07.12.1954
Sameinað þing: 22. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2452)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan í sinni mjög stuttu framsöguræðu, sem hann hélt um að taka nú Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið, að þetta bandalag hefði að undanförnu stuðlað að því, að friður héldist í heiminum.

Við, sem vorum hér á Alþ., þegar Ísland í fyrsta skipti var látið flekka sinn friðarskjöld með því að ganga í hernaðarbandalag og það árásarbandalag, — við, sem vorum hér 30. marz 1949, munum eftir, hvað sagt var um Atlantshafsbandalagið, hvernig því var hælt og ríkjunum, sem í því væru, hvernig treysta mætti þessum ríkjum til þess að vernda og viðhalda lýðræði, hvar sem væri í veröldinni, hvernig þessi ríki væru útvalin til þess að efla og hjálpa þjóðfrelsinu, hvar sem væri í veröldinni, og hvernig þessi ríki væru frumherjar mannréttindanna, hvar sem væri í veröldinni. Og það er raunverulega ekki ófyrirsynju, að við reynum ofur lítið að rifja upp fyrir okkur reynslu þessara síðustu fimm ára, sem Ísland er búið að vera í Atlantshafsbandalaginu, nú, þegar við eigum að fara að samþykkja að taka hálffasistískt Þýzkaland inn í það í viðbót.

Þó að slæm hafi verið nýlenduríkin, nýlendudrottnarnir, sem Ísland var tekið í samfélag með 30. marz 1949, þá hefðu kannske einhverjir af hv. þingmönnum haldið, að þessir kumpánar ættu eftir að breytast eftir allar þær fögru yfirlýsingar og þann fagurhljómandi bandalagssáttmála, sem þeir undirskrifuðu þá. Það hefur hins vegar ekki sýnt sig. Það eru við völd í þessum löndum sömu auðmannastéttirnar, sem að vísu halda við lýðréttindum heima hjá sér, á meðan völdum þeirra stafar ekki ógn af þeim lýðréttindum, en afnema slík lýðréttindi um leið og þessar auðmannastéttir eru farnar að hræðast þau. En þessar auðmannastéttir Bretlands, Frakklands, Hollands og annarra þessara landa viðurkenna hins vegar ekki lýðræðið annars staðar, þar sem þjóðir, sem hafa að einhverju leyti verið þeim háðar, eru að krefjast lýðréttinda og þjóðfrelsis. Þar beita þeir, herrarnir í nýlenduríkjunum, harðstjórn og ógnarstjórn.

Hvað segir sagan okkur á síðustu fimm árum frá því Atlantshafsbandalagið var stofnað? Við skulum bara taka fyrsta ríkið, sem samþykkt hefur þennan sáttmála, sem hér liggur fyrir. Við skulum taka Bretland og aðferðir brezku auðmannastéttarinnar. Hvað er það, sem við höfum reynt á þessum síðustu fimm árum viðvíkjandi framkomu Bretlands, þessa fram úr skarandi lýðræðisríkis, sem á að heita svo, í afstöðunni til þeirra þjóða, sem eru lítils megandi, í afstöðunni til þeirra þjóða, sem eru nýlenduþjóðir eins og við Íslendingar vorum? Hvernig fer brezka ríkisstj., brezka auðvaldið að í Kenya nú sem stendur? Þar er verið að framkvæma sams konar þjóðarmorð og stríðsglæpamenn nazista voru dæmdir fyrir í Nürnberg fyrir níu árum. Þar er verið að uppræta heilan kynflokk, — kynflokk, sem hefur ekkert annað til saka unnið en það, að hann vill fá að eiga áfram sitt land og sína jörð, þeldökka bændur, sem vilja fá að búa áfram, eins og forfeður okkar fyrir þúsund árum, á jörðinni, sem þeir höfðu numið. Nú er ráðizt inn til þeirra frá Evrópu af brezkum herramönnum til þess að reka þá burt af jörðunum þeirra og til þess að drepa þá sjálfa á eftir.

Fyrir 50 árum sagði einn sá mesti maður, sem Ísland hefur átt, brezku yfirstéttinni sannleikann um hennar framferði með orðunum, sem allir þingmenn kannast við:

„Þín trú er sú að sölsa upp grund.

Þín siðmenning er sterlingspund.“

Og það er enn. Það er sama framkoman, sem ríkir í dag hjá brezku yfirstéttinni í Kenya eins og var í Búalandi fyrir 50 árum. En það hljómar ekki frá ríkisvaldi Íslands sams konar ádrepa, harðvítug ádeila á brezku kúgarana eins og það, sem Stephan G. Stephansson lét frá sér fara þá í „Transvaal“.

