15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

186. mál, togarakaup fyrir Neskaupstað

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá skeði sá hörmulegi atburður í vetur, að togarinn Egill rauði fórst. Fyrir utan sorglegt manntjón, sem varð í þessu sambandi, varð Neskaupstaður fyrir þungu áfalli atvinnulega séð. Það má nærri geta, hver áhrif það hefur í 1300–1400 manna kaupstað, þegar burt hverfur slíkt atvinnutæki.

Nú er það ætlun manna í byggðarlaginu að fá annað skip í staðinn fyrir það, sem fórst, og hafa verið gerð um það allöflug samtök á staðnum. Er verið að gera ráðstafanir heima fyrir til þess að safna saman fé til að leggja fram til togarakaupanna og horfur á því, að um það verði góð samtök.

Enn fremur kann svo að fara, að eitthvað verði afgangs af vátryggingarfé Egils rauða til þess að leggja í hið nýja fyrirtæki, en eins og gefur að skilja, fer mestur hluti vátryggingarfjárins til þess að greiða áhvílandi skuldir.

Forráðamenn í byggðarlaginu hafa snúið sér til ríkisstj. og óskað eftir því, að hún hefði forustu um það, að ríkið veitti stuðning til þess, að hægt væri að fá nýtt skip í staðinn fyrir það, sem fórst, og hefur verið farið fram á ríkisábyrgð í þessu skyni.

Eftir að hafa íhugað þetta mál og haft samband við heimafólk í Neskaupstað hefur ríkisstj. tekið þá ákvörðun að leggja til, að ríkisábyrgð verði veitt á þann hátt, sem greinir í því frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., veitt verði ábyrgð fyrir allt að 85% af andvirði nýs skips. Þetta er gert í því trausti, að það muni þá takast að útvega lánsfé til að kaupa nýtt skip í staðinn fyrir það, sem hvarf.

Ég hygg, að ekki ætti að vera þörf að hafa um þetta fleiri orð, vegna þess að ég veit, að hv. þdm. er þetta mál talsvert kunnugt, þó að það hafi ekki verið lagt fyrir Alþ. Vil ég að lokum stinga upp á því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari 1. umr.