02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Flm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Þetta frv. um brunatryggingar utan Reykjavíkur, sem flutt er af mér og hv. þm. Vestm. (JJós) á þskj. 622, er, eins og frv. ber með sér, heimild fyrir bæjar- og sveitarstjórnir utan Reykjavíkur til að semja um brunatryggingar við eitt eða fleiri tryggingarfélög á húseignum þeim í umdæminu, sem tryggingarskyldar eru.

Svo sem kunnugt er, kom frv. fram í Nd. í sambandi við brunatryggingar í Reykjavík. Við flm. teljum ekki þinglegt að samþykkja breytingu þá, er samþykkt var gagnvart Brunabótafélagi Íslands í Nd., auk þess sem frv. þetta er ekki samhljóða breytingu þeirri, er flutt var í Nd. Í þessu frv. er ekki talað um leiðir til að endurtryggja, að bæirnir taki að sér endurtryggingarnar eða sveitarfélögin, og auk þess er lengri frestur, sem tekinn er í frv., þar sem lögin áttu að taka gildi þegar í stað eftir frv. því, sem í Nd. var, en í frv. okkar er gildistakan miðuð við 15. okt. 1955. Er það gert vegna þess, að það þótti of stuttur tími til umráða til þess, bæði fyrir tryggjendur og fyrir tryggingarfélagið, Brunabótafélag Íslands, að taka þeirri breytingu, ef að lögum verður, sem hér er farið fram á.

Eftir þeim umræðum að dæma, sem fram fóru hér í þessari hv. d. í gær og í Nd. áður, sýndi það ótvírætt, að fylgi hlýtur að vera fyrir því að koma þessum málum fram á þennan eða svipaðan hátt.

Ég vísa að öðru leyti til grg. og óska eftir, að frv. gangi til 2. umr. og allshn.