert ráð fyrir að afhent verði bankanum til eignar. Vitanlegt er, að hv. minni hl. blandar þessu hér saman viljandi til þess að gefa skakka hugmynd um þetta atriði. Það getur ekki komið til mála, að honum hafi yfirsézt um þetta. Því fellur alveg dauður niður allur hinn hátíðlegi kafli hans ræðu um áburðarverksmiðjuna í þessu sambandi, um það, að með lævislegu móti eigi að koma því mikla verðmæti, er þar safnist saman, á hendur einstakra manna í gegnum Framkvæmdabankann.

Þá sagði hv. þm., hv. frsm. minni hl., m.a.: „Hvað verður um fiskveiðasjóð, ræktunarsjóð og fleiri slíka sjóði og stofnanir?“ Og svo segir hann: „Framkvæmdabankanum er ætlað að ráðskast með þetta.“ Það er ekki nokkur stafkrókur nokkurs staðar í þessu frv. né heldur í þeim grg., sem með fylgja, sem gefur ástæðu til þess að segja það, að Framkvæmdabankanum sé ætlað að ráðskast með ræktunarsjóð, byggingarsjóð sveitanna eða fiskveiðasjóð, — enginn stafkrókur, enda er það alls ekki ætlunin, og það hlýtur hv. minni hl. að vita.

Þá sagði hv. þm., að allur væri bankinn byggður upp til þess að afhenda einum manni öll völd. Það væri augljóst, að einn maður ætti að ráða öllu í stofnuninni, sem sé bankastjórinn. Hv. minni hl. gekk alveg fram hjá því, sem skýrt er tekið fram í frv., að bankaráðinu er ætlað að ákveða lánveitingar, nema því aðeins að það taki ákvörðun um að fela bankastjóranum að ráða fram úr slíkum málum. M.ö.o., æðsta valdið í þessari stofnun er í höndum 5 manna bankaráðs og beinlínis gert ráð fyrir því, að það annist lánveitingarnar.

Enn fremur vildi hv. minni hl. gefa það í skyn, að með frv. væri verið að draga undir þennan eina mann völd yfir fjármálum landsins úr höndum stjórnarinnar og úr höndum þingsins. Ég hef nú sýnt fram á, að bankastjórinn á ekki að hafa önnur völd en þau, sem bankaráðið felur honum í bankanum, en þar að auki er svo þess að gæta, að bankaráðið er að 3/5 kosið af Alþingi, einn af embættismönnum ríkisstj. er fjórði maðurinn og fulltrúi frá þjóðbankanum sá fimmti. Það er því vitanlega alveg fullkomin fjarstæða og hugarórar, að með ákvæðum þessa frv. sé verið að draga valdið yfir fjárhagsmálum landsins úr höndum þeirra, sem hingað til hafa haft það, og afhenda það einstaklingi.

Hv. þm. minntist í þessu sambandi á álit Jóns Árnasonar, sem hefur gert athugasemdir við frv., sem hann lýsti, og af þessum athugasemdum er helzt svo að sjá, að Jón Árnason, eins og hv. minni hl. tók fram, sé á móti frv. Það mætti segja ýmislegt um það, að hv. þm. tekur nú þann kost að byggja álit sitt að miklu leyti á viðhorfi Jóns Árnasonar. Það hefur áður þotið öðruvísi í þeim skjá í garð Jóns Árnasonar, og hingað til hefur meira borið á því, að kommúnistar hafi talið Jón Árnason að öllu leyti gersamlega ófæran til þess að gegna trúnaðarstörfum og að ekkert væri leggjandi upp úr áliti hans um eitt eða neitt.

Út af álitsgerð Jóns Árnasonar er ekki ástæða til að halda hér langa ræðu. Þess er getið í álitsgerðinni, að hlutverk Framkvæmdabankans verði einungis það að taka á móti mótvirðissjóði og nokkrum hlutabréfum, sem ríkið á og kann að eignast, og taka ákvörðun um lánveitingar af þessu fé, að svo miklu leyti sem Alþingi ekki ákveður það fyrir fram. Þetta er vitanlega ekki rétt. Bankanum er ætlað miklu viðtækara hlutverk en þetta, en á þessari fullyrðingu byggir Jón Árnason samt það álit sitt, að hægt sé að fela þeim stofnunum, sem fyrir eru, væntanleg verk Framkvæmdabankans. Bankanum eru ætluð veigamikil önnur verkefni, svo sem að útvega fé innanlands til fjárfestingarlána, að semja um fé erlendis til fjárfestingarlána og að vera ríkisstj. til ráðuneytis um fjárfestingarmál, svo að höfuðatriðin séu talin.

