13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

42. mál, verðlag

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort þá 50% hækkun á álagningu, sem rætt er um í minni till., beri að skoða sem viðurkenningu á því, að álagningarreglur viðskiptaráðs á sínum tíma hafi verið of lágar. Um þetta hefði hv. þm. Barð. ekki þurft að spyrja, ef hann hefði fylgzt með umr., sérstaklega við 2. umr. málsins, því að þá tók ég það greinilega fram, að í þessari till. minni fælist engin viðurkenning á því, að álagningarreglum viðskiptaráðs hafi á sínum tíma verið um of í hóf stillt. Ég tók það fram þegar við 2. umr. málsins, að jafnvel þótt einhverjum hefði fundizt álagningarreglur viðskiptaráðs á sínum tíma um of þröngar, þá væru nú aðstæður svo breyttar, að það, sem hafi verið of hóflegt þá, geti talizt fullkomlega sanngjarnt nú. Benti ég á í því sambandi, að verzlunarumsetningin væri allt önnur og meiri nú en hún var, þegar viðskiptaráð ákvað hámarksálagninguna, og að hin aukna umsetning mundi að sjálfsögðu leiða til aukinna tekna fyrir verzlunina. Ég benti líka á, að innkaupsverð á vörum væri til muna hærra nú, en meðan viðskiptaráð hafði verzlunarálagninguna og hækkað innkaupsverð þýddi auknar tekjur fyrir verzlunina, þar sem um prósentuálagningu á vörur væri að ræða. Ég tók það því mjög greinilega fram við 2. umr. málsins, að í þessari till. minni fælist ekki nein viðurkenning út af fyrir sig á því, að viðskiptaráð hefði á sínum tíma stillt hámarksálagningu í hóf um of.

Annars vil ég segja það um till. hv. þm. Barð., að mér virtist það koma mjög greinilega í ljós hjá honum, þegar hann var að tala fyrir henni, að hann virðist sjálfur skilja hana nokkuð á annan veg, en við a.m.k. flest hver skiljum hana, eftir að við höfum lesið hana með þeirri gaumgæfni og nákvæmni, sem frekast eru tök á. Hv. þm. Barð. vildi halda því fram, að ef hans till. væri samþ., þá væri skyldan til að birta nöfn þeirra, sem lægsta hefðu álagninguna, bundin við það, að álagningin væri ekki aðeins lægst á eina tiltekna vörutegund, heldur væri henni að öllu leyti í hóf stillt hjá þeim, sem nafn sitt vildi fá birt. En elns og till. er orðuð og hv. 8. þm. Reykv. hefur bent á, þá er þetta alger misskilningur hjá hv. þm. Barð. Það er berum orðum fram tekið í till., að það er skylda að birta nöfn þeirra, sem lægsta hafa álagninguna á þá vörutegund, sem einhver hefur verið birtur fyrir að okra á. Þetta er berum orðum fram tekið í till. og ómögulegt að skilja hana á annan veg, en þennan. Og ef verðgæzlustjóri vildi fara að framkvæma þessa till., ef hún yrði samþ., á þann veg, sem hv. þm. Barð. heldur hér fram, þá gæti sá, sem vill fá nafn sitt birt vegna lágrar álagningar, mótmælt slíkri framkvæmd og krafizt þess, að nafn sitt yrði birt fyrir það eitt að hafa lægsta álagningu á eina ákveðna vörutegund, sem annar hefur verið birtur fyrir að okra á. Gefur auga leið, að slík lagasetning og slík framkvæmd mundi óhjákvæmilega leiða til þess, að ýmsir yrðu birtir, sem ekki ættu slíkt skilið, og mundu því lögin verða meira til ógagns en gagns, ef samþ. yrðu.

Ég hafði spurt hv. 8. þm. Reykv. um það, hvað hann teldi hóflega álagningu og hvað hann teldi óhóflega, og ég benti alveg sérstaklega á, að það mundi gefa till. þessa hv. þm. mikið aukið gildi, ef henni fylgdi einhver vísbending frá tillögumönnum til hæstv. ráðh. um það, hvað tillögumenn ættu við með ákvæðinu óhóflegt. Þessi hv. þm. svaraði því til, að það væri útilokað að segja nokkuð ákveðið um þetta. Það eitt vildi þó þessi hv. þm. fullyrða, að sú regla, sem ég í minni till., eins og hann sagði, hefði slegið föstu sem hóflegri hækkun á álagningu, væri í mörgum tilfellum mjög fjarri því að vera hófleg. Út af þessu vil ég einu sinni enn taka fram og undirstrika, þó að ég sé búinn að gera það mörgum sinnum áður, að í því 50% marki, sem talað er um í minni till., felst engin yfirlýsing um það, hvað ég tel hóflegt. Ráðherra er heimilt að birta nöfn, þangað til álagningin hefur hækkað allt að 50% frá því, sem áður var. Og það er berum orðum fram tekið í till., að þó að álagningin hafi ekki hækkað svo mikið, þá geti það engu að siður talizt óhófleg álagning. Þetta er berum orðum fram tekið í till. En það er fyrst, þegar komið er upp yfir 50% markið, sem ég tel að hin óhóflega álagning keyri svo um þverbak, að ekki sé hægt annað, en skylda ráðh. til að birta nöfn. Þetta 50% mark hef ég sett, eins og ég hef margsagt áður, til þess eins að reyna að fá samkomulag um eitthvað, sem mér þætti líklegt, að allir aðrir gætu gengið inn á, en ekki fyrst og fremst vegna þess að ég telji, að ég hafi ekki farið hér of hátt. Hins vegar er það mjög athyglisvert, að hv. 8. þm. Reykv. lýsir því hér yfir, að hann geti ekki gefið hæstv. viðskmrh. neina vísbendingu um það, hvað hann telji óhóflegt í álagningu. Ég verð að segja það, að mér finnst það draga mjög verulega úr gildi till. hv. 8. þm. Reykv., að hæstv. viðskmrh. fær hana upp í hendurnar með yfirlýsingu um það, að tillögumennirnir sjálfir hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvað þeir eigi við með orðinu „óhóflegt“. Þetta gefur ráðh. að sjálfsögðu mjög óbundnar hendur um framkvæmd till. og miklu óbundnari hendur, en æskilegt er, þegar litið er til þeirrar reynslu, sem maður þegar hefur fengið af því, hvernig þessi hæstv. ráðh. hefur framkvæmt þessi mál. Mér hefði fundizt, að ekki hefði mátt minna vera, en að tillögumennirnir hefðu gefið hæstv. viðskmrh. einhverjar lífsreglur og einhverja vísbendingu til að lifa eftir, svo mjög sem hann er fyrir þær þurfandi.

