05.02.1954
Sameinað þing: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2860)

108. mál, vegastæði milli Siglufjarðar og Skagafjarðar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Því er nú þannig háttað, að af fjórum flm. að þessari þáltill. á þskj. 190 er ég hér einn viðstaddur. Hinir þrír flm. hafa allir boðað forföll. En þótt hv. þm. Siglf. sé 1. flm. og hefði að sjálfsögðu mælt fyrir till., ef hann væri hér, þá tel ég þó rétt að fylgja henni úr hlaði með örfáum orðum og á þann hátt flýta fyrir því, að hún geti strax gengið til nefndar, vegna þess að okkur flm. er það áhugamál, að þessi till. verði athuguð og afgreidd hér á hinu háa Alþingi og það á þessu þingi. — En till. fjallar um það, að ríkisstj. láti fara fram athugun eða rannsókn á, á hvern hátt Siglufirði verði helzt komið í varanlegt vegasamband við Skagafjörð, og þessari athugun verði lokið fyrir 1. okt. í haust, eða áður en væntanlegt Alþingi tæki þá til starfa.

Það eru nú sjö eða átta ár síðan vegasamband opnaðist milli Siglufjarðar og Fljóta, yfir svonefnt Siglufjarðarskarð, sem er einn af erfiðustu og hæstu fjallvegum hér á landi milli byggða. En það er sannast að segja, að þetta vegasamband hefur reynzt svo ófullkomið á allan hátt, að það er alveg óhugsandi, að við verði unað til lengdar. Eins og fram er tekið hér í grg. fyrir frv., þá er þetta ekki nema örstuttur tími af árinu, 2–3–4 mánuðir, sem hægt er að segja að þarna sé um raunverulegt vegasamband að ræða. Jafnvel í jafnsnjólausum vetri og þessum, þar sem svo má segja, að allt landið sé snjólaust, er Siglufjarðarskarð þó algerlega ófært.

Þegar þessi vegur var gerður í fyrstu, þá var fyrst og fremst búizt við því, að þessi vegarbót mundi ekki kosta tiltölulega mjög mikið og væri því hægt að koma þarna á vegasambandi, sem að vísu ávallt var vitað að yrði ekki nema sumarvegasamband, fyrir tiltölulega lítið fé. Þetta reyndist nú á allt annan veg. Vegurinn varð mjög dýr og kostaði mikið. Svo hefur það komið ofan á, að þegar sambandið opnaðist, þá urðu notin af honum enn minni en menn höfðu þó gert sér vonir um áður. Og það liggur í hlutarins eðli um jafnstóran kaupstað og Siglufjörður er, með 3000 íbúa, þótt ekki sé gert þar ráð fyrir neinni verulegri fólksfjölgun fyrst um sinn, að það er ekki hægt við það að una fyrir svo stóran kaupstað, að ekki sé um sæmilega greiðfært vegasamband að ræða við þjóðvegakerfi landsins, auk þess sem Siglufjörður fær mestallar sínar landbúnaðarvörur úr Skagafirði, liggur enda langbezt. Tiltölulega öruggt vegasamband mikinn hluta ársins er því geysilega mikils virði milli Siglufjarðar og Skagafjarðar. Það má því segja, að þar mætist algerlega hagsmunir Siglufjarðar og Skagfirðinga um þetta efni, enda eru það þm. Skagfirðinga og þingmenn Siglfirðinga, sem flytja þessa þáltill. sem sérstakt hagsmunamál þessara tveggja héraða, þótt segja megi, að þetta snerti allt landið, eins og raunverulega er, þegar á að greiða fyrir samgöngum milli stórra staða, útiloka það, að sumir staðir verði einangraðir. Það varð uppi sú skoðun, þegar þessi vegur var lagður, af mörgum, sem þarna bjuggu nærlendis, svo sem í Fljótum. að það hefði átt að fara allt aðra leið með veginn, og við flm. bendum hér á þá leið. Það er sú leið að fara í kring út Almenninga, sem kallaðir eru, út frá Hraunum og um svonefnda Stráka, Úlfsdali og síðan til Siglufjarðar. Athugun á að leiða í ljós, hvort þessi ábending okkar hafi ekki við rök að styðjast, en það veit ég, að fjöldi kunnugra manna telur, að þarna verði aldrei um veruleg snjóþyngsli að ræða, nema þá í sérstaklega snjóþungum vetrum, og að á þennan hátt væri hægt að koma á sambandi, sem mundi haldast nokkuð svipað og aðrir venjulegir heiðavegir hér á landi, skulum við segja, sem geta verið færir stundum allan veturinn og stundum mikinn hluta ársins. En ég þori að fullyrða, að fyrir þessi byggðarlög, einkum Siglufjörð annars vegar og Fljót og aðra úthreppa Skagafjarðar að austan hins vegar, er þetta eitt mesta áhugamál þeirra. Og ég hygg, að fátt væri betra fyrir Siglfirðinga sjálfa, sem hafa átt í miklum erfiðleikum vegna atvinnuvandræða af ástæðum, sem við allir vitum, hv. þingmenn, en að hægt væri að greiða úr þessum hlutum, þannig að vegasamband til þeirra yrði betra og greiðfærara. Hér er ekki farið fram á annað en að rannsókn fari fram um þessa hluti, sem síðan geti legið fyrir Alþingi nú á næsta þingi. Sú rannsókn þarf náttúrlega að fela í sér tvennt, fyrst vegarstæðið og einkum þó að safna upplýsingum um snjóþyngsli á því og svo hins vegar sem niðurstöðu af því, hvað mikinn kostnað þarna væri um að ræða við að leggja veg þessa leið til Siglufjarðar.

Ég sé nú ekki ástæðu til að láta fleiri orð fylgja þessu af hálfu okkar flm. en leyfi mér að mæla með því, að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.