06.05.1955
Efri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

150. mál, kostnaður við skóla

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er stjórnarfrv. og var lagt fram í þessari hv. d. snemma á þessu þingi. Það náði hér samþykki með lítilli breytingu, en við meðferð þess í Nd. hefur það tekið nokkrum breytingum. Þær eru yfirleitt ekki veigamiklar, þó að þær séu nokkrar talsins.

Í frv., eins og það var afgr. héðan úr þessari hv. d., var ákveðið í 1. gr., að menntmrn. ákvæði fræðsluhérað og skólahverfi barnafræðslu, gagnfræðastigs og húsmæðrafræðslu, að fengnum till. fræðslumálastjóra, o.s.frv. Þessu var breytt í hv. Nd. á þann hátt, að þetta er aðeins látið ná til gagnfræðastigsins. Húsmæðrafræðslan er tekin þarna í burtu, þannig að menntmrn. hefur ekki eftir l. eins og þau eru núna heimild til þess að ákveða skólahverfi húsmæðraskólanna. Þess má geta, að þetta ákvæði var ekki í frv. eins og það var lagt fyrir þessa hv. d. í fyrstu, en sett inn í það við meðferð þess hér.

Nú hefur verið haft samráð við hæstv. menntmrh., sem sá um samningu á þessu frv., um það, hvort ástæða væri til þess að breyta þessu aftur hér, og hefur komið fram, að það er álitið, að ekki sé rétt að gera það, þetta sé ekki svo veigamikil breyting, að ástæða sé til að hrekja frv. aftur í Nd., og óséð þá um það, hvort það nær samþykki þar, eins og nú er orðið stutt til þingslita. En málið er merkilegt og álízt nauðsynlegt, að það verði nú að lögum.

Þetta er þá aðalbreyt., sem hefur verið sett inn í Nd., þó að þær séu nokkru fleiri, þ. á m. afleiðingar af þessari breytingu.

Þá er á nokkrum stöðum sett inn, að leita skuli álits fræðslumálastjóra; t.d. skal ég geta þess, að í 2. gr., í 2. málsl., segir þannig í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisframlög til skóla eru bundin þeim skilyrðum, að menntmrn. hafi samþykkt skólastaðinn“, — og svo er bætt við: „að fengnum till. fræðslumálastjóra“. Þetta er ekki svo sérstætt, að það taki því að vera að stöðva málið þess vegna.

Ég held, að það sé ekki ástæða fyrir mig að rekja þessar breyt. Þær eru yfirleitt, eins og ég segi, ekki svo veigamiklar, að þær skipti máli. Menntmn., sem hefur kynnt sér frv. eins og það liggur nú fyrir, er sammála um að leggja til, að það verði samþ. eins og það liggur nú fyrir á þskj. 724.