18.11.1954
Neðri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

91. mál, bygging íbúaðrhúsa til útrýmingar herbúðm o. fl.

Flm.. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem við tveir þm. Reykv. flytjum hér, miðar að því að reyna að útrýma herskálunum sem íbúðum fyrir Íslendinga á tveimur næstu árum.

Við höfum nú alllengi, eða allt frá árinu 1947, þm. Sósfl., borið fram tillögur, sem hafa miðað að því að fella burt þau ákvæði í lögunum frá 5. apríl 1948, um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga, sem eyðilögðu í framkvæmd lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Eins og hv. þm. vita, hafa þessi frv. okkar, sem hafa verið borin fram á flestum þingum eftir 1947–48, ekki hlotið samþykki, og það hefur leitt til þess, að í framkvæmdinni hafa lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða þess vegna ekki verið í framkvæmd nú um 6 ára skeið.

Ég býst við, að allir hv. þm., sem voru á þingi 1947–48, muni eftir, hvernig farið var að a. m. k. í þessari hv. d., þegar þau lög, lögin, sem áttu að útrýma heilsuspillandi íbúðum, voru raunverulega felld úr gildi. Það var knúið hér í gegn, ef ég man rétt, með eitthvað tveggja atkvæða mun. Það voru allmargir af bæði þm. Sjálfstfl. og af þm. Alþfl., sem þá voru báðir stjórnarflokkar, sem greiddu atkv. á móti þessum brbl., sem þá voru lögð fram, og var þá alveg ljóst, hve nauðsynlegt var, að hægt væri að gera bæjunum mögulegt að vinna að útrýmingu hinna heilsuspillandi íbúða.

Hver hefur nú orðið afleiðingin af því, að þessi lög hafa ekki fengið að vera í gildi nú um meir.a en sex ára skeið? 1946 bjuggu í herskálunum í Reykjavík 1303 íbúar, þar af voru 511 börn. Og það þótti slæmt ástand þá, svo slæmt, að Alþ. áleit þá sérstaka ástæðu til þess að setja lög, þar sem gerðar voru ráðstafanir til, að hægt væri að útrýma þessum bröggum, eins og þeir eru kallaðir í daglegu tali, á næstu fjórum árum.

Með þau lög fór eins og ég hef áður getið, og 1950 var ástandið orðið þannig, að í herskálunum í Reykjavík bjuggu 2200 manns, þar af 976 börn. Og síðan hefur þessi tala farið vaxandi.

Þessar tölur, sem ég hef nefnt, gilda aðeins um Reykjavík. Hins vegar á okkar frv. líka við þá staði utan Reykjavíkur í bæ og sveit, þar sem enn þá eru herskálar til. Það mun að vísu ekki vera mikið um þá utan Reykjavíkur, það er tilfinnanlegast hér.

Allir voru þessir braggar gamlir og slæmar vistarverur 1946, og nú eru þeir orðnir átta árum eldri. Menn geta gert sér í hugarlund, hvernig muni vera að búa í þeim, enda býst ég við, að enginn mæli á móti því, að í flestum af þessum herskálum sé aðbúnaðurinn þannig fyrir fólkið, að þetta sé seigdrepandi líkamlega, það sé kvillasamara, ekki sízt fyrir börnin, og vinni jafnvel heilsu þeirra ævarandi tjón, að þau skuli þurfa að alast þarna upp. Jafnvel enn þá verra samt en sá líkamlegi aðbúnaður, sem af þessu hlýzt, og það líkamlega heilsutjón, er hvað braggarnir eru eyðileggjandi andlega, ekki sízt fyrir þá, sem vaxa þar upp.

