18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

183. mál, húsnæðismál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst okkar ágæta ríkisstj. vera orðin að hálfgerðu huldufólki nú. Ég sé ekki betur en að þegar hennar aðalmál eru nú á dagskrá, þá bókstaflega hverfur hún. Þetta minnir mann á gömlu dæmisöguna, að þegar börnin voru eitthvað skítug, þá þótti réttara að fela þau fyrir guði almáttugum, — og eins virðist komið nú fyrir hæstv. ríkisstj., að hún felur sjálfa sig og flesta af sínum stuðningsmönnum fyrir þinginu, þegar á að fara að ræða þau mál, sem ríkisstj. sjálf hefur sagt að væru hennar aðalmál á þessu þingi, — þau mál, sem við höfum verið látnir bíða hér eftir, þannig að þetta er sjöundi mánuður þingsins, — þau mál, sem ríkisstj. sagði að hún yrði að hafa þinghlé allan janúar til þess að geta hugsað nógu vel og nógu rækilega um. Og nú er það loksins komið, og þegar málíð er komið, þá sýnir ríkisstj. sig ekki. Ég býst við, að það sé varla hægt að kveða öllu meiri áfellisdóm upp yfir einu máli en ríkisstj. gerir sjálf með þessari framkomu sinni.

Ég vil nú fyrir mitt leyti lýsa ánægju minni yfir þeim brtt., sem hv. minni hl. fjhn. flytur, og því nál., sem hann lætur hér frá sér fara, og hef ég þar litlu við að bæta. Ég vildi aðein~ minna á í sambandi við þær 3 millj. kr., sem hæstv. ríkisstj. leggur til að varið sé á ári til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, að það er e.t.v. nokkuð táknrænt fyrir, hvernig hún metur þörfina á hlutunum hér heima.

Á fjárl., sem við vorum að afgr. fyrir nýár, var lögð fram sem stofnframlag vegna þátttöku ríkissjóðs í félaginu Íslenzkir aðalverktakar Í millj. kr., og það var á 22. gr. ábyrgzt fyrir þetta félag, Íslenzka aðalverktaka, vegna þátttöku ríkissjóðs í félaginu 11/2 millj. kr. lán. M.ö.o.: það er upp undir sama upphæð sem lögð er fram sem framlag og sem ábyrgð til þess hermangarafélags, sem hefur nú tekið að sér að byggja t.d. íbúðir og annað slíkt yfir ameríska liðsforingja suður á Keflavíkurflugvelli, eins og það, sem ríkissjóður, svo framarlega sem bæirnir leggja fram eitthvað svipað, er til í að leggja fram á árí til þess að útrýma bröggunum. Það er þess vegna engum efa bundið, að það er hárrétt, sem hv. minni hl. n. leggur til, að þarna verði að verða alger breyting á, og till. hans um stórfellda hækkun á þessu er þess vegna alveg sjálfsögð og nauðsynleg.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) hafði hér framsögu f.h. meiri hl. og mælti með þessu frv. ríkisstj., — mælti með því, að það yrði að mestu leyti tekið úr höndum veðdeildar Landsbankans að úthluta lánunum og sett þessi sérstaka spillingarstjórn sem æðsta stjórn í húsnæðismálunum.

