14.02.1955
Neðri deild: 47. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég kom í upphafi þessarar umr. með fyrirspurnir viðvíkjandi því, hvernig þetta frv. mundi verða framkvæmt, ef að lögum yrði, og benti á ýmsar hættur og agnúa, sem á þessu eru.

Það var fyrst viðvíkjandi því, að eins og frv. er orðað, þá mundi vera hægt að takmarka tölu leigubifreiða í Reykjavík á þann hátt að fækka þeim frá því, sem nú er. Það var upplýst af hv. frsm. samgmn., að slíkt vekti ekki fyrir n. með flutningi þessa frv. Ég álít hins vegar, að það sé rétt, þegar farið er að gefa svona heimildir eins og felast í þessu frv., að þá sé slíkt skýrt tekið fram í lögunum sjálfum, og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 352 um, að aftan við 1. gr. í þessu frv. bætist:

„Skal í upphafi takmarkað, að því er tekur til fólksbifreiða í Reykjavík, við tölu þeirra manna, er hafa atvinnuleyfi samkvæmt samningum Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils við bifreiðastöðvarnar í Reykjavík.“

Þetta mundi þá aðeins vera að setja þessa 1. gr. í samræmi við þann skilning, sem samgmn., sem flytur frv., hefur á greininni.

Þá benti ég enn fremur á það, að með svona valdi, sem samgmrh. væri gefið, væri viðkomandi verkalýðsfélag að afsala sér allmiklum rétti og valdi, sem það annars hefði, og það þyrfti að reyna að tryggja sig, að mínu áliti, betur en gert væri með því að gefa svona almenna heimild. Enn fremur var um það rætt líka af fleirum, að nokkur hætta væri á, að atvinnuleyfin eða rétturinn til að stunda þessa atvinnu gæti orðið eins konar verzlunarvara, ekki sízt þegar ákveðnum einkafyrirtækjum væri með svona lögum líka gefin viss einokunaraðstaða. Ég hef þess vegna — til þess að reyna að girða fyrir þetta tvennt — leyft mér að bera fram brtt., sem er á sama þskj., 352, um, að þegar atvinnuleyfi losna innan þeirra takmarkana, sem felast í þessum lögum, þá skuli þeim ráðstafað samkv. reglugerð, sem viðkomandi bifreiðarstjórafélag setur og staðfest er af samgmrh., enda verði í reglugerðinni fyrir það girt, að atvinnuleyfi geti orðið verzlunarvara.

Það er engum efa bundið, að þetta er mjög þýðingarmikið atriði í sambandi við málið og að ég held bæði í samræmi við það, sem fram hefur komið hjá hv. samgmn., og þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram á frv. eins og það liggur fyrir. Ég held því, að báðar þessar brtt., sem ég þarna flyt, mundu verða mjög til þess að bæta úr hugsanlegum agnúum á framkvæmd þessa máls.

Ég álít, að það væri að öllu leyti bezt, að hægt væri að samþykkja þessar brtt. nú við 2. umr. málsins, ef þetta mál á annað borð á að fara áfram. Ég held, að þær mundu frekar gera málið aðgengilegt.

Ég vil hins vegar minna á um öll þessi mál —ekki aðeins hvað snertir bifreiðarstjórafélögin, heldur ýmis önnur slík stéttarfélög — um sérréttindi einstökum hópum til handa til þess að verða við eðlilegum óskum þeirra hópa um að tryggja þá gegn atvinnuleysi, að ef orðið er við slíkum óskum um sérréttindi, þá leggur það um leið þá siðferðislegu skyldu á herðar þeirra verkalýðsfélaga, sem fá slík réttindi, að þau stuðli að því með öllum þeim krafti, sem þau eiga, að verkalýðsstéttin sem heild sé tryggð gegn atvinnuleysinu. Það mundi ekki kunna góðri lukku að stýra, ef einstakir hópar innan verkalýðsstéttarinnar ættu að fá þannig sérréttindi und sína atvinnu, að aðrir aðilar væru útilokaðir frá því að komast þar inn í og öllum þeim, sem þannig væru útilokaðir, væri síðan raunverulega skellt í þann stóra hóp ófaglærðra verkamanna eða verkamanna, sem engra sérréttinda og engrar verndar njóta, og sá hópur ætti síðan að verða atvinnuleysinu að bráð. Það þýðir með öðrum orðum, að samhliða því sem ákveðnir hlutar innan verkalýðsstéttarinnar fara fram á að fá þá vernd gegn atvinnuleysi, sem felst meðal annars í frv. eins og þessu, þá leggst þeim á herðar sú siðferðislega ábyrgð að stuðla að því með öðrum hlutum verkalýðsstéttarinnar að firra heildina atvinnuleysi. Það vil ég að komi mjög skýrt og greinilega fram í sambandi við umræður um mál eins og þetta. Þegar farið er fram á sérstök réttindi fyrir ákveðna hópa, þá má það aldrei verða til þess að skilja þá svo að segja frá alþýðuheildinni, gera þá örugga í þeirra lífsbaráttu og ala þannig upp hjá þeim eigingirni og jafnvel skilningsleysi á högum annarra. Samfara því sem slík réttindi eru veitt fyrir ákveðna hópa, þarf þess vegna að fara aukinn skilningur hjá þessum hópum á því, að þeir tilheyra heild, sem öll er að berjast fyrir öruggari atvinnu og verður að gera m.a. sínar mikilvægu pólitísku ráðstafanir til þess að tryggja sig gegn atvinnuleysi. Þess vegna þurfa þær óskir, sem fram koma um slíka vernd gegn atvinnuleysi, eins og felst í þessu frv., og líka fela í sér á ýmsan hátt visst öryggi fyrir almenning, í reyndinni að samræmast þeirri eðlilegu viðleitni verkamannastéttarinnar sem heildar að tryggja sig gegn atvinnuleysi.

Ég álít, að það væri bezt, og ég álít þá betra, að þessari umr. væri frestað, svo að hv. samgmn. gæti athugað betur þessar till. Mér virðast þær annars að öllu leyti vera í samræmi við hennar skoðanir. Ég álít, að það væri bezt, að þetta væri afgr. nú og samþ. við 2. umr. þessa máls. Ég er á þeirri skoðun, að þessi mál þurfi það ýtarlegrar umræðu og athugunar við, að það beri ekki raunverulega að láta það verða eina einustu umræðu, sem sé 3. umr., sem skeri úr um, hvernig menn snúast við málinu. Þrátt fyrir það að samgmn. flytji þetta, þá er ég ekki svo viss um undirtektir þess í deildinni, að það sé ekki betra að ganga nú þegar frá því að samþ. þær brtt., sem ég flyt, og gera frv. skýrara og öruggara.