25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

173. mál, lán til vegagerðar um Heydal

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta mál um Heydalsveg er hv. alþm. nokkuð kunnugt frá því að fjárlagaumræður fóru hér fram í vetur.

Það hefur sýnt sig á þessum vetri sem raunar oft áður, að það er mikil nauðsyn á því að geta bætt samgöngurnar fyrst og fremst til Breiðafjarðar og með því jafnframt hugsanlegur möguleiki að bæta verulega vetrarflutninga til annarra héraða og landsfjórðunga, ef kæmist vetrarvegur yfir Heydal. En það, sem gerir það að verkum, að hv. þm. Snæf. (SÁ) ásamt mér hefur borið þetta frv. fram og haft þetta mál á oddinum áður, er það, að þarna er um fjallaleið að ræða, sem er mun snjóléttari en þeir fjallvegir, sem þjóðvegir og aðalleiðir liggja um núna. Brattabrekka, þar sem leiðin liggur vestur í Dali, er á 5 km kafla yfir 300 m á hæð yfir sjávarmál, en Heydalsleiðin aftur á móti er 140–160 m yfir sjávarmál á 4 km kafla og kemst hæst í 180 m hæð á örmjóu rifi og þetta er miklu lægra en Kerlingarskarð, sem er 300 m yfir sjávarmál.

Heydalsleiðin, ef hún getur orðið nokkurn veginn akfær á næstunni, mundi því verulega geta bætt úr þeirri samgöngukreppu, sem hefur verið við þessa staði við Breiðafjörð á undanförnum árum, og auk þess sparað ríkinu mikið fé í framtíðinni, því að það er vitað mál, að árlega er eytt í snjómokstur svo að hundruðum og milljónum skiptir hér á landi. Ég vil ekki fullyrða, hvað eytt er í þessa tvo fjallvegi, en ég veit, að stundum hafa farið í að halda Bröttubrekku opinni tugir þúsunda og þó ekki verið fært nema annað veifið að vetrinum. Aftur á móti mundi ný vegarlagning yfir Heydal kosta rúmlega 1 millj. kr. og spara mikinn kostnað við snjómokstur. Þessi leið er af Stykkishólmsvegi og vestur á Skógarströnd um 28 km löng, en þar af er algerlega ólagður vegur og óakfær 17 km, sem eftir er að leggja nú, og á þessari leið er ekki mikið um stór brúarmannvirki að ræða, þannig að það hleypir ekki verulega upp kostnaðinum. En þegar kemur vestur á Skógarströnd, er þar allt sumarið og fram á vetur nokkurn veginn bilfært. Það er að vísu nokkuð langur kafli enn þá, sem eftir er að gera á upphleyptan veg, en það hefur unnizt drjúgum á undanförnum árum, og því verður haldið áfram á næstunni. Nú í vetur hefur Hvammsfjörður verið ísi lagður frá því í janúar og enginn bátur komizt inn til Búðardals og jafnvel ekki á þær hafnir, sem hafa verið utar með firðinum beggja vegna. Á sama tíma má heita að Brattabrekka hafi verið ófær bifreiðum, nema rétt á meðan verið er að opna leiðina og svo ekki meira. Og þetta er ákaflega ófullnægjandi. Á sama tíma hefur Holtavörðuheiði einnig verið illfær. En ég vil benda á það, að ef leiðin kemst yfir Heydal og í gegnum Dali, þá er þar hægt að fá miklu snjóléttari vetrarleið yfir Laxárdalsheiði og þaðan norður í land heldur en nú er farin yfir Holtavörðuheiði. Ég álít þetta þess vegna ekki neitt sérmál fyrir breiðfirzkar byggðir, þó að vegur komi yfir Heydal, heldur er þetta landsmál, sem okkur ber öllum að vinna að að komi sem fyrst til framkvæmda.

Það hefur verið mikið um þetta rætt í vetur, og ég ætla ekki að rifja þær umr. verulega upp. Í sambandi við fjárlagaafgreiðslu var felld till., sem við bárum þar fram, hv. þm. Snæf. ásamt mér, og var hún mjög sanngjörn. En til þess að hægt verði að hefjast handa nú á þessu ári, förum við þess á leit, að ríkisstj. fái að taka lán til þess að hefja framkvæmdir til þessa vegar á n. k. sumri. Og í trausti þess, að hv. alþm. skilji þetta þýðingarmikla mál og vilji ljá því gott lið, höfum við borið þetta frv. fram. Vænti ég hins bezta af þingheimi í þessu máli og vil mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari lokinni og enn fremur til hv. fjhn.