03.12.1953
Neðri deild: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

111. mál, menntun kennara

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Síðan Húsmæðrakennaraskóli Íslands tók til starfa árið 1942, hefur hann verið til húsa í kjallara Háskóla Íslands. Það mun allt benda til þess núna, að húsmæðrakennaraskólinn þurfi að víkja úr þessu húsnæði, og þá er ljóst, að hann þarf að verða sér úti um einhvern annan húsakost.

Allir munu vera sammála um það, að húsmæðrakennaraskólinn hafi merku og nauðsynlegu hlutverki að gegna og það beri því brýna nauðsyn til þess að skapa honum sem bezt starfsskilyrði.

Á sínum tíma mun hafa verið gert ráð fyrir því, að byggt yrði yfir skólann, enda er minnzt á það í lögunum um húsmæðrakennaraskóla, að það verði einhvern tíma gert.

Það mun hafa verið á árinu 1943, að byggður var húsmæðraskóli á Akureyri. Það var ekki þá um leið byggð heimavist fyrir skólann, og núna hin síðari ár hefur verið ákaflega lítil aðsókn að skólanum. Þeir, sem eru þessum málum kunnugastir á Akureyri, telja, að ekki verði unnt að leysa vandkvæði skólans hvað aðsókn snertir nema með því eina móti að byggja heimavist yfir skólann. Það mun hafa verið í fyrravetur, að stjórn húsmæðraskólans sneri sér til menntmrn. og gaf því til kynna, að hún væri þess hvetjandi, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands flytti til Akureyrar og fengi til afnota þetta ágæta hús kvennaskólans. Húsið er ákaflega vel úr garði gert, stendur á góðum stað í bænum, og því fylgir gríðarlega stór lóð. Einnig má geta þess, að þarna eru góð skilyrði fyrir garðrækt, en garðrækt er einmitt einn liðurinn í kennslu húsmæðrakennaraskólans.

Tilgangurinn með þessu frv. er að breyta því ákvæði í lögunum frá 1947, IV. kafla þeirra laga, sem fjallar um húsmæðrakennaraskóla, að húsmæðrakennaraskólinn skuli starfa í Reykjavík. Með frv. þessu er lagt til að fella þetta ákvæði niður, svo að fræðslumálastjórnin geti ákveðið skólanum stað utan Reykjavíkur og nágrennis, ef æskilegt teldist. Eins og nú er háttað, virðist engin ástæða til þess að binda skólahaldið við Reykjavík, og sízt af öllu, ef unnt er svo til þegar í stað að leysa húsnæðisvandræði stofnunarinnar.

Ég vil einnig benda á það að Háskóli Íslands mun þurfa á núverandi húsnæði húsmæðrakennaraskólans að halda, og það er alls kostar ljóst, að það mundi taka mörg ár að byggja yfir húsmæðrakennaraskólann það hús, sem hann þyrfti hér í Reykjavík til þess að sinna sínu hlutverki, og að slíkt hús mundi kosta verulega fjárupphæð. Og ég held, að flestir líti nú þannig á, að kostnaðurinn í sambandi við menntamálin sé orðinn slíkur, að nauðsyn sé til að nema staðar og reyna að spara á því sviði eins og kostur er. Hús húsmæðraskólans á Akureyri er mjög praktískt og mundi henta húsmæðrakennaraskólanum vel, lóðin stór, og yfirleitt má segja, að skilyrðin þar séu hin beztu. Auk þess má geta þess, að húsmæðrakennaraskólinn gæti þá þegar á þessu ári fengið þetta hús til afnota, ef fræðslumálastjórnin féllist á að flytja skólann til Akureyrar.