11.11.1954
Neðri deild: 16. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

12. mál, yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér í sambandi við þetta frv. að spyrja hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi því, sem stendur þarna í 1. gr., „á öðrum landssvæðum“, hvort búið sé að afhenda hernámsliðinu fleiri landssvæði nú þegar til umráða heldur en Keflavíkurflugvöll, þannig að þau komi undir þessi sérstöku lög.

Í fyrra, þegar rætt var um lögin um lögreglustjóra í Keflavík, þá ræddi ég allýtarlega um, hve óvenjulegt það væri, þegar verið væri að ákveða það svæði, sem ákveðin hreppsstjórn eða ákveðin lögreglustjórn næði yfir, að það skyldi ekki verá gert með nokkurn veginn ákveðnum landafræðilegum takmörkunum, þannig að menn gætu vitað, á hvers svæði menn væru á Íslandi, hvort þeir væru á svæði utanríkisráðherra sem dómsmálaráðherra eða á svæði dómsmálaráðherrans sem dómsmálaráðherra. Þá kom það m.a. fram, að t.d. rétt hjá Sandgerði væri verið að byggja eina stöð, en sá grunnur, sem hún væri byggð á, væri enn sem komið er ekki eign ríkisins, hins vegar næði lögreglustjóri Keflavíkurflugvallar aðeins til þeirra landssvæða eða varnarsvæða, sem að vísu herinn væri á drottnandi, en um leið væru eign ríkisins, þannig að þetta svæði hjá Sandgerði, sem er afgirt nokkuð frá Keflavíkurflugvelli, mundi á einu ákveðnu augnabliki, ef samningur væri undirskrifaður um það, að nú ætti ríkið þetta frá þessum degi, allt í einu að færast úr dómsmálaráðherrasvæði Bjarna Benediktssonar inn á dómsmálaráðherrasvæði Kristins Guðmundssonar. Það er nú náttúrlega dálitið viðkunnanlegra, þegar það eru orðnar svona tvenns konar ríkisstjórnir í landinu, að menn viti, á hvaða svæðum þeir eru. Og það hefur frá upphafi verið reynt að fá það hérna fram, hvernig þetta raunverulega væri. Allir vitum við nú, að þessi lög eru þannig til komin, að ríkisstj. sjálf hefur verið í óttalegri óvissu með þetta allt saman. Hún vildi engu sinna, þegar við vorum að ræða þessi lög hér á þinginu í fyrra, að þau væru nú ekki rétt vel úr garði gerð, og varð svo að grípa til þessara Sauðárkrókslaga hér til þess að reyna að bæta ofur lítið úr sínum misfellum.

Nú vildi ég spyrja: Eru nú þegar ákveðin önnur landssvæði á Íslandi fengin hernámsliðinu til afnota? Eru þau svæði, þar sem radarstöðvarnar nú eru, yfirlýst varnarsvæði þannig? Eigum við von á sérstakri lögreglustjórn þar, sérstökum frumvörpum um sérstaka lögreglustjóra fyrir Aðalvík og aðra slíka staði, eða verða hreppsstjórarnir, sem eru fulltrúar ríkisvaldsins á þessum stöðum, að skipta sér á milli tveggja yfirvalda, tveggja dómsmálaráðherra?

Ég verð að segja, að fyrst á annað borð er nú farið inn á þessa leið með lögsagnarumdæmi og annað slíkt hér á Íslandi, sem ég allt ákaflega óheppilega í þessu öllu saman, enda vandræðafálm, sem auðséð er að ríkisstj. lendir í vandræðum með,. þá væri þó a.m.k. bezt, að þetta væri nokkurn veginn skýrt. Ég vil þess vegna leyfa mér að óska eftir því að fá hjá hæstv. ríkisstj. yfirlýsingu um það: Eru einhver önnur landssvæði nú þegar afhent á þennan hátt og heyra þess vegna undir þetta, þannig að þau afbrot, sem þar kynnu að vera framin, kæmu þá beint undir utanrrh.? Og hver eru þau landssvæði?