Það er dálítið undarlegt, hvernig menn fara að því að framkvæma þá hluti, sem menn tala um fyrir kosningar, þegar kosningarnar eru liðnar. Fyrir síðustu kosningar flutti hv. 5. þm. Reykv. ásamt nokkrum öðrum þm. Sjálfstfl. — og það raunar ekki fáum — frv. til l., sem átti að afla lánsfjár til íbúðabygginga. Meðflutningsmenn hans voru núverandi hæstv. varaforseti okkar deildar, hv. þm. Ak., Magnús Jónsson, hv. 2. þm. Eyf., Ingólfur Jónsson, núverandi viðskmrh., og Sigurður Bjarnason, núverandi forseti þessarar deildar. Það var sem sé raðað framáliði Sjálfstfl. á þessa till., sem flutt var á Alþ. 1952, nokkru fyrir kosningarnar, sem fram fóru 1953. Í þeirri till. var gert ráð fyrir að efla veðdeild Landsbankans, og þá fannst þessum stóra hluta Sjálfstfl, sem flutti þetta frv., það rétta leiðin að efla veðdeild Landsbankans, taka lán til handa henni til þess að gera henni mögulegt að starfa. Þá var ekki svo langt komið ástandinu hér heima og þróun þess, að menn færu að koma fram með í frv. þá spillingarstjórn, sem nú er lagt til að setja í húsnæðismálin. Að vísu var félmrn. þá búið að útnefna þá tvo menn til þess að hafa með höndum smáíbúðirnar og úthlutunina á þeim lánum, en það átti þó bara að vera framkvæmt svona raunverulega á laun. Þá skömmuðust menn sín fyrir slíkar aðferðir eins og að reyna að tengja á ýmsan hátt lánveitingar jafnvel við atkvæði í kosningum og annað slíkt. Þess vegna varð frv. þessara 5 þm. Sjálfstfl. með hv. frsm. meiri hl. í broddi fylkingar mjög heiðarlegt frv., frv. um að efla veðdeild Landsbankans og gera henni mögulegt að starfa. Þá þótti sem sé veðdeildin nógu góð. Nú þykir hún það ekki lengur. Nú er það tekið alveg sérstaklega fram, að ef veðdeild Landsbankans eigi að hafa eitthvað með húsnæðismálin að gera, þá megi sá maður, sem frá henni er, ekki hafa neinn atkvæðisrétt um það, hverjir fá íbúðir. — Þetta er nokkuð táknrænt fyrir þróunina á ekki lengri tíma en frá þinginn 1952 og þangað til núna.

Það er e.t.v. líka rétt að gera sér það nokkuð ljóst, hvaða þróun hefur orðið í þeim málum, hvernig menn líta á rétt manna og hvað mikið sé eðlilegt að lána í sambandi við íbúðirnar.

Nú er auðséð, að með þeim lánum, sem verða 70 þús. kr., þá mun, eins og nú er rætt um, raunverulega varla lánað meira en út á þriðjung af íbúðarverði. Hitt verða menn raunverulega meira eða minna að skaffa sér sjálfir. Hv. minni hl. n. reiknar jafnvel með, að þessi lán muni varla verða meira en 27%. Hvernig var nú sá hugsunarháttur, sem gengið var út frá um þessa hluti, þegar enn þá var hugsað, að veðdeild Landsbankans ætti raunverulega að geta starfað?

Í reglugerðum um veðdeild Landsbankans, og þær hafa verið gefnar margar út fyrir þá mörgu flokka bankavxtabréfa, sem þar hafa verið, en í þeirri reglugerð, sem nýjust er, að ég held, reglugerðinni um útgáfu á 17. flokki bankavaxtabréfanna, stendur í 8. gr. um matið á eignunum: „Eignirnar skal meta til þess verðs, sem þær eftir beztu vitund virðingarmanna hafa í kaupum og sölum, og skal virða þær með kvöðum þeim, er á þeim hvíla, hvort heldur eru skattar eða afgjöld.“ Og í 7. gr. er ákveðið, að lánsupphæðin megi ekki fara fram úr 3/4 af virðingarverði fasteignarinnar. Þetta hafði frá upphafi verið nokkuð breytilegt í reglugerðunum fyrstu, og í lögunum árið 1900, fyrstu flokkunum, var gert ráð fyrir helmingnum af verðinu; hérna er gert ráð fyrir 3/5 og þarna er gert ráð fyrir 3/4 sem hámarki.

