25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er mikil bót í máli, að þingræður skuli liggja frammi og að ég skuli muna svo vel framsöguræðu mína um kosningabandalögin, að ég get á andartaki fundið ummæli, sem afsanna algerlega hvert orð í því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði um málið. Hann sagði áðan, að ég hefði sagt í framsöguræðu minni, að í Svíþjóð giltu svipaðar reglur og við höfum stungið upp á með kosningalagafrv. okkar hér í hv. Nd. Ég sagði þveröfugt í ræðu minni, og hefur því. hv. þm. hlustað mjög illa, þegar málið var til umræðu í fyrsta skipti. Orðrétt sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

„Kosningabandalög voru tekin í sænsku kosningalögin árið 1921, og tilhögun kosningabandalaganna þar var sú, að tvenns konar bandalög voru heimiluð, annars vegar bandalög á milli flokka og hins vegar bandalög á milli einstakra frambjóðenda sama flokks, þannig að flokkur gat boðið fram tvo eða fleiri frambjóðendur og látið leggja saman atkvæði þeirra og talið þau öll greidd flokknum í heild. Einkum síðara fyrirkomulagið hafði sætt talsverðri gagnrýni í Svíþjóð.“ — Nákvæmlega sama sem sendiherrann segir í bréfinu. — En reynslan af kosningabandalögunum í heild hafði þó sýnt, að þau stuðluðu að jafnari skiptingu þingsæta þar í landi heldur en ella, en þar eru ekki einmenningskjördæmi, heldur alls staðar kosið hlutfallskosningum í fleirmenningskjördæmum. Þetta ákvæði hafði verið rætt mjög á síðasta ári eða síðustu tveim árum í Svíþjóð, og á síðasta ári, rétt fyrir kosningarnar, var gerð breyting á sænsku kosningalögunum til bráðabirgða, þar sem heimildin til kosningabandalaga var afnumin, en hins vegar breytt þeim reglum, sem gilda við útreikning kjörinna þingmanna í kjördæmum, þar sem kosið er hlutfallskosningum, en það eru öll kjördæmilandinu, þannig að réttur minni flokkanna var skertur með afnámi heimildarinnar til kosningabandalaga, en rétturinn hins vegar aukinn með breyttri aðferð við útreikning á kjörnum þingmönnum í kjördæmunum. Væri kannske ástæða til þess að ræða þetta mál síðar eða skýra nánar frá þessari tilhögun, ef umræður um þetta mál lengdust.“

Þetta tekur af öll tvímæli um það, að hv. þm. hefur alrangt eftir mér í ræðu minni, og hér er því um hið neyðarlegasta frumhlaup að ræða.