22.03.1955
Efri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

150. mál, kostnaður við skóla

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í þessari hv. d. í gær kom fram frá hv. 2. þm. S-M. (VH) athugasemd við 1. gr. En í 1. gr. frv. segir svo, að menntmrn. ákveði fræðsluhérað og skólahverfi barnafræðslustigs og gagnfræðastigs, að fengnum till fræðslumálastjóra o.s.frv.

Hv. þm. benti á, að þarna vantaði húsmæðraskólastigið í, og fór þess á leit, að n. athugaði þetta atriði á milli umr. Nú hefur menntmn. tekið þetta til athugunar og borið sig saman við þá, sem að flutningi frv. þessa hafa staðið, og eftir að hafa kynnt sérmálið var menntmn. sammála um að bera fram brtt. við 1. gr. frv. Brtt. er prentuð á þskj. 487, sem hér liggur einnig fyrir. Upphaf 1. gr. hljóðar þá þannig. ef brtt. verður samþ.: „Menntmrn. ákveður fræðsluhérað og skólahverfi barnafræðslu, gagnfræðastigs og húsmæðrafræðslu.“ Með öðrum orðum, húsmæðrafræðslan er tekin þarna inn í 1. gr., og ákveður þá menntmrn., að fengnum venjulegum till., einnig fræðsluhérað og skólahverfi þeirra skóla.

Einn nm., hv. 4. þm. Reykv. (HG), var ekki á fundi n., þegar þessi ákvörðun var tekin, og er hann þess vegna óbundinn af þessari till. En nm. leggja sem sagt til, að þessi brtt. verði samþykkt.