Venjulega er það svo, að ákvæðin um slíkt hámark til útlána eru talin, svo framarlega sem nægilegt fé er fyrir hendi, vera um leið reglan um, hvað lána eigi. Þær gömlu reglugerðir, sem eru um veðdeildina, sýna raunverulega, hvað menn hafa álitið að ætti að vera það eðlilega í þessum hlutum, og það eðlilega viðvíkjandi veðdeild Landsbankans hefur sem sé verið frá helmingi þess virðingarverðs, sem miðað var við kaup og sölu á eign, allt upp í 3/5 af slíku. Þetta er það, sem löggjafinn, og það, sem ríkisvaldið hefur gert ráð fyrir sem eðlilegu og því, sem bæri að miða við mestallan tímann, og það er nauðsynlegt að gera sér þetta ljóst, vegna þess að ella hættir mönnum við að gleyma, hvernig reglurnar hafa verið frá upphafi. Það hefur verið svo mörg ár, að veðdeildin hefur raunverulega verið steindauð, það hefur ekki verið lánað neitt samkvæmt henni, og þegar nú á á einhvern hátt að fara að endurnýja þetta, koma nýju lífi í hana, og ekki sízt ef haldið hefði verið við þá till., sem Sjálfstfl. flutti fyrir síðustu kosningar, þá hefði náttúrlega verið eðlilegt að endurnýja þessi ákvæði með tilliti til þess að koma í framkvæmd þeim gömlu reglum, sem þarna höfðu áður gilt. Þá var þetta virðingarverð, sem sé í gamla daga, miðað við það, sem eignirnar mundu kosta, þegar þær gengju kaupum og sölum.

Svona var þetta, og fyrir þá, sem muna eitthvað ofur lítið aftur í tímann viðvíkjandi þessum málum, þá var það þannig, að meira að segja á meðan menn voru að bíða eftir að fá lán úr veðdeild, þótti sjálfsagt í bönkum, að menn fengju víxlalán, sem var síðan breytt í fast veðdeildarlán, þegar húsið væri komið upp. Þetta var sá hugsunarháttur, sem ríkti á meðan það þótti eðlilegt, að það opinbera hjálpaði til þess, að menn gætu byggt yfir sig, og hjálpaði til þess, án þess að valdhafarnir gerðu það um leið að einhverjum pólitískum skilyrðum, hvernig þarna væri farið með.

Hv. 5. þm. Reykv. tók alldjúpt í árinni og lýsti allréttilega, þegar hann mælti fyrir þessu frv. þeirra sjálfstæðismannanna, þörfunum í þessum efnum. Hann sagði m.a. um þetta frv. við 1. umr. þess og framsögu, með leyfi hæstv. forseta, eins og prentað er í þingtíðindunum 1952, C-deild, á bls. 205, svo hljóðandi:

„En um þetta frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., er það að segja, að í aðalatriðum er tilgangur þess að efla þá stofnun, sem ætti að vera aðalfasteignalánastofnun landsmanna, sem er veðdeild Landsbanka Íslands, er stofnuð var með löggjöf árið 1900 og hefur átt á þessari öld að sinna því hlutverki að lána landsmönnum út á byggingar þeirra. Ég hygg, að mönnum blandist ekki hugur um það, að það sé mjög mikil nauðsyn að efla einmitt þessa lánastarfsemi, sem hér er um að ræða, vegna þess, í hversu ríkum mæli hún hefur raunverulega — raunverulega, segi ég — lagzt niður hin síðari árin. Það er gert ráð fyrir því eftir lögunum um veðdeild Landsbankans, að veðdeildin láni eftir vissum reglum út á 1. veðrétt. En þannig hefur það verið hin síðari ár, að slík lán hafa engin verið veitt í reiðufé eða a.m.k. að mjög litlu leyti, en nærri því eingöngu með því að láta mönnum í té verðbréf, sem menn síðan hafa átt mjög erfitt með að gera sér mat úr, þannig að þeir hafa þurft að selja þau með gífurlega miklum afföllum.“

Og hv. 5. þm. Reykv., frsm. meiri hl., heldur áfram og segir í þessari sömu ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef nokkur veruleg átök eiga því nú að gerast í þessum málum, að gera mönnum kleift að fá eðlileg lán út á fasteignir sínar, þá hygg ég, að menn geti orðið nokkuð sammála um, að fátt sé eðlilegra en að efla veðdeild Landsbanka Íslands í þessu augnamiði, og hafa enda komið fram raddir um það æ ofan í æ hér á þinginu á undanförnum árum, þó að ekki hafi orðið úr.“

