19.01.1953
Efri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um og sést á nál. á þskj. 540, þá hef ég skrifað undir það nál. með fyrirvara.

Þegar fyrst var rætt um þetta mál í hv. fjhn. þessarar d., komu fram óskir frá hæstv. ráðh. um að hraða þessu máli svo í gegnum n., að nál. yrði gefið út áður, en þinghlé byrjaði á s.l. ári. Ég óskaði þá mjög eftir því við hv. form. n., að þessu máli yrði ekki hraðað þannig í gegnum fyrri d., þar sem hér var um mjög mikið nýmæli að ræða og allmikið og stórt mál á ferðinni, og ég taldi það vera betra fyrir málið sjálft, að það fengi allverulega þinglega meðferð í hv. n., m.a. sent til umsagnar, og þess utan gæfist nm. tækifæri til þess að athuga hinar elnstöku greinar frv. og það ætti ekki að þurfa að tefja mjög mikið meðferð málsins og afgreiðslu þess í þinginu. Hv. form. n. varð við þessum tilmælum, og ég fyrir mína parta vil þakka honum mjög fyrir þá meðferð málsins, því þó að ekki liggi fyrir mjög mikið af brtt., þá er það þó alveg ljóst, að n. hefur haft allverulegan tíma til þess að athuga málið. Hún hefur rætt málið mjög nákvæmlega. Það hafa komið fram ýmis sjónarmið í n., einnig ýmsar till., sem hafa verið lagðar fram sem umræðugrundvöllur, og ég tel, að það sé miklu tryggara fyrir málið sjálft að koma nú fram, eftir að allar þessar umræður hafa farið fram í n., heldur en ef það hefði verið lagt hér fram svo að segja athugunarlaust. Ég vil því endurtaka þakklæti mitt til hv. form. n. fyrir það, hvernig hann hefur farið með þetta mál.

Strax á fyrstu fundum n. lýsti ég því yfir, að ég væri að mörgu leyti ósamþykkur ákvæðum frv., og óskaði eftir ýmsum breyt. og lagði þá fram allmargar brtt. sem umræðugrundvöll um málið, og ég skal hér, vegna þess að þær hafa ekki nema að sáralitlu leyti verið teknar til greina, gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara. Það er m.a. vegna þess, að þær brtt., sem ég bar fram, hafa ekki náð fram að ganga nema að mjög litlu leyti.

Strax við 1. gr. frv. þótti mér nokkuð óviðeigandi að ákveða endilega, hvað bankinn skyldi heita á enska tungu, og hefði þótt eðlilegra, að þar hefði aðeins verið, eins og venja er til um aðra banka hér á Íslandi. haldið íslenzka nafninu, en innan sviga enskri þýðingu, án þess beint að taka það fram í lögunum, eins og gert er hér í 1. gr., að á ensku skuli bankinn heita eins og þar segir. Um þetta varð nú ekki samkomulag. Ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli, þetta er aukaatriði, en ekki finnst mér það nú smekklegt samt sem áður, að það skuli endilega tekið fram í frv., að hann skuli heita ákveðnu heiti á enska tungu, án þess þó að setja þá einhver önnur tungumál inn, og hefði þá verið öllu nær að setja það, hvað hann ætti að heita á latinu, sem er þó merkilegt og gamalt mál. En um það geri ég ekki neinn sérstakan ágreining og hef ekki heldur flutt hér brtt. til þess að láta ganga um það atkv.

Ég lagði hins vegar til allviðtæka brtt. um 2. gr., og það er vegna þess, að ég tel, að 2. gr. í frv., eins og það er nú, ákveði engan veginn til fulls, hvað sé raunverulega hlutverk bankans. Ef greinin er athuguð eins og hún er nú, þá er hlutverk bankans að efla atvinnulíf og velmegun íslenzku þjóðarinnar með því að beita sér fyrir arðvænlegum framkvæmdum, sem gagnlegar eru þjóðarbúinu og styðja þær. Þetta eru höfuðlínurnar í hlutverki bankans. En síðan er undirstrikað með 2. mgr. hér í gr.: „Skal starfsemi bankans í meginatriðum miðuð við það að stuðla að auknum afköstum í framleiðslu og dreifingu“, — án þess þó að það sé nokkuð skýrt nánar, hvernig það skuli verða. Þetta fannst mér vera heldur svona losaralegt, að vísu beinagrind, en lítið af holdi á þeim beinum, og lagði til allvíðtækar brtt. í sambandi við þessa grein um að marka bankanum miklu víðtækari bás en hér er gert eða ákveðnari verkefni en hér er gert. Um þetta varð ekki samkomulag, og ég hirði ekki um að setja þær brtt. út hér til umr. og til þess að tefja fyrir gangi málsins, því að það er ef til vill ekki svo þýðingarmikið atriði, því að það er samkomulag um það, að þetta frv. skuli ná fram að ganga mikið til óbreytt, auk þess sem lög eins og þessi liggja alltaf undir athugun og breytingum á næstu árum, þegar lífið sjálft fer að kenna bankaráði og bankastjórn, hvernig þarf að breyta ákvæðunum í sambandi við bankann, svo að ég mun þá heldur ekki bera hér fram þær brtt. minar, sem ræddar voru í n., þó að mér þyki rétt að skýra hér frá þeim.