Það hefur ef til vill stundum verið erfitt í gamla daga á Íslandi og vafalaust fyrir þá, sem bjuggu í kotunum. En það var sá munurinn þá, að þá var allmikill fjöldi, sem heyrði saman vegna þess. Þeir, sem búa í bröggunum, eru mikill minni hluti þjóðarinnar. En ég býst ekki við, að hv. þm. hafi farið varhluta af því að kynnast því, hvaða andleg áhrif það hefur, sérstaklega á ungu kynslóðina, sem vex þar upp. Ég veit af barni, sem bjó í slíkum bragga og hafði alizt þar upp alla sína ævi og var ekki gamalt og segir við skólasystur sína, er bjó hér eins og flestir Reykvíkingar í sæmilegu húsi: Er ekki voðalega gaman að því að búa í húsi? — Það, að það skuli vera til börn, svo að hundruðum skiptir, jafnvel yfir þúsund, sem aldrei hafa fengið að búa í húsi, og það hér í Reykjavík, ætti a. m. k. að geta komið við flesta, sem eru máske harðari gagnvart þeim, sem eldri eru. Það hefur líka komið hér fyrir í skólum eða við önnur slík tækifæri, þegar verið er að spyrja börnin að heiti, að þau svara reiprennandi, hvað þau heita og hverjir foreldrar þeirra séu og hvað þau séu gömul og annað slíkt, og svo er komið að því að spyrja þau, hvar þau búi, og þá þagna þau. Þau þagna, af því að þau kunna ekki við að nefna það, að þau búi í þessu og þessu braggahverfi.

Ég býst við, að flestum sé ljóst, hvaða áhrif þetta hefur á ungu kynslóðina, sem er að vaxa upp. Það var einu sinni, að einn af okkar beztu rithöfundum skrifaði sögu um barn, sem okkur er vafalaust öllum enn þá í minni, þegar Einar Hjörleifsson Kvaran skrifaði söguna Vistaskipti og lýsti því, hver áhrif aðbúnaður, sem þar var og á þeim tíma og til allrar hamingju er horfinn síðan, hafði á barn. Það er raunverulega synd, að enginn skuli hafa skrifað eins um þau börn, sem hér vaxa upp í Reykjavík nú og annars staðar og í bröggunum búa. Það, sem er að gerast í þessu sambandi, er raunverulega misþyrming, andleg misþyrming á börnum. Og það er ekki hægt að láta þessa hluti ganga svona lengur.

Einu sinni vorum við Íslendingar fátæk þjóð, og okkur fannst ekki nema eðlilegt, að meginið af okkur — eins og okkar afar og ömmur — byggi í kotum. Og við sáum ekki neina möguleika. Þegar kotin hafa verið rifin núna og jafnvel ekki einu sinni sums staðar varðveitt það mikið, að seinni tíminn geti vitað, hvernig okkar afar og ömmur bjuggu, þá býst ég við, að hjá flestum af þeim, sem rifu kotin, hafi fylgt tilfinningin með: mikið væri gott að vera laus við þetta og allt, sem stóð í sambandi við það, þó að það væru líka margar ánægjulegar endurminningar.

Það er þess vegna engum efa bundið, að okkur ber að öllu leyti að gera átak til þess að útrýma þessum bröggum. Hvað sem öllu öðru líður í okkar húsnæðismálum og hvaða ráðstafanir sem við gerum, þá verður þarna að gera átak. Við Íslendingar erum það ríkir nú, að okkur er það hægðarleikur. Það er auðvelt. Það er minni áreynsla fyrir okkur að útrýma öllum bröggum, sem nú eru til á Íslandi, heldur en var fyrir okkar forfeður um 1900 að reka eitt sæmilegt samkomuhús í Reykjavík eða á Akureyri. En þau standa enn með prýði sem stærstu samkomuhús slíkra staða, samkomuhúsin, sem þeir reistu.

