10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2897)

198. mál, fiskveiðasjóður

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig langaði til að leggja hér nokkur orð í belg í sambandi við þær umr., er fram fara um fiskveiðasjóðinn og eflingu hans.

Þó að það sé mjög að áliðnu þingi, sem fram koma þær tvær till., sem hér eru á dagskránni í dag, um eflingu fiskveiðasjóðs, þá er það síður en svo, að það hafi ekki verið um það mál rætt meðal þm., meðan á þessu þinghaldi hefur staðið, eins og hæstv. forsrh. vék að í sinni ræðu. Ég vil leyfa mér að taka mjög undir þau hvatningarorð, sem fram komu í framsöguræðu hv. þm. Borgf., hversu mikla nauðsyn nú bæri til að efla fiskveiðasjóðinn. Eins og hann gerði grein fyrir, er þetta af tvennum sökum. Í fyrsta lagi vegna þess, að sjóðurinn er nú eins og sakir standa mjög vanmegnugur þess að gegna hlutverki sínu. Í öðru lagi, að vegna þeirra breytinga, sem orðið hafa í sambandi við landhelgislínuna, standa nú vonir til þess, að mjög muni fara í vöxt og eflast sá atvinnuvegur, sem tengdur er sérstaklega við fiskveiðar á bátunum hér. En ég vildi leyfa mér að vekja athygli á því, hversu sérstaklega stendur á um fiskveiðasjóð Íslands og hversu brýna nauðsyn ber til þess, að einmitt nú og eigi síðar sé hafizt handa um eflingu hans, eins og ég reyndar veit að hv. þm. gera sér kannske meira og minna eða fyllilega ljóst.

Á árum nýsköpunarstjórnarinnar, sem svo var nefnd, átti sér stað á mjög skömmum tíma afar ör endurnýjun bátaflotans hér eins og margra annarra atvinnutækja. Þá var svo komið, að fiskveiðasjóðurinn gerði ekki betur, ásamt með öðrum sjóðum, sem þá voru til þess stofnaðir, en að fullnægja þeirri miklu eftirspurn, sem þá var eftir lánsfé til sköpunar nýrra atvinnutækja. Síðan verður hlé á bátasmíðinni og bátakaupunum og þannig, að fiskveiðasjóðnum safnast allmikið fé á okkar mælikvarða, þannig að um s. l. áramót á fiskveiðasjóður í sjóði sínum um 18 millj. kr. En þó að svo sé, þá hefur nú aftur svo umbreytzt vegna þess, að endurnýjun bátaflotans hefur legið niðri og vegna nýrra viðhorfa í sambandi við fiskveiðarnar, að á þessu ári, sem nú er að líða, mun þessi innstæða verða uppurin að fullu og enda langt því frá að sjái þá fyrir endann á því, að fiskveiðasjóðurinn sé þess umkominn að mæta þeirri miklu eftirspurn eftir stofnlánum, sem fyrir liggur. Þann 31. marzmánaðar voru lánsloforð hjá fiskveiðasjóði rúmar 16 millj. kr. Þá hafði bankainnstæða eða sjóður fiskveiðasjóðsins lækkað úr þessum 18 millj. um áramót niður í 16½ millj. kr., þannig að á þessum tímamótum, um s. l. mánaðamót, stendur nokkurn veginn í járnum innstæðufé sjóðsins og þau lánsloforð, sem hann er búinn að veita. En á sama tíma liggja fyrir lánsbeiðnir hjá fiskveiðasjóði, sem nema um 18½ millj. kr., en ekki hefur verið hægt að sinna eða taka til afgreiðslu eða gefa fyrirheit um úrlausn á á þessu tímabili. Þróun málanna hefur þess vegna verið þannig, að undanfarin ár hefur fiskveiðasjóður verið þess umkominn að sinna sínu hlutverki og hefur safnað innstæðum, sem ná hámarki um s. l. áramót, en vegna gerbreytingar í þessum málum mun fara þannig, að þær gersamlega þrjóta á þessu ári, og er þá langt í land að sinna þeim lánsbeiðnum, sem í heild liggja fyrir í sambandi við endurnýjun bátaflotans.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. skilji fullkomlega sjónarmið þau, sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh., að ríkisstj. hefur staðið í stórræðum á þessu þingi að uppfylla þau loforð, sem gefin voru við myndun núverandi stjórnar og skyldu ganga fyrir öðrum. Við verðum að vissu leyti að gera okkur grein fyrir því, að það er ekki hægt að gera allt í senn, byggja íbúðarhús, rafvæða landið og endurnýja skipastól og bátaflota í einu vetfangi. Það hefur þess vegna einnig orðið þannig, að það er nú fyrst í lok þingsins, sem fram koma till. um að undirbúa aðgerðir til þess að efla fiskveiðasjóðinn, og er það á elleftu stundu. Og enda þótt mörg og mikilvæg verkefni séu nú fram undan á öðrum sviðum þjóðmálanna hjá okkur og atvinnulífsins, þá eru sennilega fá, sem meira er um vert að greiðist fram úr heldur en efling fiskveiðasjóðsins, eins og lagt er til í þeim báðum þáltill., sem á dagskránni eru í dag og ég hef leyft mér að ræða samtímis.

Ég vildi aðeins með þessum fáu orðum mínum undirstrika þá miklu og brýnu nauðsyn, sem ég tel vera á því, að það megi takast fyrir næsta þing að undirbúa þessi mál svo, að fiskveiðasjóðurinn megi eiga von á nýju lánsfé og þar með sú atvinnugrein, sem fiskveiðasjóðurinn styrkir, fá nýtt lánsfé og nýja örvun til uppbyggingar í landinu. Sannleikurinn er sá, að ef ekki tekst að greiða fram úr þessum málum á yfirstandandi ári, þá horfir hér til stórra vandræða.

Inn í þetta mál hefur svo blandazt auðvitað náskylt mál, en þó nokkuð annars eðlis, og það er, hvar bátasmíðin eða hvar bátakaupin skuli gerast, hvort örva eigi sérstaklega bátasmíðina innanlands eða leyfa mönnum að kaupa báta erlendis frá, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Vestm. (JJós). Inn í það mál skal ég ekki blanda mér á þessu stigi, en vildi aðeins með þessum fáu orðum leggja áherzlu á þá miklu nauðsyn, sem ég tel hér vera fyrir hendi, og ég efa það ekki fremur en hæstv. forsrh., að báðar þessar þáltill. muni ná fram að ganga. En á mestu veltur vissulega framkvæmd þeirra og hvernig tekst til um að sjá farborða því máli, sem þær stefna að, þ. e. að efla fiskveiðasjóðinn á einn eða annan hátt og bæta þar með aðstöðuna til fiskveiða á bátaflotanum hér við land.