04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

12. mál, áfengislög

Lúðvík Jósefsson:

Ég ætla aðeins að gera stutta aths. við ræðu hæstv. dómsmrh. Mér fannst hann geta hér býsna athyglisverðar upplýsingar í sambandi við þá fsp., sem ég lagði hér fyrir, þar sem hann beinlínis játar, að honum sé ekki kunnugt um það, hvaða staðir og hvað margir staðir mundu fá vínsöluheimild samkv. þessu frv., miðað við það ástand, sem er ríkjandi í dag. Valdið í þessu efni á að vera hjá stjórn félags veitingamanna eða stjórn Sambands gistihúsa- og veitingahúsaeigenda. Það er stjórn þessa félagsskapar, sem á að fá heimildina til þess að ákveða um það, hvort allir þeir staðir hér í Reykjavík, sem hafa mat á boðstólum og fjölbreytta drykki aðra, fá heimild til þess að selja vín eða hvort staðirnir verða aðeins einn, tveir eða þrír. Ég vil aðeins benda þeirri hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, á þetta atriði, hversu fráleitt það er í sjálfu sér að ætla að slá slíku föstu í lögum, að heimila þessum félagssamtökum, sem ég verð nú að játa að ég þekki ekki neitt, veit því ekki neitt um, hvernig eru mönnuð og hvernig það er skipað á annan hátt, — en ég verð að játa, að hvaða félagssamtök sem þetta eru, þá þykir mér, að Alþ. afhendi þeim býsna mikið vald að heimila þeim að ákveða á hverjum tíma, hversu langt þessi vínveitingaheimild nær, — að á meðan í lögunum er engin skilgreining á því, hvað raunverulega telst 1. flokks veitingahús, engin skilgreining önnur en þessi, að það skuli vera stjórn þessara samtaka, sem ákveði það hverju sinni, þá verð ég að segja, að mikið vald er lagt í hendurnar á þessari stjórn í þessum efnum.

Það atriði í frv., sem segir, að það skuli einnig leita umsagnar bæjarstjórnar og áfengisvarnanefndar, áður en vínveitingaleyfi er veitt, segir í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut. Það skiptir engu máli, hvort bæjarstjórnin væri einróma á móti vínveitingaleyfinu og áfengisvarnanefndin líka einróma á móti því, að vínveitingaleyfi væri veitt. Eins og ákvæðið er í frv., þá skiptir það engu máli. Þar á aðeins að fullnægja því litla formi að spyrja þessa aðila, þeir mega svara eftir vild, en það á ekkert eftir því að fara.

Ég hjó líka eftir því, að hæstv. dómsmrh. viðurkenndi, að það hefði borið á því í því eina gistihúsi hér í bænum, sem hefði haft vínveitingaheimild hér áður, að þá hefði dregizt að því húsi ýmislegt, sem var ekki alls kostar þægilegt, eða eins og hann talaði um, svona nokkuð óæskileg læti, sem hefðu sett á það leiðindablæ og erlendir gestir hefðu jafnvel þurft að kvarta undan. Ég efast ekkert um, að þetta er rétt. En mér skilst þá, að hans ráð gegn þessu felist aðallega í því að vilja dreifa þessum óeðlilegu látum og þessum leiðindablæ bara á nógu marga staði í bænum og láta þannig bera kannske heldur minna á þeim. Ég er ósköp hræddur um það, að sá sami leiðindablær, sem þar var ríkjandi að vissu leyti, færist einnig yfir á fleiri staði, hann minnki jafnvel ekkert á þessum eina stað frá því, sem áður var, en staðirnir verði bara allir komnir með þennan leiðindablæ á eftir og að erlendir gestir og reyndar innlendir líka gætu þá kvartað undan því, að það væri ekki aðeins á þessum eina stað, sem þeir rækju sig á þetta, heldur kannske á öllum hinum stöðunum líka. Það væri sem sagt hvergi hægt undan þessu að komast, ef þessi skipan yrði tekin upp, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil vænta þess, að hv. n., sem tekur málið til athugunar, kynni sér einmitt þetta meginatriði frv. mjög ýtarlega og að hún verði við þeirri ósk minni að gefa um það ýtarlegar upplýsingar hér við meðferð málsins í þinginu, hvað margir staðir hér í bænum mundu flokkast, eins og nú er háttað, undir veitingastaði í 1. flokki og við hvað mörkin yrðu yfirleitt sett í þeim efnum, svo að maður geti gert sér nokkra grein fyrir því, hvort við því má búast, að samþykkt frv. í líku formi og það er nú mundi þýða það, að margir tugir staða hér í bænum fengju vinsöluheimild eða ekki.