18.02.1954
Neðri deild: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (2749)

142. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Mér skildist á hv. 8. landsk., sem hafði framsögu fyrir þessu máli, að það væri yfirleitt verr búið að bændum við að rækta gömlu túnin heldur en að taka fyrir nýrækt. Slíkt hygg ég að sé alger misskilningur, vegna þess að það hafa verið ákvæði í jarðræktarlögunum nú um tólf ára skeið, sem gera mönnum það miklu auðveldara fjárhagsins vegna að leggja í endurræktun gömlu túnanna heldur en í nýrækt, vegna þess að styrkurinn til endurræktunar á gömlum túnum er um helmingi hærri en til nýræktar, og sér þá hver heilvita maður, hvort ekki er auðveldara fyrir bóndann að endurrækta sitt gamla tún heldur en að ráðast í nýrækt, sem kostar margfalt meira undir flestöllum kringumstæðum.

Það var á árunum 1942, sem var fyrst hafizt handa um að veita styrk — þá til tíu ára — til að rækta gömlu túnin. Þessi ákvæði gilda enn í dag. Það má margt um þessi mál ræða, en ég ætla ekki að fara út í neinar víðtækar umr. um þau nú að þessu sinni.