Þannig var talað í þessum efnum fyrir kosningarnar. Þá þótti sjálfsagt að reyna að efla veðdeildina og láta það fé renna beint til hennar, sem væri aflað ýmist með lánum eða öðruvísi. Og það var af hálfu hv. 5. þm. Reykv. þá tekið mjög undir það, hve erfitt það væri fyrir meira að segja menn, sem hefðu, eins og hann komst síðar að orði í ræðu sinni, 112 þús. kr. fram að leggja, að geta samt klárað íbúðir, sem að meðalverði væru um 300 þús. kr., eins og hann reiknaði þá með; var þá að sýna fram á, hve vandræðin væru mikil. Og síðan sagði hann svo til þess að lýsa því ástandi, sem þá væri, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem svo á vantar og á skortir í þessari miklu lánsfjárkreppu, verður í mörgum tilfellum til þess að neyða menn til að fara út á hinn svokallaða svarta markað og taka þar viðbótarlán með okurkjörum, sem að sjálfsögðu er í alla staði óviðunandi og vansæmandi í þjóðfélaginu að skuli eiga sér stað og Alþingi og ríkisstj. ber fullkomin skylda til að sporna við að eigi sér stað.“

Það var tekið sem sé alldjúpt í árinni, m.a. af hv. 5. þm. Reykv., á þeim tíma til þess að sýna fram á, hve gersamlega óviðunandi þetta ástand væri og hve sjálfsagt og nauðsynlegt það væri þá að efla veðdeild Landsbankans og fela henni að sjá um að stjórna þessum hlutum.

Nú er í þessu frv. hins vegar, eins og hv. minni hl. þegar hefur sýnt fram á, raunverulega ekki gert ráð fyrir að tryggja mönnum meira en um 27% af andvirði íbúða, og er samt reiknað með ódýrari íbúðum en þeim, sem hv. 5. þm. Reykv. reiknaði með í sínum ræðum með verðlaginu frá 1953. M.ö.o.: Það er samt sem áður langt fyrir neðan það, sem almennt var reiknað með og hefur verið reiknað með í öllum reglugerðum og lögum um veðdeild Landsbankans að væri eðlilegt að lánað væri út á 1. veðrétt, sem hefur verið allt upp í 3/4 hluta af söluverði íbúða.

Hvað bíður þá þeirra manna, sem fengju nú ekki nema þessi 27% eftir útreikningi minni hl., og jafnvel þó að það yrði meira? Það munu fæstir þeirra eiga þær 112 þús., sem hv. 5. þm. Reykv. reiknaði með í sinni ræðu 1953, að nokkrir menn, sem hann hafði þá yfirlit yfir, mundu eiga. Hvað bíður þeirra? Það bíður þeirra nákvæmlega sami svarti markaðurinn og okurstarfsemin og hann var að lýsa í þessum ræðum sínum þá og hann lýsti yfir að væru gersamlega óviðunandi og til vansa fyrir þjóðfélagið og hvorki Alþingi né ríkisstj. gætu verið þekkt fyrir. Þannig er þá ástandið, að úr þessu, sem alltaf hefur verið talað um að ætti að bæta, hefur ekkert verið bætt og er ekki bætt með þessu frv., sem hérna liggur fyrir. Það eina, sem virðist vera alveg tryggt, er, að nú eigi að gera opinbera þá spillingu, sem var svo að segja leynileg og í felum 1953 — við kosningarnar þá — í sambandi við smáíbúðalánin.

Hér minnist einn hv. þm. á það áðan, að það hefðu verið leynilegir umboðsmenn fyrir menn úti um land í sambandi við smáíbúðalánin. Sums staðar hérna á meðal okkar voru þessir umboðsmenn opinberir. Hérna t.d. í Kópavogshreppnum, rétt við hliðina á okkur, var opinber umboðsmaður fyrir annan aðilann, sem félmrn. útnefndi, formanninn fyrir öðru stjórnmálafélagi annars stjórnarflokksins; hann hafði alveg opinberan umboðsmann í Kópavoginum, og það var raunar efsti maðurinn á lista þess flokks við þær kosningar. Sá maður tilkynnti, að menn skyldu koma til sín og senda umsóknir til sín, svo framarlega sem þeir ætluðu að reyna að sækja um smáíbúðarlán. Svona var spillingin rekin þá. Og nú virðist eiga að kerfisbinda hana. Ég verð því að segja það, að ekkert er undarlegt, þó að hæstv. ríkisstj. vilji sem minnst um þetta aðalmál sitt ræða. Það er ekkert undarlegt, þó að hún flýi af hólmi. Og þó að hv. 5. þm. Reykv. hafi nú verið att út í það að hafa framsögu fyrir þessu máli, þá vil ég stórkostlega efast um, að hann vilji leggja allt of mikið á sig til þess að reyna að verja það, ekki sízt ef farið er að bera það saman við það, sem hann sjálfur lagði til fyrir síðustu kosningar.