Í sambandi við þessa grein vil ég einnig leyfa mér að benda á, að þegar þetta var rætt við Benjamín Eiríksson, sem kom hér til viðtals við n., þá virtist hann nú ekki skilja ákvæði þessarar greinar sjálfur raunverulega. Það kom alveg skýrt í ljós, að hann taldi, að hér væri alls staðar um heimildarlög að ræða, en engar fyrirskipanir samkv. lögunum. En eins og honum var margbent á af n., þá er það ekki. Það er ekki hér um heimild að ræða, heldur beinar fyrirskipanir, hvert hlutverk bankans skuli vera, og einmitt sagt í síðustu málsgr. 2. gr., að til þess að það sé hægt að leysa af hendi þetta hlutverk, þá skuli bankanum sköpuð sú aðstaða, sem ákveðin er í lögunum. Hann taldi nú hins vegar, að bankastjórnin og bankaráð hefðu allóbundnar hendur í þessu máli og þeir væru ekki skyldugir til þess að lúta þessu, en ég vil taka það fram hér, að ég er þar á allt annarri skoðun. Ég tel einmitt, að þegar búið er að setja lög eins og frv. er núna, þá þurfi að vera veigamikil atriði fyrir hendi til þess, að bankinn geti skotið sér undan þeim skyldum, sem hér eru lagðar á hans hendur, að óbreyttum lögunum.

Það urðu allmiklar umr. um 3. gr. frv., og m.a. bar ég fram brtt. um það í n. að fella niður hlutabréf í raftækjaverksmiðjunni og í Eimskipafélagi Íslands, að upphæð 150 þús. kr. Hefur nú verið gengið til móts við mínar óskir í sambandi við það atriði, en ég vildi einnig láta fella niður það ákvæði, að bankinn skyldi hafa leyfi til þess að kaupa hlutabréf síðar meir í öðrum fyrirtækjum. Um þetta varð ekki samkomulag, en ég hygg, að reynslan muni sýna það, að það verði mjög erfitt fyrir bankastjórn í framtíðinni að gera hér upp á milli aðila, þegar þar að kemur, ef á að gæta fulls réttlætis í þeim málum. Það verður ákaflega erfitt fyrir bankastjórn að dæma um það réttilega, hvaða hlutabréf þeir eigi að kaupa, í hvaða fyrirtækjum þeir eigi að kaupa og hvað ekki, og þá er ákaflega hætt við, að einmitt valdi bankans verði þar misbeitt, auk þess sem þetta stríðir algerlega á móti þeim venjum og fyrirmælum í lögum, sem hér gilda á Íslandi, um það, að bankar skuli kaupa hlutabréf yfirleitt í fyrirtækjum; m.a., eins og Jón Árnason tekur réttilega fram í sínum ummælum, þá er Landsbankanum bannað þetta. En úr því að því er haldið í frv., að bankinn skuli ekki einungis hafa heimild, heldur sé skylda hans að kaupa hlutabréf, ef miðað er við 2. gr., svo framarlega sem bankastjórnin álítur þau nægilega trygg og hann hefur til þess fé, þá sé ég út af fyrir sig heldur enga sérstaka ástæðu til þess að fella í burtu hvorki ákvæðið um Eimskipafélagið né raftækjaverksmiðjuna. En þessar till. mínar í n. voru miðaðar við það, að bankinn kæmi ekki nálægt því að eiga eða kaupa hlutabréf. Sé hins vegar hugsað í framtíðinni að láta bankann kaupa og eiga og verzla með hlutabréf yfirleitt, þá sé ég ekki heldur neina ástæðu til þess, að hann mætti ekki hafa þau bréf, sem hér um ræðir, hvort heldur það er í raftækjaverksmiðjunni eða í Eimskipafélagi Íslands, því að það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er tekið skýrt fram í lögunum, að þessar eignir ríkissjóðs má ekki selja, nema til komi samþykki Alþ.

