06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lá fyrir brtt. frá hv. þm. S-Þ., og þá óskaði ég eftir, að hann drægi hana til baka til 3. umr., hvað hann og gerði, meðan ég aflaði mér upplýsinga hjá dr. Finni Guðmundssyni um, í hverju sú breyting væri og hvað mundi vera réttast í því efni. Nú hef ég átt samtal við dr. Finn um þetta, og benti hann mér á, að í a-liðnum, þ.e. breytingunni við 8. gr., þar sem farið er fram á, að tímatakmarkinu sé breytt og „20. september“ komi í stað „20. ágúst“, væri um að ræða farfugla, sem eru nokkuð skotnir hér á landi, en þó ekki mjög. En hann tjáði mér um einmitt þessa fugla, þegar þeir kæmu til annarra landa, t.d. Skotlands, Englands og víðar, þá væri mjög setið fyrir þeim og þeir drepnir í stórum stíl, og átti hann við það, að með því, að hér væri ekki sá skottími, sem tiltekinn er í frv., þá væri viðbúið, að flestir þessara fugla væru horfnir, og taldi hann ekki neina bót að þessari brtt. á þskj. 608 um þetta efni. Þar á meðal eru nú aðallega endur og heiðagæsir, en þær verða horfnar héðan að miklu leyti á þeim tíma, sem er endatakmark í þessu tilfelli, og gat hann þess í sambandi við þetta, að við merkingu heiðagæsanna, sem var gerð hér uppi í hálendinu, voru merktar um 10 þús. gæsir, og hafa verið skotnar fimm hér á landi með þessu merki, en 600 á Bretlandi, sýndi það, hvað lítið væri drepið af þessum fugli hérna. sem væri alinn upp handa þeim, sem við taka, þegar suður yfir hafið kemur, og ef menn vildu hafa gagn af því að skjóta þessa fugla, þá væri ekki heppilegt að breyta þessu tímatakmarki.

2. brtt. á þskj. 608 er við f-lið, þar sem veiði er heimiluð frá 20. ágúst til 30. apríl. Þar er talið upp lómur, himbrimi, sefönd, stóra toppönd og litla toppönd. En um friðunina er í brtt. talað frá 1. sept. til 20. apríl. Dr. Finnur telur, að þessar tegundir allar séu mjög skaðlegar silungs- og laxveiði, vegna þess að þær lifi mikið á seiðum og meira að segja sækjast eftir smáum silungum sumar hverjar, eins og lómur og himbrimi, sem eru mjög gráðugir, og hann telur ekki koma til nokkurra mála að taka himbrimann undan, því að hann sé mjög gráðugur fugl, og eftir því sem hann viti bezt, allt frá aldamótum, hafi ekki fækkað himbrima hér á landi, hann hafi máske flutt sig meira úr sveitunum og upp á hálendið, og það sé ekki að sjá, að honum fækki.

Þá er um 3. till. Það er um friðun rjúpu, að friðunartíminn endi 22. des. í stað 31. des., eins og nú er, en friðunin byrjar, eins og kunnugt er, 15. október. Um þetta sagði dr. Finnur, að því gætu menn ráðið eins og þeir vildu. Ég sagði honum frá, að þar sem ég vissi til, þá væri rjúpnaveiði ekki svo mikið stunduð frá jólum til nýárs, en það væri sá tími, sem um væri að ræða, en væri hætt þó aðeins fyrir jól, svo að menn væru ekki á veiðum beinlínis á aðfangadaginn.

Ég hef nú lýst þessum skoðunum dr. Finns um þetta mál, og þess vegna hafði ég fengið ósk mína uppfyllta um að láta bíða, að brtt. kæmi til atkv., þangað til nú. Ég býst við, að flm. geri einhverja frekari grein fyrir máli sínu.