Ég vil segja það viðvíkjandi hinum einstöku gr. frv., sem nú ætti að ræða, að ég get yfirleitt fallizt á þær till., sem hv. minni hl. er með, og aðferð hans í því að fresta að ákveða um vextina. En eitt atriði er það þó, sem ég held að ætti að breyta strax við þessa umr., og það er ákvæði 6. gr., að lántökugjald skuli vera 1%. Ég álít, að þetta lántökugjald beri að fella burt og það nú þegar. Ég vil leyfa mér að leggja fram brtt. um það skriflega, þ.e. við 6. gr., að síðasti málsl. e-liðar falli niður, og ég vil leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti leiti nú á eftir afbrigða fyrir þeirri brtt., og ég vil vonast til þess, að þau afbrigði verði veitt nú. — Ég vil aðeins minna á, sem vonandi er óþarfi, að samkv. lögum ber öllum þm. að sækja alla þingfundi, nema nauðsyn banni, eins og stendur í 33. gr. laga um þingsköp. „Skylt er þm. að sækja alla þingfundi, nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta, svo fljótt sem unnt er, og metur hann nauðsynina.“ Enn fremur vil ég minna á það, sem stendur í 44. gr. laga um þingsköp, að „skylt er hverjum þm., hvort heldur er í deild eða Sþ., að vera viðstaddur og greiða atkv., nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“ Við eigum því fulla kröfu á því, að þm. gegni þeirri skyldu sinni að vera hér viðstaddir til þess að greiða atkv. um mál, þó að þeir jafnvel máske kjósi ekki að taka þátt í umr., það er nokkuð annað mál. Það geta oft verið þannig mál, að ýmsum þm. þyki betra að láta þögnina skýla sér í slíkum efnum.

Það hefur verið þó nokkuð um það rætt, að með þessum lögum væri lítið gert fyrir þá fátæku; þau væru á þann hátt jöfn fyrir ríka og fátæka, eins og oft vill verða í okkar þjóðfélagi, að það eru aðeins þeir efnaðri, sem geta notað sér þetta; þeir fátæku hafa réttinn, en bara ekki híð „praktíska“ jafnrétti. Það minnir mann ef til vill nokkuð á það, sem Anatole France, sá frægi franski rithöfundur, sagði einhverju sinni, að lögin í sinni hátign eru jöfn fyrir alla, jöfn fyrir fátæka og ríka, bæði fátækir og ríkir hafa jafnan rétt til þess að betla á götum og til þess að sofa undir brúm. Það ætlar líklega að verða eitthvað svipað um þetta frv.

Við erum búnir að ræða þrjú frv. hér í dag, sem öll miða við það að rýra rétt þeirra, sem þurfa á rétti að halda, rýra rétt þeirra, sem þurfa ódýr lán til þess að byggja yfir sig og byggja fyrir framtíðina, og nú er með flestum ákvæðunum í þessu frv. raunverulega líka verið að rýra þennan rétt, nema með þessum litlu undantekningum, sem bæði hv. minni hl. tók fram nú og ég líka gerði grein fyrir við 1. umr. þessa máls. Það er ætlazt til þess við þessa umr., að hver kafli þessa frv. sé ræddur, og í II. kafla þessa frv., sem hljóðar um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, er verið að afnema þau lög, sem áður voru sett um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, III. kafla laganna, sem upprunalega voru sett 1946. M.ö.o.: Eftir þær breytingar, sem lagt er til að gera í dag á lögunum um verkamannabústaði og þeim lögum, sem að nokkru leyti hafa tekið upp í sig lögin um byggingar- og landnámssjóð og lögin um ræktunarsjóð, á nú að fella úr gildi einn þýðingarmesta kaflann í þeim lögum, sem sett voru 1946 og áttu að gera mönnum þá mögulegt að útrýma hinum heilsuspillandi íbúðum.