Hverjir eru það, sem eru sekir um það, að þetta ástand ríkir enn þá? Þeir, sem eru sekir, eru Sjálfstfl. og Framsfl., eru þeir menn, eru þeir flokkar, sem hafa haft ríkisvaldið þessi síðustu 6–7 ár og hafa misbeitt því þannig, að afleiðingin hefur orðið, að það er níðzt á varnarlausu fólki. Það er ríkisvaldið sjálft, það er ríkið sjálft fyrir sína handhafa, sem ber ábyrgð á því, hvernig komið er þessu ófremdarástandi, sem við verðum að losna við. Það er ríkið sjálft, þessir tveir flokkar, sem fyrst og fremst hafa beitt því, það eru þeir, sem bönnuðu og komu í veg fyrir þær byggingar, sem hefðu útrýmt bröggunum og skapað í staðinn mannsæmandi íbúðir. Það hefur verið byggt yfirdrifið af íbúðum, sem hefðu getað útrýmt þessum íbúðum á þessum tíma. Það hafa verið byggð heil hverfi, það hefur verið byggð næstum heil borg suður á Keflavíkurflugvelli, að miklu leyti með íslenzku vinnuafli og íslenzkum vélum, á sama tíma sem braggarnir hafa fengið að eldast og börnunum hefur fjölgað í þeim. Þessir flokkar og það ríkisvald, sem þeir hafa beitt, hafa gert tvennt, sem myndar þeirra sekt. Í fyrsta lagi: Þeir hafa hindrað, að lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða fengju að vera í framkvæmd. Þeir hindruðu þar með, að það jákvæða, stórfellda starf, sem átti að vinna með þeim lögum af hálfu hins opinbera, yrði að veruleika. Og í öðru lagi hafa þessir flokkar og þeirra ríkisvald alllengi nú hindrað fólk í því að byggja, sem hefði byggt af sjálfsdáðum. Þar er að vísu orðin breyting á, en sú breyting afnemur ekki þá sök, sem saga síðustu sex ára leiðir í ljós í þessu sambandi.

1946 var vilji hjá fólki til þess að reyna að byggja, til þess að reyna af sjálfsdáðum að útrýma því vandræðaástandi, sem við bjuggum við í húsnæðismálum. Eins og ég hef áður getið um hér og skal fara ýtarlega út í nú að gefnu tilefni, þá voru 1946 byggðar 634 íbúðir í Reykjavík. Til samanburðar má geta þess, að 1951 voru byggðar 282 íbúðir í Reykjavík. Einn hv. þm. minntist á það nýlega hér í umræðum, þegar ég kom með þessar tölur, að það mundu nú líklega hafa verið nokkuð stórar íbúðirnar, sem voru byggðar 1946, og ekki rétt hentugar fyrir alþýðu manna og ekki við hennar hæfi; það hefði verið séð betur fyrir því, þegar fjárhagsráð íhalds og Framsóknar tók við, að það væri ekki verið að byggja neinar „lúxus“-íbúðir, heldur íbúðir fyrir fátækan almenning. Ég skal þess vegna bera saman frá nokkrum þessara ára herbergjatöluna í íbúðunum, sem byggðar voru á þessum árum.

1946 voru byggðar 187 tveggja herbergja íbúðir. 1951 var byggð 51 tveggja herbergja íbúð. 1953 voru byggðar 30 tveggja herbergja íbúðir. Við skulum athuga líka með þriggja herbergja. 1946 voru byggðar 146 þriggja herbergja íbúðir í Reykjavík. 1951 voru byggðar 120. 1953 var byggð 81. Það var sem sé ekki miðað beinlínis við þann fátæka almenning, þegar þarna var verið að byggja. Við skulum taka fjögurra herbergja íbúðir; það er ekki heldur nema það, sem væri eðlilegt fyrir almenning að hafa. 1946 voru byggðar 170 fjögurra herbergja íbúðir. 1951 voru byggðar 60 fjögurra herbergja íbúðir. 1953 voru byggðar 64. Ég skal viðurkenna, að það var byggt allmikið af stórum íbúðum 1946. T. d. sex herbergja íbúðir voru byggðar 1946 23. 1953 voru byggðar 72 sex herbergja íbúðir. Og þegar ég segi hér „byggðar“, þá er alltaf átt við það, sem er fullgert á því ári. Sök stjórnarflokkanna á undanförnum árum hefur því verið sú, að það hefur verið komið í veg fyrir, að fólk byggði eins mikið og það hefði byggt af sjálfsdáðum, ef það hefði verið frjálst að því að byggja.

Ég álít, og það er skoðun okkar flm. og Sósfl., að ríkið eigi að bæta fyrir þá sök, sem það hefur tekið á sig með því að hafa ýmist dregið úr þeim byggingum, sem menn hefðu lagt í ella af sjálfsdáðum, eða hindrað, að þau lög væru framkvæmd, sem miðuðu að því, að ríkið sjálft og hið opinbera og bæirnir stuðluðu að því, að hinum heilsuspillandi íbúðum væri útrýmt. Við álítum, að ríkið verði að bæta fyrir þessa sök.

