24.11.1953
Neðri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Frá því að ég talaði hér nokkur orð í gær, hafa þrír ræðumenn sósíalista flutt alllangar ræður. Ég vil ekki tefja umr. með því að fara að karpa um minni háttar atriði, og ég veit, að ef ég færi að svara þeim orði til orðs, þá yrði það til þess eins, að umr. mundu dragast úr hófi fram. Hins vegar finnst mér nokkur ástæða til þess að þakka öllum þessum hv. ræðumönnum fyrir þann kærleika, sem ég sé að enn leynist í þeirra hjarta í minn garð. Ég tel, að þeir hafi átt það sameiginlegt allir í sínum ræðum að vera mjög vinveittir í minn garð, og maður er náttúrlega þakklátur fyrir það, þó að um andstæðinga sé að ræða — og ekki síður. Ég veit hins vegar ekki, hvort ég verðskulda það lof, sem þeir beint og óbeint hafa borið á mig, og kæri mig náttúrlega ekki heldur um að verðskulda það, ef það á að kosta einhverja linkind við þeirra höfuðstefnumál í þjóðmálum.

Ég vil svo að öðru leyti aðeins segja, að í þeirri ræðu, sem ég flutti hér í gær, var það tvennt, sem ég lagði höfuðáherzlu á. Annað var að sanna faðerni fjárhagsráðsl. Það, sem ég sagði um það, stendur óhaggað. Hitt meginatriðið var, hvort hér væri um að ræða aukið frelsi eða ekki. Ég hef um það mínar skoðanir og tel, að bókstafurinn sanni mitt mál, en ef menn vefengja það, þá segi ég það bæði við hv. síðasta ræðumann, 9. landsk., og aðra þá menn, sem hér hafa talað af hendi hans flokks, að við skulum spyrja reynsluna að því, þegar hún er fallin á. Við höfum nú haft reynslu nokkuð á 7. ár um l. um fjárhagsráð. Ef við hittumst hér á Alþ. að viðlíka tíma liðnum og spyrjum, hvort þessi l. hafi fært þjóðinni eitthvað annað meira og betra, þá veit ég, að ekki mun standa á þeim að viðurkenna, að ég hafi haft á réttu að standa þá, eins og mér sýnist raunar að þeir hafi tilhneigingu til þess að álita að ég allajafna hafi.

Ég læt svo ekki þær einstöku rökvillur, sem gætu gefið ástæðu til andmæla, verða freistingu á mínum vegi til að tefja framgang þessa máls og læt þess vegna þessa stuttu aths. nægja. Ég vil þó aðeins bæta því við, að til mín beindi hv. 9. landsk. fyrirspurn varðandi málssókn á hendur borgurum í Vestmannaeyjum út af því, að þeir hafi hrotið lög um heimildir til byggingarleyfa, hvort sakir mundu falla niður á þessa menn. Ég sé ekki ástæðu til þess að svara þessu, fyrr en ég hef haft tækifæri til að bera mig saman um það við þá menn í stjórninni, sem það sérstaklega fellur undir, og veit, að hv. þm. gerir sér ljóst, að það er ekki hægt að ætlast til annars af mér á þessu stigi málsins.