11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (3372)

67. mál, fiskskemmdir

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt, bárust hingað snemma á s. l. vori mjög alvarlegar kvartanir yfir göllum eða skemmdum á hraðfrystum fiski, sem seldur hafði verið til tveggja viðskiptalanda okkar, Tékkóslóvakíu og Austurríkis. Þessi fiskur hafði verið sendur héðan um s.l. áramót, og kvörtuðu kaupendur bæði yfir slæmum og hroðvirknislegum frágangi á fiskinum og beinum skemmdum á vörunni sjálfri. Hér var að sjálfsögðu mikið alvörumál á ferðum, sem nauðsyn bar til að tekið yrði föstum tökum. Þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, hve mikið við Íslendingar eigum í húfi í sambandi við vöruvöndun, ekki sízt þegar um er að ræða aðalútflutningsvöru landsmanna. Atvmrn. brá og við, þegar kvartanir þessar bárust seint í marzmánuði, boðaði ýmsa aðila þessa máls til fundar, þ. á m. stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, fiskmatsstjóra, yfirfiskmatsmenn og fleiri. Samkv. tilkynningu, sem atvmrn. birti um mál þetta í blöðum hinn 11. apríl, voru fundarmenn á einu máli um það, að grafast yrði þegar í stað fyrir orsakir þessara fiskskemmda. Jafnframt var lögð á það áherzla, að þeir, sem sekir reyndust, sættu verðskulduðum viðurlögum. Á fundinum var samþykkt, að framkvæmd yrði rannsókn á öllum fiski í hverju einasta frystihúsi landsins og að fulltrúum fiskframleiðenda og fiskmatinu yrði falið að annast þessa rannsókn. Þær ráðstafanir, sem hér um ræðir, voru réttmætar og sjálfsagðar, nema hvað ástæða er til að gagnrýna það, hvaða aðilum var falið að framkvæma rannsóknina. Virðist það næsta hæpin ráðstöfun að fela þeim aðilum að kanna þetta mál, sem höfuðábyrgðina hlutu að bera á því, sem miður hafði farið. En þessi háttur var nú á hafður, og skal ég ekki fara fleiri orðum um það í þeim stutta tíma, sem ég hef hér til umráða. Hins vegar hef ég leyft mér að spyrja, hvað rannsókn þessi hafi leitt í ljós. Í annan stað spyr ég að því, hvort gerðar hafi verið eða í undirbúningi séu af hálfu atvmrn. eða fiskmatsstjóra ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að skemmdir á aðalframleiðsluvöru okkar, fiskinum, geti átt sér stað í stórum stíl.

Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn, sem fram hafa komið á síðari árum kvartanir út af gölluðum eða skemmdum fiski. Þarf ekki að lýsa því, hve alvarlegt mál það er, ef miður vönduð framleiðsla verður til þess að stórspilla sölumöguleikum okkar. Sú var tíðin, að íslenzkur fiskur var viðurkenndur á mörkuðum fyrir gæði. Við megum vissulega ekki við því að glata þeim orðstír, sem farið hefur af þessari mikilvægu framleiðsluvöru. Öll mál, sem snerta óvandaða framleiðslu á sjávarvöru, ber því að taka föstum tökum. Ég vænti þess, að svo hafi verið gert í því tilfelli, sem hér um ræðir.

Fsp. mín er fram borin til þess að fá upplýst, hvað rannsókn sú, sem boðuð var í vor, hefur leitt í ljós og þó ekki síður til hins, að vita, hvort ekki hefur af þessu gefna tilefni og á grundvelli rannsóknarinnar þótt tiltækilegt að gera ráðstafanir, sem að haldi gætu komið til að fyrirbyggja alvarlegar skemmdir á mikilvægustu og verðmætustu útflutningsafurðum okkar.