Við höfum, sósíalistar, á þessum undanförnu árum barizt fyrir því, að menn hefðu frelsi til að byggja, og við höfum barizt fyrir því, að ríkið og bæirnir einbeittu sér að því að útrýma heilsuspillandi híbýlum. Allar okkar till. um hið síðar nefnda hafa verið felldar eða svæfðar. Baráttan fyrir byggingarfrelsinu hefur hins vegar borið nokkurn árangur. Og það hefur sýnt sig þegar um leið og almenningur fékk nokkurt frelsi til að byggja, að það hefur ekki skort framtak þar. En það skortir framtak hjá ríkinu sjálfu. Og nú þarf ríkið að sýna það framtak. Það þarf að grípa til skjótra og stórvirkra aðgerða til þess að bæta fyrir margra ára misgerðir ríkisvaldsins.

Með því byggingarfrelsi sem nú hefur að vissu leyti fengizt, þá hafðist það í gegn, að þeir, sem höfðu efni og ástæður til þess að byggja, fengu frelsi til þess. En það þarf líka að byggja yfir þá, sem hafa ekki efni á að byggja sjálfir. Þeim liggur ekki síður á því að komast í mannsæmandi íbúðir. Það er tilgangur þessa frv. að tryggja, að það sé gert og það tafarlaust.

Ég veit, að það munu koma fram ýmsar athugasemdir í þessu sambandi. Það mun ekki þykja sérstaklega gróðavænlegt, að ríkið leggi í þessa íbúðarhúsabyggingu, sem við hér leggjum til. Og við miðum þetta frv. ekki heldur við það, að það sé fjárhagslegur gróði fyrir ríkið. Ég held, að ríkið geri sem stendur það mikið að því með sínum afskiptum af fjármálum að skapa okur í þjóðfélaginu, að ríkið megi sjálft sýna, að það vilji rísa upp á móti þeim anda, sem nú virðist vera að grafa hér um sig, — þeim anda gróðadýrkunarinnar og okursins, sem er að leggja þjóðfélagið undir sig. Hér hefur pólitík ríkisstjórnarinnar og ríkisvaldsins á undanförnum árum í húsnæðismálunum skapað slíkt ástand, að það hefur aldrei verið annar eins svartur markaður í húsnæðismálum og nú er í Reykjavík — aldrei nokkurn tíma.

Svarti markaðurinn í húsnæðismálum og svarti markaðurinn á peningunum er það, sem tekið hefur við af þeim svarta markaði, sem ríkisstj. hefur stært sig af að vera að útrýma í vörudreifingunni; svarti markaðurinn á peningum þannig, að 30% vextir eru orðnir algengir; svarti markaðurinn í húsnæðinu þannig, að 1200 á mánuði fyrir tveggja herbergja íbúð er til. Ríkið verður að rísa upp á móti í þessum efnum. Það verður að innleiða aðra hætti í sambúð mannanna en þarna er verið að gera.