Hæstv. viðskmrh. vildi halda því fram, að í ljós hefði komið, að ég hefði talað hér í algeru heimildarleysi, þegar ég þóttist vera að tala fyrir allshn. hér áðan, eins og hann orðaði það. Út af þessu vil ég aðeins taka það fram, að ég hef aldrei þótzt vera að tala hér fyrir allshn. Þessi fullyrðing ráðh. hlýtur að stafa af því, að hann hefur ekki fylgzt með því, sem ég sagði um þetta mál í minni fyrri ræðu. Ég sagði, að nefndarmenn hefðu ekki orðið á eitt sáttir um afgreiðslu málsins og að uppi væru ýmsar till. um, hvernig með skuli fara. Eitt eru þó a.m.k. fjórir, ef ekki allir nm. á einn máli um, sagði ég, að ekki sé hægt að afgreiða frv. án þess, að hæstv. viðskmrh. fái eitthvert aðhald um birtingu nafna þeirra aðila, er gerzt hafa sekir um óhóflega álagningu. Af þessu dró ég svo þá ályktun, að nm., sem að þessu standa, teldu, að ráðh. hefði haldið svo slælega á þessum málum, að hann þyrfti frekara aðhald. Og allt þetta er rétt frá orði til orðs. Það liggur hér fyrir, að þrír af nm. úr allshn. hafa flutt brtt. við brbl. Þessar brtt. eru byggðar á því, að lagafrv. veitir ekki hæstv. ráðh. það aðhald, sem flm. till. telja nauðsynlegt. Það eru þrír nm., sem þannig hafa farið að. Fjórði nm., hv. 4. landsk., hefur lýst því yfir hér í ræðu áðan, að hann teldi, að í frv. fælist ekki nægilegt aðhald fyrir ráðh. Það þarf þannig ekkert um það að deila, að það er í öllum atriðum rétt hjá mér, að fjórir nm. úr allshn. hafa verið á einu máli um það, að frv., eins og það liggur fyrir, veiti hæstv. viðskmrh. ekki það aðhald, sem hann þarf á að halda. Af þessari staðreynd verður auðvitað ekki dregin önnur ályktun en sú, að ráðh. hafi notað heimildina í brbl. svo slælega, að það sé óhjákvæmilegt að veita honum frekara aðhald, en hann hefur haft. Fram hjá þessu er ekki hægt að komast með neinum skýringum. Þetta eru staðreyndir, sem fyrir liggja í málinu.

Hæstv. viðskmrh. minntist á það í ræðu sinni hér áðan, að Alþfl. berðist fyrir því að koma verðlagseftirlitinu á aftur og berðist fyrir því að koma á aðflutningshömlum. Það er mjög undarlegt með þennan hæstv. ráðh., að í hvert skipti sem talað er um verðlagseftirlit og verðgæzlu, þá á hann mjög erfitt með að halda sér við málið. Hann þarf endilega alltaf að hlaupa í innflutningshöftin og fara að ræða um þau, þegar aðrir vilja tala um verðlagseftirlit. Það þarf náttúrlega ekki um það að efast, hvernig á þessu stendur hjá þessum hæstv. ráðh. Hans framkvæmd á verðlagseftirlitinu og verðgæzlunni í landinu hefur öll verið með slíkum endemum, að þessi hæstv. ráðh. kýs helzt ekki um það að tala og vill heldur ræða um innflutningshöftin. Ég væri að sjálfsögðu mjög fús til þess að ræða við hann um aðflutningshöftin. Hans ferill er þar engu betri, en í sambandi við viðskiptamáli n. En það vill nú bara svo til, að það er hér verðlagseftirlit og lög um verðlagseftirlit, sem eru til umræðu, en ekki aðflutningshöft. Þess vegna tel ég sjálfsagt, að haldið sé sér við það mál, sem er til umræðu, en ekki sé verið að hlaupa út í önnur mál.

Það kom fram hjá einhverjum hér áðan, og það sjálfsagt fleirum en einum, að ekki væri hægt að skoða mína till. öðruvísi en svo, að í þessu 50% marki, sem ég talaði um í henni, felist viðurkenning af minni hálfu fyrir því, að það sé hófleg álagning. Ég vil því enn einu sinni, um leið og ég lýk mínu máli, taka það alveg skýrt og greinilega fram, að allar slíkar skýringar á minni till. eru rangar. Í henni felst ekkert slíkt. Till. tekur það fram, að álagning getur verið óhófleg áður en 50% hækkun er komin frá því, sem gilti, þegar viðskiptaráð fór með þessi mál. Og vegna þess að ég tel og till. segir, að slíkt geti verið óhóflegt, þá er heimild í till. fyrir ráðh. til að birta nöfn áður en 50% markinu er náð. Þetta vil ég enn á ný undirstrika.