Þá þótti mér rétt að gera till. um breyt. á 4. gr. Það er, að það skyldi ákveðið í lögunum, hvaða vexti seðlabankinn greiddi Framkvæmdabankanum fyrir það fé, sem hann hefur undir höndum. Þetta hafði nú verið í frv. upphaflega, og Benjamín Eiríksson viðurkenndi það við n., að honum væri engan veginn ljúft að láta þetta falla niður úr frv., og viðurkenndi það beinlínis, að þetta atriði gæti orðið sífellt ágreiningsatriði á milli seðlabankans annars vegar og Framkvæmdabankans hins vegar. Hann beinlínis viðurkenndi það fyrir n. að, að hans dómi áliti hann, að þetta gæti orðið sífellt ágreiningsatriði. Ég tel óheppilegt, að í frv. séu nokkur þau fyrirmæli, sem veki sífelldan ágreining á milli þessara tveggja stofnana. Og þess vegna álit ég, að það hefði verið miklu eðlilegra að fastákveða í lögunum, hvaða vexti seðlabankinn skyldi greiða Framkvæmdabankanum. Ég var hins vegar vel til viðtals um það, hvað þeir yrðu settir háir, en að það skyldi þó alltaf ákveðin einhver lágmarksupphæð til þess að útiloka þann ágreining, sem hér gæti stöðugt verið á ferðinni. Ég get hins vegar vel skilið afstöðu Landsbankans til þessa atriðis, því að það er eins og maður veit, að hann vill helzt ekki greiða nema sem allra minnsta vexti af þessum upphæðum. Og það er eina ástæðan fyrir því, að bankinn vill ekki láta setja það í lögin, að hann vill þar hafa tögl og hagldir í framtíðinni, hve mikið hann greiði bankanum fyrir það fé, sem hann hefur undir höndum. En ég hefði einmitt álitið, að það væri mjög heppilegt að útiloka frá upphafi þennan ágreining. Ég mun hins vegar ekki bera fram hér brtt. um þetta, úr því að við náðum ekki um það samkomulagi í n., — vil ekki bera fram brtt. til þess að deila um það hér, enda alltaf hægt fyrir Alþ. að grípa inn í þau mál, ef það er sýnilegt, að ekki næst samkomulag á eðlilegum grundvelli, — þá er alltaf hægt á hverjum tíma fyrir Alþ. að grípa hér inn í og gera þar breyt. á. Og ég vil m.a. ekki gera það vegna þess, að ég er í höfuðatriðum sammála hv. meiri hl. n. um málið. Ég tel, að það sé til stórbóta, mjög mikilla bóta að setja upp þann banka, sem hér um ræðir, til þess að hafa eingöngu með fjárfestingarmálin að gera. Mér er fullkunnugt um það, að einmitt þeir bankar eins og Landsbankinn, sem verða að blanda saman allverulega lánum til rekstrar fyrirtækja og lánum til þess að fjárfesta eða stofna fyrirtæki, eigi mjög erfitt með að greina alltaf þarna á milli. Og ég vil benda á, að ef ekki hefði tekizt á sínum tíma að fá erlendis það fé, sem þurfti til þess að byggja seinni 10 togarana og til ýmissa annarra framkvæmda, sem hafa verið gerðar hér á undanförnum árum, þá hefðu einmitt þessir bankar, sem telja það aðallega vera sitt hlutverk að lána rekstrarfé, aldrei lánað þetta fé. Og langskýrasta sönnunin fyrir því, að þeir hefðu ekki gert það, og skýrasta sönnun fyrir því, að það er þörf á þessum banka, er, hvernig sjálfur Landsbankinn hefur farið að í sambandi við veðdeildina. Það er hreinn fjárfestingarbanki og ekkert annað en fjárfestingarbanki. Og nú í fjöldamörg ár hefur alveg verið vanrækt, gersamlega vanrækt þessi deild bankastarfsemi Landsbankans, og þess vegna hefur Alþ. orðið að grípa inn í og ráðstafa úr ríkissjóði eða fá lán, til þess að hægt sé að halda uppi þeim verklegu framkvæmdum, vegna þess að Landsbankinn hefur ekki þótzt geta sinnt þeim. Þetta er m.a. ein ástæðan fyrir því, að ég er fullkomlega með því, að bankinn verði settur á laggirnar, og tel, að það sé mjög mikil bót að því að skilja hér í sundur fjárfestinguna annars vegar og lán til framleiðslunnar hins vegar.

