22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hörfar nú allhratt frá einni víglínunni í aðra og er nú kominn að þeirri niðurstöðu, að afsökun Reykjavíkurbæjar í þessu máli sé sú ein, að hann hafi ekki getað náð samkomulagi við heilbrigðisyfirvöld um það að fá að byggja sjúkrahúsdeild við annaðhvort Klepp eða landsspítalann. Þetta held ég að hljóti að koma þm. og öðrum kunnugum í hæsta máta undarlega fyrir sjónir. Það væri afar gaman að frétta nánar af þeirri stórsókn, sem Reykjavíkurbær virðist hafa staðið í undanfarin 5 ár til þess að fá að byggja sjúkrahúsdeild annaðhvort við Klepp eða landsspítalann. Ég hefði gaman af að lesa nákvæma skýrslu um þá herferð. Ég held, að sú skýrsla yrði sérlega fróðleg, er menn hafa það í huga, við hvern Reykjavíkurbær segist aðallega hafa verið að berjast, en það mun vera yfirlæknirinn á Kleppi, dr. Helgi Tómasson. — Hverjum þykir nú líklegt, að þetta mál hafi í 5 ár strandað á harðvitugri baráttu bæjaryfirvaldanna við Helga Tómasson?

Eitt af því fáa, sem rétt var í aðalatriðum í ræðu hv. þm., var, að það hefur verið ágreiningur milli læknisfróðra manna hér í Reykjavíkurbæ um það, hvort reka skyldi slíkt hæll í sambandi við Klepp eða í sambandi við annan spítala. Forstöðumaður geðveikrahælisins á Kleppi, dr. Helgi Tómasson, hefur staðið fast á þeirri skoðun sinni, að þessi deild ætti að vera í sambandi við Klepp. Aðrir sérfróðir læknar hafa talið þessa deild betur komna í sambandi við landsspítalann. En trúi því hver sem trúa vill, að Reykjavíkurbær hefði ekki getað lægt þessa sérfræðilegu deilu á milli dr. Helga Tómassonar og nokkurra annarra lækna í bænum, ef hann hefði haft einlægan áhuga á framkvæmd málsins.

Nei, sannleikurinn er sá, að þetta er skálkaskjól eitt. Sannleikurinn er sá, að Reykjavíkurbær hefur gripið þessa deilu á milli læknanna fegins hendi til þess að skjóta sér undan skyldu sinni, og núna, þegar þessir menn eiga að standa reikningsskap gerða sinna, þá nota þeir hana til þess að afsaka sleifarlag síðustu 5 ára í þessum efnum.