31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

42. mál, verðlag

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu fallizt á þau tilmæli frsm. allshn. að taka þessa till. aftur til 3. umr., og geri ég það hér með. Ég vil þó, áður en þessum umr. lýkur hér nú, víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði áðan. Hann vildi skilja mína till. þannig, að í henni fælist ábending til verzlunarstéttarinnar um, að ekkert væri við það að athuga, þótt álagning væri hækkuð um allt að 50% frá því, sem var í tíð fjárhagsráðs og viðskiptanefndar. Þetta er mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh., enda tók ég það mjög greinilega fram í framsöguræðu minni áðan, að það væri ekkert slíkt, sem fyrir mér vekti. Ég teldi, að hér væri um of mikla álagningu að ræða, þó að farið væri að því marki, sem ég miðaði mína till. við, en ég gengi hins vegar svona langt eingöngu í því skyni að reyna að fá samkomulag um eitthvert mark, sem ekki gæti talizt alger fjarstæða. Og það er eingöngu það, sem fyrir mér vakir, þegar ég tala um 50% hækkun frá því, sem áður var.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann ætlaði ekki að fara að elta ólar við áróður Alþfl. í þessu máli, þetta væri flotholt flokksins og annað slíkt. Þetta er alger misskilningur hjá þessum hæstv. ráðherra. Alþfl. þarf ekkert flotholt og það þarf engum áróðri að beita til þess, að allt hugsandi fólk fordæmi ástandið í verzlunarmálunum og meðferð hæstv. ráðh. á þeim. Skýrslur þær, sem hæstv. ráðh. hefur látið frá sér fara um verzlunarálagninguna, eru meira en fullnægjandi til þess að sannfæra menn um, hversu gersamlega hæstv. ríkisstj. hefur brugðizt öllum almenningi til hagsbóta fyrir fámennan hóp okrara. Verkin tala hér sínu máli hjálparlaust, enda var hæstv. viðskmrh. mjög tregur til að birta skýrslur verðgæzlunnar.

Þá vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að yfirleitt væri álagning mjög hófleg, í mörgum tilfellum ekki meiri en áður var og sums staðar jafnvel minni. Þó taldi hann, að um einstakar, fáar undantekningar væri að ræða. Þessi ummæli hæstv. ráðh. sýna betur en nokkuð annað, að það er ekki hægt að afgr. l. eins og þessi, án þess að ráðh. fái ákveðin fyrirmæli um, hvenær honum er skylt að birta nöfn. Viðskmrh., sem t.d. kallar það hóflega álagningu, þegar 85 vörusendingar af bátagjaldeyrisvörum, sem kosta í innkaupum 1.710.000 kr., eru seldar með álagningu, sem nemur 1.726.000 kr., þarf áreiðanlega að fá eitthvert aðhald um það, hvenær ástæða er fyrir hann að grípa í taumana og hvenær ekki. Og einmitt þessi fullyrðing hæstv. ráðh. og þessi afstaða hans til þess, hvað sé hóflegt og hvað sé óhóflegt, sýnir betur, en nokkuð annað, að það er með öllu óforsvaranlegt að afgr. þessi l. án þess, að hæstv. viðskmrh. fái fast aðhald um það, hvenær hann er skyldugur til að birta nöfn.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að fjölyrða meira um þetta mál að sinni, en skal endurtaka það, að ég verð við tilmælum hv. frsm. allshn. um að taka till. aftur til 3. umr.