Í öðru lagi viljum við með þessu frv. reyna að fá það fram, að ríkið geri nokkrar ráðstafanir gegn því miskunnarleysi, sem er að halda innreið sína í okkar þjóðfélag. Það er rétt eins og samfara smekkleysinu á „estetiska“ sviðinu, sem amerísku áhrifin, ekki sízt í kvikmyndunum, tímaritaútgáfunni og slíku, hafa verið að innleiða hérna á Íslandi sé það miskunnarleysi í lífsbaráttu, sem Bandaríkin eru alræmdust fyrir, að byrja að gagnsýra íslenzka þjóðlífið. Og það er nauðsynlegt, að við risum upp á móti því, ef við ætlum ekki að láta útrýma þeim háttum í sambúð, sem hafa tíðkazt hjá okkur hér á Íslandi, jafnvel í mestu fátækt okkar þjóðar, nú þegar auðvaldsskipulagið er fyrir alvöru að ryðja sér til rúms. Það hefur tíðkazt hér á Íslandi vegna smæðar þjóðarinnar og vegna nágrennisins, að menn hafa verið hjálpsamari hverjir við aðra en er hjá mörgum öðrum þjóðum. Og við vitum allir, að þegar stórborgir taka að myndast, þá er alltaf hætta á því, að slíkt miskunnarleysi festi þar rætur. Og það, sem hér er að skapast við hliðina á þeim „lúxus“, sem á sér stað hjá þeirri auðmannastétt, sem risið hefur upp í Reykjavík á síðustu árum, er slík fátækt, slíkur aðbúnaður, að meðan Reykjavík var smærri bær, hefði mönnum ógnað það. Ég held, að við þurfum að gera skipulegar ráðstafanir gegn því, að miskunnarleysi stórborgarinnar haldi innreið sína í okkar þjóðfélag. Við vitum allir, hvað mikið er um þá almennu hjálpsemi, þegar því verður við komið, ekki sízt í Reykjavík. Við vitum, hvað grundvöllurinn er yfirleitt góður fyrir slíkt hjá þeim almenna borgara. En ríkið sjálft. — það er eins og því finnist og eins og það sé komið á þeim hugsunarhætti, að ríkið hafi engar skuldbindingar í slíku sambandi. Hjá fátækasta fólkinu í bænum er verið að rífa burt fátæklegustu húsgögn upp í útsvör og skatta, venjulega þannig, að þetta er síðan látið eyðileggjast, því opinbera að engu gagni. Ég held, að við gætum gert ráðstafanir til þess að breyta þarna um til þess að tryggja það, að ríkið gengi á undan um að útrýma því, sem er verst, þó að margt sé slæmt í húsnæðisleysinu hjá okkur, eða bröggunum.

Efni okkar frv. er því það, að ríkið byggi sjálft á næstu tveim árum 800 íbúðir á þessum svæðum, bæði í bæ og sveit, — í Reykjavík og hér í nágrenninu er það að mestu leyti, en það á að byggja það eftir frv. alls staðar þar, sem slíkt er. Við höfum áður lagt til og það hefur verið eyðilagt í sex ár, að bæirnir væru studdir til þess að gera þetta. Nú er meiningin, að ríkið geri þetta sjálft.

Ríkið byggir yfir embættismenn. Ríkið byggir yfir dómara, yfir sýslumenn, yfir lækna, yfir æðstu og bezt launuðu embættismenn þjóðfélagsins. Við leggjum þarna til, að það byggi yfir þá, sem verst eru settir. Ríkið hefur hindrað Reykjavíkurbæ og aðra bæi í því að útrýma heilsuspillandi íbúðum á undanförnum árum. Nú á að bæta úr þessu. Og ég vil líka segja, að þó að ríkið útrými bröggunum með þessum ráðstöfunum, þá er nóg fyrir bæina að gera að útrýma öðrum þeim íbúðum, sem heilsuspillandi eru. Við gerum ráð fyrir því, að það séu ekki yfir 800 íbúðir. Ég hef ekki getað gengið nákvæmlega úr skugga um það, en ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að það sé ekki yfir 800 íbúðir, sem þyrfti að byggja til þess að útrýma öllum bröggunum. Og jafnóðum sem fólki væri boðið að flytja inn í þessar nýju íbúðir úr herskálunum, þá ætti að rífa þá.

Ég býst við, að ef ríkið hefur nokkurn skynsamlegan hátt á um byggingu, þá sé hægt að byggja sæmilegar þriggja til fjögurra herbergja íbúðir fyrir 150 þús. kr. íbúðina, þ. e., ef ekki er fyrirhugað að láta einhverja og einhverja menn vera að græða á því. Og ég veit, að góðar íbúðir hafa verið byggðar fyrir þetta. 800 íbúðir mundu kosta 120 millj. kr., og fyrir ríkið, sem hefur í tekjuafgang á einu ári 100 millj. kr., þá er það lítið. Það er því ekki hægt að bera því við, að ríkið hafi ekki efni á því, þannig að fjárhagsatriðið er ekkert atriði í þessu sambandi fyrir ríkið sem slíkt.