Ég bar einnig fram allmiklar brtt. við 7. gr. frv. Um það varð ekki heldur samkomulag. Þó voru sumar af þeim breyt. teknar upp, m.a. eins og það, að í stað orðanna „að veita þeim stuðning“, þá skuli þeim veitt, eins og segir í nál., „fyrirgreiðsla“. Og ég mun þá ekki heldur bera fram neinar brtt. í sambandi við þá grein.

Ég skal í sambandi við 4. gr. aðeins leyfa mér að ræða hér nokkuð um það atriði, sem hefur verið minnzt á hér, að það gæti farið svo, að sett yrðu svo og svo þung skilyrði frá Bandaríkja hálfu í sambandi við notkun þessa fjár. Hæstv. fjmrh. hefur nú svarað því. En undir meðferð málsins í hv. n. kom ekkert fram um það, að það yrði sett nokkurt skilyrði um notkun á þessu fé. Það lá ekki fyrir n. Og ég verð að segja það, frá mínu sjónarmiði, að þá tel ég, að ef slík skilyrði kæmu fram, þá er það alltaf á valdi þingsins að ákveða, hvort þeim skilyrðum er mætt eða ekki. Það kemur vitanlega engan veginn til mála, að Alþ. eða íslenzka þjóðin gangi þar undir nokkurt ok eða yfirleitt undir nokkur önnur skilyrði, heldur en hafa verið sett frá upphafi í sambandi við þessi mál, svo að allt það, sem hefur verið gert ráð fyrir hér, að það væri um kúgun að ræða frá annarri þjóð, er að sjálfsögðu sagt alveg út í bláinn.

Ég hafði einnig sett fram breyt. á 8. gr. Ég hef ávallt litið svo á, að fyrirmælin í 8. gr. væru raunverulega ákaflega losaraleg, og það er ákaflega teygjanlegt þetta, hvað ætti að vera fyrir landbúnað og hvað ætti að vera til annarra verkefna. Við skulum hugsa okkur t.d. orkuver og orkuveitur, eins og hv. frsm. meiri hl. talaði um; ég tel það vera alveg sjálfsagt landbúnaðarmál. En það geta verið svo mörg önnur atriði, sem við koma landbúnaðinum. Við skulum hugsa okkur t.d. stórkostlegar brúargerðir. ekki verður það neitt annað heldur en landbúnaðarmál, og það gæti vel farið svo, að það væri kannske enginn betri velgerningur fyrir ákveðin héruð heldur en að lána fé úr þessum banka til þess að koma upp brúm, sem kosta stórkostlegt fé, eins og t.d. á sínum tíma Ölfusárbrúin og Þjórsárbrúin og aðrar fleiri brýr í landinu. Slíkt er hreint og beint landbúnaðarmál, þó að það sé á sama tíma samgöngumál. Sama gæti verið um ýmislegt annað, jafnvel hafnir. Þær geta verið stórkostlegt atriði. Við skulum hugsa okkur, að komið væri upp höfn á Suðurlandsundirlendinu, í Þorlákshöfn. Ég hygg, að það væri stórkostlegt atriði fyrir landbúnaðinn þar austur frá. Þetta er svo óákveðið hér í greininni, að það er eiginlega engan veginn hægt að marka bankanum bás með þessi verkefni, ef það stendur ekkert annað eða meira heldur en í greininni er. Hitt er svo allt annað atriði, að það getur vel beðið til betri tíma að ákveða þetta nánar í hvert skipti, enda liggja lögin að sjálfsögðu undir eftirliti þingsins og framkvæmd laganna undir eftirliti þingsins á hverjum tíma, og þingið getur gripið þar inn í til þess að breyta því, þegar því þykir ástæða til og sjálfsagt þykir að gera það eða þörf þykir að gera það.

