31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3483)

180. mál, togaraútgerðin

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Nú um nokkurt skeið hefur togaraútgerð Íslendinga átt við mikla og sívaxandi örðugleika að etja. Virðist ekki annað fyrirsjáanlegt, ef ekkert verður að gert, en að allur togarafloti landsmanna stöðvist á næstu vikum, en það mundi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn, ef þessi mikilvirku framleiðslutæki yrðu bundin við landfestar, ef til vill um langan tíma.

Skýrslur sýna, að útflutningsverðmæti þau, sem togararnir framleiða, eru geysimikil. Með því fyrirkomulagi, sem verið hefur nú um nokkurra mánaða skeið eða í meira en hálft ár, að togararnir leggi fiskinn upp til vinnslu og verkunar hér innanlands, hefur togaraflotinn verið undirstaða blómlegs atvinnulífs í mörgum kaupstöðum og sjávarþorpum landsins. Ætti að vera þarflaust að fara um það mörgum orðum, að brýna nauðsyn ber til, að komið verði í veg fyrir stöðvun flotans.

Mjög hefur verið undan því kvartað, einkum nú í vetur, að erfiðlega gangi að fá menn á togarana. Orsakirnar eru ýmsar, en þó fyrst og fremst þær, að togarasjómenn bera of lítið úr býtum fyrir hina miklu vinnu, sem þeir verða að leggja fram. Þeir bera einnig áhættu sjómennskunnar, búa við langvarandi fjarvistir frá heimilum, verða að kosta miklu til hlífðarfata, en bera þó sízt meira frá borði en víða er greitt fyrir léttari, áhættuminni og þægilegri vinnu í landi. Sérstaklega eru kjörin á saltfiskveiðum, þar sem erfiðið er hvað mest, algerlega óviðunandi. Afleiðingin hefur orðið sú, að vanir togarasjómenn hafa í stórum stíl horfið af skipunum, en viðvaningar komið í þeirra stað, hafi skipin þá ekki orðið að láta úr höfn án þess að hafa fulla tölu skipverja. Þetta er orðið alkunnugt.

Hinn tilfinnanlegi skortur á vönum sjómönnum hefur síðna haft þær afleiðingar, að skipin fá minni afla og eru lengur en ella í hverri veiðiför. Þá hafa einnig orðið brögð að því, eins og skiljanlegt er, að meðferð og nýtingu aflans hefur hrakað, en það er að sjálfsögðu stórhættulegt fyrir allan orðstír íslenzkrar sjávarvöru. Allt hefur þetta leitt það af sér, að afkoma útgerðarinnar hefur stórversnað, svo að nú virðist ekki annað fyrir hendi en að leggja verði stórvirkustu veiðitækjum Íslendinga við festar, á sama tíma sem fiskafurðir virðast þó sæmilega vel seljanlegar og þörfin á erlendum gjaldeyri er svo brýn sem allir vita.

Fyrir skömmu birtist í blöðum og útvarpi skýrsla eða álitsgerð Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda eða stjórnar þess félags um hag togaraútgerðarinnar og framtíðarhorfur. Lýsingin var á þá leið, að margir togaranna hefðu um langt skeið tapað frá 4–6 þús. kr. á dag að jafnaði. Kemst stjórn félagsins að þeirri niðurstöðu, að óhjákvæmileg stöðvun vofi yfir flotanum, fáist ekki stórfelld breyting á þeim kjörum, sem togararnir eiga við að búa. álitsgerð þessari er jafnframt frá því skýrt, að forsvarsmenn togaraútgerðarinnar hafi rætt um hin sívaxandi fjárhagsvandræði togaranna við hæstv. ríkisstj. og fulltrúa hennar. Um undirtektir ríkisstj. er ekkert getið, en af ummælum, sem hæstv. forsrh. lét falla hér á Alþ. í síðustu viku, virðist mega ráða, að ríkisstj. hafi enn sem komið er lítið eða ekkert lagt til þessara mála. Mátti jafnvel skilja ummælin á þá leið, að stjórnarvöldin vildu sem allra mest hliðra sér hjá að hafa afskipti af þessum vanda, sem nú hefur að höndum borið. Hér virðist þó svo mikið í húfi, að stjórnarvöld landsins geti ekki látið það afskiptalaust, ef togaraflotinn stöðvast, heldur hljóti að leita úrræða, og það fremur fyrr en síðar.

Nú mun vera ætlunin að slíta Alþ. fyrir páska, og þykir mér því full nauðsyn til bera, að þingið fái eitthvað að vita um það, hvaða leiðir hæstv. ríkisstj. hyggst fara til að leysa vandkvæði togaraflotans og bæta kjör togarasjómanna. Ég tel það gersamlega óhæf vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj., ef hún ætlar að senda Alþ. heim, án þess að það hafi fjallað um þetta vandamál, sem snertir hag og afkomu þúsunda manna víðs vegar um land. Opinberar aðgerðir virðast hér óhjákvæmilegar. Með hliðsjón af fyrri vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. í hliðstæðum málum vaknar óneitanlega sá grunur, að hún ætli að halda að sér höndum, unz Alþ. hefur verið slitið, og taka þá fyrst ákvarðanir í þessu efni, ákvarðanir, sem vissulega gætu orðið örlagaríkar fyrir þjóðarheildina.

Ég tel, að Alþ. eigi kröfu til að vita það, hvaða leiðir hæstv. ríkisstj. hyggst fara í þessum málum. Í álitsgerð stjórnar Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda er ekki bent á neina ákveðna lausn á vandkvæðum togaraútgerðarinnar. En þar er þó í niðurlagi imprað á þeim möguleika, að togaraútgerðin fái hliðstæð fríðindi þeim, sem bátaútveginum hafa verið veitt, m. ö. o., það er imprað á togaragjaldeyri, svipuðum bátagjaldeyrinum sæla.

Ég tel nauðsynlegt, að úr því fáist skorið, áður en Alþ. lýkur, hvort hæstv. ríkisstj. hefur dottið í hug að fara einhverja slíka leið, sem raunar virðist ófær þegar af þeirri ástæðu, að nú eru fluttar inn með bátagjaldeyrisálagi flestar seljanlegar vörur aðrar en brýnustu neyzluvörur almennings. Eða dettur hæstv. ríkisstj. í hug að framkvæma nýja gengislækkun? Hvor þessara leiða sem farin yrði, bein eða óbein gengislækkun, hlyti að sjálfsögðu að hafa það í för með sér, að enn yrðu stórkostlega rýrð kjör alls almennings í landinu. Hin eina leið, sem hægt er að fara til að bjarga togaraútgerðinni frá hruni, er sú að rétta hag hennar á kostnað þeirra milliliða, sem sannanlega hafa haft af því stórgróða að verzla með afurðir sjávarútvegsins, — þeirra, sem flytja þær afurðir úr landi gegn mjög háum flutningsgjöldum, þeirra, sem selja honum nauðsynjar, og loks þeirra, sem græða á þeirri vöru, sem flutt er inn og keypt fyrir útflutningsafurðirnar.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. telji það skyldu sína að gefa Alþ. upplýsingar um það, hvora leiðina hún ætlar að velja. Þess vegna hef ég borið fram þá fsp. sem hér er til umræðu.