Við leggjum til, að þeim, sem í herskálunum búa, sé boðið að flytja þarna inn og þeim sé reiknuð leiga á næstu átta árum. Lengra fram leggjum við ekki til, hvernig þessu sé ráðstafað. Við tókum þessi átta ár, miðað við það, að það ætti að vera eins konar uppbót fyrir það fólk, sem lengst hefur í bröggunum búið, að það byggi við sæmilega leigu í þessi átta ár. Ég veit, að sú leiga, sem við þarna leggjum til, mundi vera nokkurt tap fyrir ríkið á þessum tíma, og ég sé ekkert eftir ríkinu að bera það tap. Að þeim átta árum liðnum gæti löggjafinn ráðstafað, eftir því sem honum þóknaðist, hvernig sú leiga væri. Og við leggjum til, að leigan sé reiknuð mánaðarlega, 10% af mánaðarkaupi Dagsbrúnarverkamanna, m. ö. o., að hún sé miðuð við, hvaða tekjur menn hafa. Þetta er óvenjuleg ráðstöfun og allmiklu róttækari en það, sem menn annars hafa hugsað sér viðvíkjandi greiðslu leigu. Ég veit, að nú er það svo hjá verkamönnum og starfsmönnum ríkisins og öðrum, að menn verða að greiða þriðjung og upp í helming af sínum launum fyrir tveggja til þriggja herbergja íbúð, ef menn hafa mánaðarkaup Dagsbrúnarverkamanns, og það er óþolandi ástand, en það er ríkið, sem á sök á þessu ástandi, Það er ríkið, sem ræður öllum bankaútlánunum, það er ríkið, sem ákveður alla fjármálapólitíkina, það er ríkið, sem pískar núverandi kynslóð til þess að borga upp 100% allt, sem byggt er á Íslandi. Í staðinn fyrir, eins og mundi vera gert við skulum segja í borgaralegu landi eins og Danmörku, að gera mönnum mögulegt að borga upp sínar íbúðir á 60–70 árum og þætti eðlilegt, þá er hér verið að píska menn til þess að borga það upp á 10–15 árum, þannig að af þeim rúmum 3000 millj. kr., sem nú standa í íbúðum á Íslandi, eru bankalán og fasteignaveðlán varla yfir 10% í dag, eða 300 milljónir. — Við leggjum til, að ríkið ákveði leiguna 10% af mánaðarkaupi Dagsbrúnarverkamanns. Það ætti að vera vísbending um, að þetta væri eðlilegt og að ríkið vildi gera eitthvað gott af því, sem það hefur misgert á undanförnum árum. Ég veit að vísu, að t. d. í þeim löndum, sem byggja nú einna mest af íbúðum yfir alþýðu manna, í sósíalistísku löndunum, þar sem sú regla er höfð að miða húsaleigu við tekjur manna, er yfirleitt miðað við frá 4 upp í 8%. — Ég álít, að það væri ákaflega holl vísbending gagnvart öllum þeim, sem nú verða að búa við háa húsaleigu í Rvík, að ríkið gengi á undan um að lækka húsaleiguna, og væri þó enn þá betra, ef ríkið breytti sinni fjármálapólitík þannig, að hinum einstöku eigendum húsa og íbúða á Íslandi væri gert mögulegt að leigja ódýrara en þeir gera.

Við vitum ósköp vel, að svo og svo mikið af öllu því fólki, sem núna leigir dýrt, er sjálft oft fátækt fólk, sem er að brjótast í að reyna að bjarga húseignum og neyðist þess vegna til þess að fara að okra á öðrum, af því að það er okrað á því vegna þess, hvernig bankapólitíkin er ákvörðuð af hálfu ríkisins, sem raunverulega ræður henni og getur ráðið henni.

Þessi ákvörðun um leigu átti m. ö. o. að vera áminning ríkisins og aðgerð á móti svarta markaðnum í húsnæði, á móti svarta markaðnum í peningum, samsvarandi aðgerð og það er á móti svarta markaðnum í peningum að ákveða að leigja bændum fé með 2½% vöxtum eða láta til verkamannabústaðanna fé með 2½% vöxtum, hvort tveggja góðar og heilbrigðar ráðstafanir ríkisvaldsins frá fyrri tímum, sem enn sem komið er hafa til allrar hamingju ekki þurft að víkja fyrir okurandanum, sem er að ryðja sér til rúms nú.

Ég álít þess vegna, að þessar ákvarðanir, sem gert er ráð fyrir í 3. gr., væru mjög heppilegar.

Í 4. gr. er ríkisstj. heimilað að taka nauðsynleg lán til bygginganna og enn fremur að verja af tekjuafgangi ríkissjóðs á árunum 1954 og 1955, eftir því sem á vantar.