Hv. 1. landsk., frsm. mínni hl., gerði grein fyrir því hér áðan, hver þróunin hefur verið síðustu árin viðvíkjandi herskálaíbúðum, hvernig nú væri komið upp í það, að nú dvelja í herskálaíbúðunum í Reykjavík 1022 börn, og aðgerðir Alþingis í þessum málum eiga þá að vera að nema endanlega úr lögum þau ákvæði, sem skylduðu ríkisstj. til þess að leggja fram 75% af byggingarkostnaði þeirra íbúða, sem áttu að útrýma þessum heilsuspillandi íbúðum, og lána þetta fé til 50 ára með 3% ársvöxtum. 9ð lána það fé, sem þurfti til þess að útrýma þessum heilsuspillandi íbúðum, hefði ekki verið mikill vandi fyrir ríkisstj. á undanförnum árum. Við skulum segja, að hefði þurft til þess kannske 120–150 millj. kr. Það er minna en tekjuafgangur ríkissjóðs á 2 undanförnum árum, þannig að það hefði verið auðvelt mál, ef vilji hefði verið til að framkvæma lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Það var ekki það, sem vantaði, það var nóg fé til þess, það var bara spurningin, til hvers fénu yrði ráðstafað. En með því frv., sem hér liggur fyrir, á endanlega að afnema þessi endurbótalög; það er vegið hér hvað eftir annað í sama knérunninn. Það er með lögum, sem var verið að samþ. við 1. umr. í dag, verið að skemma lagaákvæðin um byggingu verkamannabústaðanna. Með þessum lögum er verið að skemma gömlu ákvæðin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Eftir að búið er að fresta þeim í nokkur ár, þá á nú endanlega að nema þau alveg úr lögum. Þannig er verið að fella niður hverja endurbótina á fætur annarri.

Það er nú kannske ekki undarlegt, þó að undir svona kringumstæðum, meðan slík herferð er gerð gegn þeim gömlu lögum, þó að ný lagafrv. finni ekki náð fyrir augum hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi. Ég flutti ásamt hv. 6. þm. Reykv. fyrir nýár frv. til laga um byggingu íbúðarhúsa til útrýmingar herbúðunum, sem kom hér til umr. í þingi 18. nóv. á siðasta ári og var þá vísað til hv. fjhn. Þeirri hv. n. hefur nú láðst að skila áliti um það lagafrv., um leið og hún nú afgreiddi frv. ríkisstj., og hv. 5. þm. Reykv., sem sjálfur á sæti í fjhn. og nú er frsm. fyrir meiri hl. hennar, tók samt þá þannig undir það mál, að maður hefði getað ætlað, að fjhn. væri til í að gera eitthvað í því máli. Þetta frv. okkar þm. Sósfl. í Reykjavík var um, að ríkisstj. skyldi láta byggja 800 íbúðir 3–4 herbergja á árunum 1955 og 1956. Og í 3. gr. frv. var ákveðið, að mánaðarhúsaleigan, sem ríkisstj. tæki í þessum íbúðum, væri 10% af mánaðarkaupi Dagsbrúnarverkamanns. Henni var heimilað að taka nauðsynlegt lán til bygginganna og verja af tekjuafgangi ríkissjóðs á árunum 1954 og 1955 því, sem á vantaði, ef þess gerðist þörf. Hv. 5. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta, svo í upphafi:

„Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. óskaði eftir góðum undirtektum við það mál, sem hér liggur fyrir til umr., og ég get fullvissað hann um það, að hann mun af minni hálfu — og ég þykist mæla þar einnig f.h. flokksbræðra minna hér í þinginu — mæta mjög góðum undirtektum við það mál að hefjast rösklega handa í byggingarmálum til þess að útrýma braggaíbúðunum í landinu.

