24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. frsm. allshn. gerði fyrirspurn um það, ef þetta ákvæði yrði samþ., sem ég legg til, tveggja mánaða uppsagnarfrestur, hvort það gilti þá fyrir önnur félög sami frestur.

Hver tilætlun okkar hefur verið um þetta efni, getur hv. þm. séð á því frv., sem við flytjum og við ætlumst til að gildi um þetta efni, um brunatryggingar utan Reykjavíkur, að þar er ekki talað um, — ég held, að ég viti það alveg rétt, það hefur ekki skolazt neitt hjá mér, — þar er ekki talað um neinn frest, og menn eru eftir því frv. alveg sjálfráðir um, hvar þeir tryggja og hvort þeir gera það sjálfir eða fela sinni sveitareða bæjarstjórn umboð til þess að gera samningana.

Hv. þm. á þess kost enn að hjálpa til að koma þessari löggjöf í gegn, og þá eru önnur tryggingarfélög en Brunabótafélag Íslands í þessu efni heldur verr sett, því að ég held, að ég viti það alveg rétt, að það er enginn uppsagnarfrestur tiltekinn í frv., ef menn vilja breyta til, færa sig milli félaga, en Brunabótafélag Íslands hefur þó eftir þessari till. tveggja mánaða frest, þ.e.a.s., ef maður ætlar að færa sínar brunatryggingar í burtu, þá veit það það tveim mánuðum fyrr en til þess kemur.

Ef aftur þetta frv. verður eitt löggilt, þá man ég ekki, svo að ég þori að staðhæfa neitt um það, eftir þeim l., sem sett voru um þetta efni í fyrra, hvernig því er varið, en mig undrar eiginlega á þessum ótta og þessu kappi, sem í þessu máli er um þessi atriði.

Hv. þm. tók undir þær raddir, sem komið hafa fram hjá fleirum, að við værum að berjast fyrir hagsmunum Samvinnutrygginga — ja, hvernig þá? Þá ætti það að vera með því móti, að það væri ekki lokað fyrir þeim með lögboði að geta tekið á móti tryggingu, en í því efni standa Samvinnutryggingar alveg jafnt að vígi og önnur vátryggingarfélög, sem viðurkennd eru af ráðh. Þetta er þá allt og sumt, þetta er þá öll baráttan, að þær njóti sama réttar og önnur vátryggingarfélög. Lengra er ekki í þessu gengið, og ég held, að þetta sé ekkert ámælisvert.

Annars er nú til lítils að vera að karpa um þetta, og ég ætlaði satt að segja ekki að taka frekari þátt í umr. Mér fannst, að það mundi ekki mikið á því að græða, og það hefur líka farið svo.

Hv. 3. þm. Reykv. þykir ákaflega fjarstætt að draga ályktun af þessu hvað viðskipti áhrærir, að ef samið væri um mikla fjármuni þar eða mikið verðmæti um kaup og sölu og fyrir marga, þá gilti allt annað lögmál í því efni en ef um brunatryggingar er að ræða og sveitarstjórn á að semja fyrir alla sína þegna, allt öðruvísi sé varið um venjuleg viðskipti, við skulum segja verzlunarviðskipti. En ég er ekki alveg viss um, þó að honum finnist það allt annað mál, að menn séu alveg sannfærðir um, hvað sé rétt, því að rök færði hann engin fyrir því, enda mun það verða torvelt, því að í hvoru tveggja tilfellinu lýtur þetta að viðskiptum, hvort þau eru meiri eða minni, og ætti þá að gilda nokkuð svipað lögmál í þessu efni. Og það er ekki alveg víst, að allir taki fyrir góða og gilda vöru bara að hann segir, að það sé allt annað. Það er hans álit á því sjálfs, en það er ekki alveg endilega víst, að þeir, sem á hann hlusta og kunna að hugsa um þessi mál., sannfærist bara af því, að hann segir það. Það gæti vel hugsazt, að þeir heimtuðu frekari rök til að láta sannfærast. Þessu vil ég nú skjóta að hv. 3. þm. Reykv., og sérstaklega vil ég einmitt nota tækifærið nú, af því að hann leggur svo mikla áherzlu á þetta, ef það skyldi síðar gerast í hans lífi, að gengið yrði inn á einhverja svipaða braut um viðskipti, að þá er þægilegt að geta hugsað um það áður til þess að vera viðbúinn að gefa góð og gild svör gegn slíku. Við erum sammála um það, hv. 3. þm. Reykv. og ég, að það kunni að vera ekki hyggilegt, en mér skilst einhvern veginn, að forsendurnar fyrir niðurstöðunni hjá okkur í því efni kunni að vera eitthvað mismunandi hjá hvorum um sig.

Hv. 5. landsk. þm. (EmJ) fór í sambandi við þetta að minnast á afurðasölu bændanna og fannst vera nokkur mótsögn í því að binda með lagastaf þau viðskipti bændastéttarinnar, sölu á afurðum hennar, sem byggist nú á lagafyrirmælum, sem Alþ. hefur sett. Ég kem því ekki einhvern veginn fyrir mig, hvað sambærilegt þetta kann að vera. Ég verð að játa, að ég hef ekki hugsað út í þetta fyrr en hv. þm. varpaði þessu fram, en í því sambandi vil ég minna hann á, að þessi löggjöf er undirbúin af bændastéttinni sjálfri. Sá félagsskapur, sem bændurnir hafa um sín mál, fjallaði um þetta efni, áður en það kom til Alþ., og síðustu hönd á það verk lögðu trúnaðarmenn bændastéttarinnar, sem búnir voru að ræða við bændurna áður um þetta efni. Fulltrúar bænda hér á þingi tóku við þessu máli og reyndu að framfylgja því eftir óskum bændastéttarinnar. Þannig er þessi löggjöf til orðin. En ég vil benda hv. 5. landsk. þm. á, að það er fleira í lögum, sem bindur menn og bindur mönnum skyldur og byrðar og menn láta sér þó lynda, því að að því leyti sem lagastafurinn tekur til manna, þá er þar ekki gert neitt upp á milli, það á að gilda hið sama gagnvart fólkinu. Og eigi að breyta því, þá verður það að gerast með þeim hætti, að það taki einnig til þegnanna á sem réttlátastan hátt eftir því sem menn kunna að koma auga á, hvort sem óskirnar koma frá fólkinu til Alþ. eða fulltrúarnir á þingi gera þá ákvörðun sjálfir.

Sá stuðningur, sem bændastéttin taldi sér í þessari löggjöf, er því veittur eftir óskum hennar, og ég býst við því, að ég muni láta það vera að eyðileggja þá löggjöf eða upphefja hana, nema óskir kæmu frá bændastéttinni um það, og mundi það þá vera orðið mjög breytt viðhorf frá því, sem var þegar löggjöfin var sett, og frá því, sem er nú, eftir því sem maður getur bezt séð, þannig að ég held, að við þurfum ekki í þessu efni að vera að ræða svo mjög mikið um þetta. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að fjölyrða um þetta frekar. Það er lítið á þessu að græða, skilst mér, en ekki get ég neitað því, að ýmislegt hefur nú komið fram, sem hefði verið skemmtilegt að fást betur við, en það mun ekki breyta neinu um úrslit málsins og ekki vert að tefja þannig tíma.