26.10.1954
Neðri deild: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2146)

64. mál, byggingasjóður kauptúna

Einar Olgeirsson:

Ég skal lesa upp fyrir hv. þm. N-Þ. herbergjafjöldann í þeim íbúðum, sem byggðar voru 1946. Það voru byggðar 634 íbúðir, herbergjafjöldinn var 2148, það mundi gera líklega einhvers staðar á milli 3 og 4 herbergi að meðaltali í hverri af þessum íbúðum. Og það eru til, þó að ég hafi þær ekki hér við höndina, skýrslur yfir það. M. ö. o., meðaltalið af íbúðum, sem þá voru byggðar, er 3–4 herbergi í hverri íbúð. Ég gæti líka lesið upp fyrir hv. þm. og borið saman, hvað hefur verið byggt af 3 herbergja íbúðum í Rvík á öllum þessum árum, og það hefur aldrei verið byggt eins mikið af þriggja og fjögurra herbergja íbúðum eins og á þessu ári, vegna þess að það hefur aldrei verið byggt eins mikið af íbúðum í Rvík og á því ári. Það er rétt, að það eru að mörgu leyti mjög góð eftirmæli viðvíkjandi húsnæðismálum, að nýsköpunarstjórnin hafði leyft mönnum að byggja og gerði það með þeim árangri, að aldrei síðan hafa verið byggðar eins margar íbúðir, ekki heldur eins margar íbúðir, sem alþýðufólk hefur byggt sjálft og notið sjálft, eins og þá. En eftirmælin eftir Framsóknarstjórnirnar, sem síðan hafa komið, verða þá þau, að þær bönnuðu mönnum að byggja. Það verða eftirmælin. Loksins kom sem sé stjórn til valda á Íslandi, sem gerði það, sem Danir höfðu aldrei gert, á meðan þeir réðu landinu og fóru með það eins og nýlendu. Hún bannaði mönnum að byggja. Og þess mun verða minnzt. Við Reykvíkingar höfum orðið að horfa upp á, að þessi stjórn, sem bannaði mönnum að byggja, léti tvöfaldast íbúatöluna í öllum heilsuspillandi íbúðum bæjarins, þannig að í bröggunum, sem átti að leggja niður, bjuggu því fleiri börn, því eldri og verri sem braggarnir urðu. Þetta verða eftirmælin eftir þessi afskipti.

Ég held svo, að hv. þm. N-Þ. ætti að láta vera að tala um fortíðina í þessum efnum og hann ætti að reyna að sjá til þess að breyta nú þannig til, að framtíðin verði ofur lítið betri, t. d., að flokkurinn, sem hann tilheyrir, færi að einhverju örlitlu leyti að eiga nafnið sitt skilið, að hann verði í framsókn, en ekki afturhald.