Langmesti ágreiningurinn milli mín og n. var út úr 9. gr. Ég lagði til, að það ákvæði væri fellt niður, að Alþ. gæfi bankanum heimild til þess að taka 100 millj. kr. lán og hafa raunverulega alltaf standandi 100 millj. kr. lán í útlöndum, þ.e.a.s., þó að það væri borgað af lánunum, þá hafa þeir leyfi til þess að taka ný lán, allt að 100 millj. kr. Ég taldi, að það væri rangt af Alþ. að gefa þetta nokkrum aðila svo ótakmarkað eins og hér er gert. Nú hefur þetta í till. frá meiri hl. n. verið fært niður í 80 millj., sbr. þskj. 540, og ég segi fyrir mína parta, að ég geri það ekkert að neinu keppikefli, hvort sú till. er samþ. eða ekki. Mér finnst það út af fyrir sig vera alveg aukaatriði, hvort Alþ. gefur leyfi til þess að taka 100 millj. eða 80 millj., heldur hitt, hvort Alþ. yfirleitt gengur inn á þá braut að gefa einhverjum aðilum, sem sitja fyrir utan ríkisstj. og utan Alþ., leyfi til þess að taka 100 millj. kr., eða einhverja aðra stóra fúlgu að láni erlendis. Ég mun því láta það alveg afskiptalaust, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki, og fylgja alveg eins frv., þó að till. verði felld, úr því að ekki fékkst samkomulag um það að takmarka þetta þannig, að það yrði að leita til Alþ. á hverjum tíma. Hins vegar skal ég viðurkenna það, sem okkar ágæti hv. form. n. benti á, að þessi heimild er þó tímatakmörkuð. Hún er takmörkuð á milli þinga. Hvert þing, sem kemur saman á hverju ári, getur kippt þessari heimild burt aftur. Þess vegna tel ég ekki hættuna eins mikla og annars væri. Og einmitt með tilvísun til þess, að þeir möguleikar liggja fyrir, þá geri ég það ekki að neinu ágreiningsatriði, hvort þessi upphæð er lækkuð um 20% eða ekki.

Þá var annað atriði, sem var mjög mikill ágreiningur um milli mín og meiri hl. n., og það er um 14. gr. Ég tel enn, að eins og ætlazt er til að hún verði, þá sé það ekki eðlileg skipun bankaráðsins. Mín. till. í þessu máli var sú, að 2 af bankaráðsmönnunum yrðu þegar kosnir til 6 ára og 2 til 4 ára og svo til 6 ára síðar, því að þá þurfti aldrei að skipta um nema nokkurn hluta stjórnarinnar, en það náði ekki fram að ganga. Ég tel það vera óeðlilegt að ákveða, að embættismaður, skrifstofustjóri fjmrn., sé fastákveðinn starfsmaður í bankanum eða í bankaráðinu, hvernig svo sem tekst til um skipun í það embætti. Ég tel ekki, að það sé nein trygging fyrir því um aldur og ævi, að í það fari slíkur maður, að hann sé sjálfsagðasti maðurinn í bankaráð. Ég skal viðurkenna, að eins og nú er er ágætur maður í því embætti, en það er engin sönnun fyrir því, að það verði alltaf og ævinlega, auk þess sem ég er alveg viss um, að þetta fyrirkomulag óbreytt hlýtur að skapa það ástand, að ef hér kæmist að ríkisstj., sem ætti ekki nema t.d. einn mann, eða jafnvel kannske ekki nema 2 menn í bankaráðinn, sem væru henni andstæðir í fjármálum yfirleitt, og ekki næðist fullt samkomulag á milli bankaráðsins í þessum banka og fjármálastjórnar ríkisins almennt, þá hlyti það að valda því, að sú ríkisstj. skipti um skrifstofustjóra í fjmrn. til þess að ná þar meiri hl. Og ég tel, að löggjöf, sem byggð er þannig upp, sé ekki eðlileg, síður en svo. Þessu yrði sjálfsagt ekki beitt, nema því aðeins að viðkomandi ríkisstj. sæi sig til neydda, en þá yrði líka alveg áreiðanlega ekki heldur lengi látið biða að gera það, og það gæti orðið til þess, að 18. gr. hefði svona 3 eða 4 skrifstofustjóra á launum, sem ekki væru í starfi. Ég vil hins vegar ekki vera að bera fram brtt. við þetta hér núna. Það er eins og allt annað hægt að ræða það síðar, þegar bankinn er tekinn til starfa og séð er, hvernig þetta virkar, og ávallt hægt að taka það upp, en ég tel, að það sé mjög óheppilegt að hafa þetta eins og hér er ákveðið í frv. Fékkst á þessum ákvæðum nokkur leiðrétting, þar sem fulltrúi seðlabankans er þó kosinn til jafnlangs tíma eins og hinir, en það ákvæði taldi ég nú alveg óviðeigandi eins og það var í frv. áður.

Þetta var í höfuðatriðum ágreiningur milli mín og meiri hl. n. Ég hef lýst því hér, hvers vegna ég hef skrifað undir með fyrirvara. Það er af þessum ástæðum, en ég hef hins vegar ekki viljað bera fram brtt. og mun því fylgja frv. út úr d. eins og það liggur fyrir, ef þær breyt. verða samþ., sem fram eru bornar af meiri hl. n., en mun þó ekki leggja neina áherzlu á 4. liðinn, eins og ég hef tekið fram áður, og mun þá alveg eins fylgja því, þó að sú brtt. verði ekki samþykkt.