Ég var honum að verulegu leyti sammála um margt það, sem hann sagði í þessu máli, þó að ég hins vegar verði að segja hitt, að ég er töluvert á annarri skoðun en hann um það, hvernig beri að lyfta því, — ja, Grettistaki, skulum við segja, sem hér er um að ræða, að útrýma braggaíbúðunum á mjög skömmum tíma, og hafi einnig töluvert aðrar skoðanir um það, hverra sök sé á vanrækslu í þessum efnum á undanförnum árum. En það út af fyrir sig ætla ég að skipti minna máli, og skal ég láta það liggja á milli hluta við þessar umr. En þegar hér er rætt í þinginu frv. um byggingu íbúðarhúsa til útrýmingar herbúðum o.fl., þá þykir mér rétt, að hér komi fram það, sem af hálfu bæjarstjórnar Reykjavíkur hefur einmitt verið gert í þessu máli og nú er stefnt að, en það skiptir í sjálfu sér höfuðmáli, vegna þess að nærri allar bragga- og herskálaíbúðir á landinu eru í höfuðstað landsins.“

Síðan rekur hann allýtarlega, hvaða hugmyndir hann hefur þá um, hvað skuli gera nú á næstunni í þessum málum. Síðan tekur hann fram að síðustu og segir:

„Menn rekur minni til þess, að hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því hér. — í eldhúsdagsumr., hygg ég, að það hafi verið í desembermánuði s.l., — að höfuðsjónarmið núverandi hæstv. ríkisstj. í sambandi við lánamálið til íbúðabygginga væri það, að hverjum, sem óskaði þess, ætti að gefast kostur á því að fá lán til íbúðabygginga, sem næmi allt að 100 þús. kr. út á íbúð. Að þessu er verið að stefna, og það er einmitt þungamiðjan í því, að takast megi að loka svarta markaðnum í þessum málum, sem — eins og hv. 2. þm. Reykv. kom að — er gífurlegur og geigvænlegt þjóðfélagslegt fyrirbrigði eins og er.“

Þá reiknaði hv. 5. þm. Reykv. með 100 þús. kr. sem sjálfsögðu og því minnsta og vitnaði í forsrh. og hans ummæli um þessi mál. Nú er svo komið, að það, sem hér er raunverulega verið að tala um, ern 70 þús. kr. Þannig hefur þetta, meira að segja frá því, sem hugsað var af hálfu ríkisstj. og hvað eftir annað rætt og minnzt á, sífellt verið að minnka. Ég verð að segja, að svona getur þetta ekki gengið. Með þessum aðferðum í húsnæðismálinu er öllu stefnt í voða. Það er ekki gert annað — svo að segja — en að draga úr öllum þeim réttindum, sem menn á síðustu 25–30 árum hafa verið afla sér í þessum efnum. Það er verið að hækka þá vexti, sem áður áttu að hjálpa verkamönnum og bændum til þess að geta byggt yfir sig, það er verið að svipta bæina endanlega þeim lagalegu réttindum, sem þeir áttu að fá með miklu íbúðarhúsalögunum frá 1946, en það er verið að setja í staðinn pólitískt bákn, sem virðist eiga að verða eins konar skipulagt spillingakerfi til þess að úthluta meira eða minna hlutdrægt þeim litlu lánum, sem út á íbúðir fengjust. Það er ekki nóg með, að það sé verið að afnema lög eins og frá 1946, sem voru með stærstu framfaramálum, sem þá voru samþ.; það er ekki nóg með, að það sé verið að skemma lög eins og verkamannabústaðalögin frá 1929, það er meira að segja raunverulega verið að rýra allt vald veðdeildar Landsbankans, þeirrar stofnunar, sem í síðustu 50 ár hefur átt að vera í gangi til þess að aðstoða landsmenn á eðlilegan hátt og Sjálfstfl. og hans aðalforkólfar við síðustu kosningar álitu eðlilegt að væri sú stofnun, sem væri sett í fullan gang. Það væri þess vegna æskilegt, að hægt væri að fá hæstv. ríkisstj. og hennar málsvara hér til þess að breyta nú um frá því, sem hún hefur hugsað sér í þessu lagafrv., sem hérna liggur fyrir. Í fyrsta lagi breyta þannig um, að það sé veðdeild Landsbankans — og hún ein, sem hafi með þessi mál að gera, og að þeirri húsnæðismálastjórn, sem hér er sett inn í og á auðsjáanlega að vera aðalatriðið í stjórninni á útlánunum, sé kippt burt. Það verður endalaus ásteytingarsteinn, svo framarlega sem það verður samþykkt.

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeirri brtt., sem ég legg fram við 6. gr. þessa frv.