22.11.1954
Sameinað þing: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2430)

105. mál, atkvæðagreiðsla að hálfu Íslands

Einar Olgeirsson:

Ég ætla að leyfa mér sökum þess, hve ógreinileg svör voru áðan frá hæstv. ríkisstj. um, hvort álit Alþingis fengi að koma fram til fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, að endurtaka nú spurningu mína til hæstv. ríkisstjórnar, hvort fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum verði símaður sá árangur, sem hér liggur fyrir, hvernig Alþ. hefur samþykkt þetta, með hvaða mótatkvæðum, og hvaða till. hafa verið felldar.

Ég vil enn fremur vekja eftirtekt á því, að það fékkst ekki borið upp, að málið væri sent til utanrmn. En það kemur fram við atkvgr. þessa máls, að form. utanrmn. er ekki á fundinum, að helmingur af þeim nm. í utanrmn., sem hér eru staddir og greiða atkv., greiðir atkv. gegn og aðeins helmingurinn með, og það hefði þótt söguleg afgreiðsla í utanrmn., ef til hennar hefði komið, að slík afstaða væri tekin til tillögu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að ríkisstj. segi, hvort það verður símað nákvæmlega, hvernig þessi till. var samþykkt hér, með hvaða atkvæðagreiðslum.