Jón Árnason ræðir nokkuð um mótvirðissjóð inn í álitsgerð sinni, og hv. frsm. minni hl. ræddi hér nokkuð um hann. Þessir menn ræða um mótvirðissjóðinn eins og eitthvert sérstakt vandamál. Það er broslegt að tala um það, að mótvirðissjóðnum muni endilega þurfa að fylgja sérstök afskipti Bandaríkjamanna af fjármálum Íslands. Það væri vitanlega hægt að komast hjá því að þurfa nokkuð að tala við Bandaríkjamenn um mótvirðissjóðinn. Ef menn vildu láta mótvirðissjóðinn standa kyrran þar sem hann er nú, og ekki nota hann meir beinlínis en búið er, þá væri algerlega hægt að komast hjá því að tala nokkuð um hann við Bandaríkjamenn eða hafa nokkur samráð við þá frekar um hann. Ekki geta þeir neytt okkur til þess að nota mótvirðissjóðinn, ef við vildum láta hann liggja þar sem hann er.

Mótvirðissjóðurinn kæmi Íslandi að gagni fyrir því, þó að svo væri gert, en á annan hátt en gert er ráð fyrir með þessu frv. Hann gæti staðið óbeint undir útlánum frá þjóðbankanum, eins og hann raunar gerir nú þegar.

Þá eru furðulegar bollaleggingar Jóns Árnasonar um að greiða mótvirðissjóðinn til baka. Ég get ekki séð, hvað það gæti skaðað fjármál Íslands, að mótvirðissjóðurinn væri áfram þar sem hann er núna, ef næðist samkomulag um aðra ráðstöfun á honum. Í sambandi við þetta má minna á það, að Landsbankinn er í raun og veru búinn að lána mjög mikið af mótvirðissjóðnum út óbeinlínis, án þess að nokkuð hafi verið við Bandaríkjamenn um það talað. Þetta hefur verið gert með því að auka útlánastarfsemina, og seðlabankinn hefði ekki getað staðið undir þeirri aukningu, ef mótvirðissjóður hefði ekki komið þar til, og ástæðan til þess, að við erum með frv. þessu að gera ráð fyrir að flytja mótvirðissjóðinn á 25 árum yfir í Framkvæmdabankann, er sú, að mótvirðissjóðurinn er núna fastur í Landsbankanum. Þess vegna erum við að tala um að færa hann yfir á 25 árum og koma honum í fjárfestingarlán. Við viljum færa fé mótvirðissjóðs yfir í Framkvæmdabankann og þurfum svo að fá samþykki þeirra, sem hafa látið gjafaféð hingað, fyrir útlánum úr sjóðnum, eins og í upphafi var ákveðið. Ef ekki semst, getum við látið féð vera þar sem það er og haft gagn af því samt með öðru móti. Það er fjarstæða að tala um að endurgreiða 400 milljónir af mótvirðissjóðsfé og yrði einsdæmi í veröldinni. Mótvirðissjóðurinn blandast jafnmikið inn í fjármál Íslands, hvort sem hann er settur í Framkvæmdabankann, er látinn vera áfram í Landsbankanum eða sérstakri stofnun væri falin meðferð hans. Hann hefur blandazt svo heppilega inn í fjármál Íslands fram að þessu, að ef hans hefði ekki notið við, væri engin Sogsvirkjun, engin Laxárvirkjun og engin áburðarverksmiðja og nokkuð öðruvísi ástatt um önnur útlán í landinu.

Hv. frsm. minni hl. sagðist ekki sjá nein íslenzk rök fyrir þessari stofnun. Það getur vel verið, að frá sjónarmiði þessa hv. þm. séu það ekki íslenzk rök, að þessari stofnun er ætlað að auka líkurnar fyrir því, að við getum fengið erlend lán í gagnleg fyrirtæki og náð saman meira fjármagni innanlands í sama skyni. Þetta eru máske ekki íslenzk rök frá sjónarmiði þessa hv. þm.

Ég veit ekki, hvað hann er að fara yfirleitt. En þeir, sem standa að þessu frv., beita sér fyrir stofnun Framkvæmdabankans í þeirri von, að með því megi takast að ná meira fé til framkvæmda hér á næstunni en ella.

Ég vil svo endurtaka þakklæti mitt til meiri hl. fyrir afgreiðsluna á þessu máli og vonast eftir því, að meiri hl. hv. d. fylgi meiri hl. n. í afgreiðslu málsins.