05.05.1955
Efri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

3. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins benda hv. þingdeild á það og álit mig þá tala f.h. allrar nefndarinnar, að ef þessi till. hv. 1. þm. Eyf. verður samþ., þá er málinu stefnt í voða og litlar líkur fyrir því, að þetta frv. gangi í gegnum þingið að þessu sinni. Það kemur mjög hart niður á ýmsum, sem þarna eru, vegna þess að það væri þá í annað skipti, sem mönnum, sem fullan rétt hafa samkvæmt þeim reglum, sem hafa verið settar, yrði neitað um íslenzkan ríkisborgararétt.

Ég er hér ekki með neina undansláttarsemi við hv. Nd. Ég álít, að hv. Ed. hafi sýnt það oft áður, að hún heldur sínu striki án tillits til þess, hvað hin deildin gerir, enda á svo að vera og til þess er deildaskipting Alþingis. En stundum kemur það fyrir, að sá verður að vægja, sem vitið hefur meira.