Í 5. gr. er svo lagt til, að 1. tölul. í 1. gr. l. nr. 50 frá 5. apríl 1948 sé felldur burt. Það er hálf lína, þetta sem við leggjum til, að sé fellt þarna burt. Þessi hálfa lína úr l. um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga frá 1948 er lína, sem hefur fellt burt alla aðstoðina við bæina um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Með því að samþykkja 5. gr. kæmu þær skyldur aftur á herðar ríkisins að hjálpa bæjunum við útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og þó að ríkið taki að sér að útrýma bröggunum, þá eiga bæirnir eftir nóg í að útrýma kjallaraíbúðunum.

Ég vil minna menn á, ekki sízt þá, sem tala um gildi laga, að það eru enn í dag í gildi lög frá 1929 um bann við kjallaraíbúðum. Þau eru í gildi enn í dag, lögin, sem banna, að það sé búið í kjallaraíbúðum. Þegar þau lög voru sett 1929, voru 800 kjallaraíbúðir í Reykjavík. Ég býst við, að þær séu nær 2000 nú, en að vísu á mikið af þeim kjallaraíbúðum, sem byggðar hafa verið upp á síðkastið, ekkert nema nafnið sameiginlegt með því, sem upphaflega var. Sannleikurinn er, að þessi lög frá 1929 um útrýmingu kjallaraíbúðanna eru — ég verð að segja það hreinskilnislega — eins ágæt lög og þetta voru og eins góður og tilgangurinn var með þeim, farin að standa á vissan hátt fyrir þrifum. Ég býst við, að svo og svo mikið af þeim húsum, sem nú eru byggð í Reykjavík, væri byggt með hærri kjöllurum, kjöllurum, sem væru sæmilegar íbúðir, ef þessi lög væru ekki og ef það væri ekki enn þá þannig, að það væri hafður alls konar „hókus-pókus“ við að taka út íbúðirnar á eftir. En það, sem er samt sem áður nógu slæmt í þessum efnum, er, að í þeim kjallaraíbúðum, sem eftir skoðun eru dæmdar óhæfar sem mannabústaðir, bjuggu 2700 manns fyrir nokkrum árum og líklega fleiri núna.

Það búa um 10 þús. manns í Reykjavík í íbúðum, sem hafa verið álitnar meira eða minna óhentugar eða slæmar til íbúðar. Aðeins í þeim óhæfu kjallaraíbúðum eru líklega nú um 3000 manns, þannig að þó að ríkið útrýmdi bröggunum á næstu tveim árum og lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða kæmu aftur í gildi, þá hefði bæði Reykjavíkurbær og aðrir bæir nóg að gera við að útrýma öðrum þeim heilsuspillandi íbúðum, sem því miður væru samt sem áður eftir.

Hv. 6. þm. Reykv. og ég höfum lagt þetta frv. fram í trausti á það, að ef til vill væri hægt að fá menn til þess að gera einu sinni eitt stórt átak af hálfu ríkisins í þessum efnum. Eftir að ríkið hefði vanrækt sínar skyldur gagnvart þeim, sem minnst mega, um svona langan tíma, þá gæti mönnum nú ef til vill runnið blóðið til skyldunnar og séð um að afmá þann smánarblett, sem braggarnir eru enn þá á okkar landi. Það er hægt að gera þetta í svona átaki. Við erum nógu tekjumikil og nógu rík þjóð. Ríkið hefur sjálft það miklar tekjur og getur, ef það vill, aflað sér það mikils lánstrausts, að það gæti áorkað svona hlut.

Ríkið leggur bæjunum yfirleitt það miklar skyldur á herðar, að það er alveg óhætt fyrir ríkið einu sinni að gera fleira en að byggja yfir hálaunaða embættismenn, og er ég ekki að telja það eftir. Það er alveg óhætt fyrir ríkið einu sinni að gera eitt verk, þar sem það segir við bæina á landinu og alla aðila: Svona fer ég að því að útrýma því, sem er blettur á íslenzku þjóðlífi.

Ég vil þess vegna f. h. okkar flm. óska þess, að þetta mál fái hér góðar undirtektir og að því að lokinni þessari umr. sé vísað til hv. fjhn.