26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

91. mál, kristfjárjarðir

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég get þakkað landbn. fyrir afgreiðslu hennar á málinu. Ég sé, að hún hefur lagt mikla vinnu í að athuga þetta frv. og gert við það allmiklar brtt., sem eru þó að mestu leyti nánari útfærsla á því, sem frv. segir til um. Í raun og veru hefur n. algerlega fallizt á, að þá leið verði að fara, sem frv. gerir ráð fyrir, í fyrsta lagi viðurkenna sölu á þeim kristfjárjörðum og jörðum í fátækraeign, sem búið er að selja, og í öðru lagi að leyfa með vissum skilyrðum sölu á þeim jörðum, sem enn eru óseldar eða óráðstafað hvað þetta snertir.

Það var nokkuð talað um ýmis atriði, sem koma fram í brtt. hv. landbn., þegar þetta frv. var samið, og kom þá fram það álit, að það gæti verið eins gott að setja ýmis nánari ákvæði í reglugerð varðandi málið. En hv. landbn. hefur valið þá leið, sem ég álit að sé alveg rétt og góð, þegar um slíkt mál er að ræða og þetta, sem er á mörkum þess — má kannske segja — að Alþingi geti sett löggjöf um það, eins og þetta hefur verið frá upphafi, að taka inn í frv. í raun og veru nákvæm reglugerðaratriði um það, hvernig með þetta skuli farið. Ég skal taka fram, að ég er þessum brtt. og þessari nánari útfærslu á þessu samþykkur í meginatriðum eins og það er sett fram.

Það er í raun og veru — held ég — ekki nema eitt efnisatriði, sem má segja að sé hrein brtt. efnislega frá því, sem er í frv., og tel ég það til bóta. Það er það, að þess skuli gætt fyrst og fremst, að þeir, sem samkv. gjafabréfum eða gömlum ákvörðunum eiga að fara með þessi mál, skuli gera það áfram, þar sem það er hægt. En n. fellst svo á hitt sem sjálfsagt varaúrræði, að það séu hreppsnefndirnar, sem þá taka við, og það mun nú víst vera í mjög mörgum tilfellum, að þannig er ástatt um þetta, að ekki er hægt að vita með vissu, hvaða aðilar það eru, sem með þetta skyldu fara.

Ég þakka landbn. fyrir afgreiðslu málsins og er till. hennar samþykkur og tel, að með þessu sé gengið frá máli, þótt ekki sé neitt stórmál þjóðfélagslega séð, sem nauðsynlegt hafi verið að fá rétta skipun á og losna við það öryggisleysi og réttarleysi í raun og veru, sem yfir þessu hefur hvílt að undanförnu.