Og það er ekki aðeins í Afríku, sem hið svokallaða brezka lýðræðisríki beitir þessari kúgun. Sömu svívirðingarnar, sömu morðin eiga sér stað í Malaja, í einu af ríkustu löndum jarðarinnar, þar sem ein fátækasta þjóð heimsins býr, vegna þess að brezku ræningjarnir svipta hana öllum þeim auði, sem gæti orðið til þess að bæta kjör þeirrar þjóðar. Og ef til vill hefur brezka yfirstéttin aldrei sýnt okkur það eins greinilega, hvað hún meinar með öllu því lýðræðisblaðri, sem líka meiri hlutinn hér á Alþ. hvað eftir annað dirfist að bera á borð fyrir okkur, heldur en á síðasta ári í sambandi við framkomu hennar gagnvart brezka Guyana, gagnvart landi, sem búið var að veita stjórnarskrá, veita stjórnarskrá með sama hætti og okkur Íslendingum á sínum tíma var veitt stjórnarskrá 1874. Brezka ríkið hafði veitt þjóðinni í brezka Guyana sjálfstæði. Og þjóðin í brezka Guyana notaði þau réttindi, sem stjórnarskráin gaf, þau lýðræðisréttindi til þess að kjósa. Og hún kaus flokk, sem fékk meiri hluta á þingi og heitir á enskunni People's Progressive Party, sem mundi þýða: Alþýðu-framsóknarflokkurinn. Alþýðu-framsóknarflokkurinn fékk meiri hluta hjá þessari þjóð. Þessi þjóð samstóð að mestu leyti af bændum, og þessir bændur höfðu einn áhuga, og það var að eignast jörð, eins og bændur á Íslandi á 19. öld. En jarðirnar átti amerískur auðhringur, og það varð að taka dálítið af jörðum þessa auðhrings til þess að láta bændurna í brezka Guyana geta orðið sjálfseignarbændur. Sem sé það, sem Íslendingar voru að framkvæma á 19. öld, langaði alþýðuna, bændurna í þessum löndum, til þess að framkvæma núna á því herrans ári 1953. Og Alþýðu-framsóknarflokkurinn fékk hreinan meiri hluta á þingi í brezka Guyana, og hann tók að framkvæma þessa stefnuskrá. Og hvað var gert? Stjórnarskráin var afnumin, foringjar Alþýðu-framsóknarflokksins voru fangelsaðir, og brezkur landsstjóri var látinn halda einræði í landinu, sem hann hafði einu sinni haft. Og það heyrðist engin rödd frá Framsóknarflokknum á Íslandi, frá fulltrúum bændanna á Íslandi, til þess að mótmæla þessum svívirðingum. Það heyrðist engin rödd frá mönnunum, sem alltaf eru með lýðræðið á vörunum, þegar lýðræðið hjá einni smáþjóð var traðkað niður. Það heyrðist engin rödd frá þeim, sem segjast vera fulltrúar fyrir íslenzka sjálfseignarbændur, þegar var verið að drepa niður tilraun fátækra bænda til þess að mega verða sjálfseignarbændur og frjálsir. Aðferðin ein var næg til þess að sýna, hvað var meint með lýðræðisþvaðrinu hjá brezku yfirstéttinni. En þó þótti henni ekki nóg að staðfesta í veruleikanum hatur sitt á lýðræði, ást sína á einræðinu. Hún gerði það líka í yfirlýsingu, sem hún gaf út og var birt núna nýlega, þegar rannsóknarnefnd brezka þingsins skilaði skýrslu sinni um ástandið í brezka Guyana. Og hver var niðurstaða þeirrar skýrslu? Niðurstaðan var sú, að svo framarlega sem kosningar færu fram á ný í brezka Guyana, þá mundi Alþýðuframsóknarflokkurinn verða í hreinum meiri hluta, þá mundi verða haldið áfram af hálfu þess flokks að láta bændur verða sjálfseignarbændur, og þar sem slíkt kæmi auðvitað ekki til mála, þá dygði ekki að veita landinu stjórnarskrá að nýju. Þetta er lýðræðið í framkvæmd. Þetta er það ástand, sem verið er að reyna að innleiða í þeim hluta veraldarinnar, sem Atlantshafsbandalagið og þess ríki ráða yfir. Ég held, að það væri nær fyrir þann Framsóknarflokk og þann Alþýðuflokk hér á Íslandi, sem virðast ofur lítið vera farnir að byrja að óttast, að íhaldið hér á Íslandi ætli að taka sér Suður-Ameríku til fyrirmyndar, að fara að athuga, hvað þarna er að gerast, og láta ofur lítið heyra frá sér og þora að skýra frá því í sínum blöðum, hvað herrarnir, sem við höfum verið settir í „kompaní“ með, herrar Atlantshafsbandalagsins, meina með lýðræði. Það eru tekin af öll tvímæli, og það þarf ekki að skoða sem annað en hræsni, svo framarlega sem einhver, ekki sízt af fulltrúum Framsfl., kemur hér fram til þess að fara að telja okkur trú um, að það sé hlutverk Atlantshafsbandalagsins í veröldinni að vernda lýðræðið. (Gripið fram í: Það er friðurinn.) Það er rétt, nú er bezt að hopa að friðnum, — það er bezt að sleppa lýðræðinu.

Ég held þess vegna, að okkur Íslendingum sé alveg óhætt að dæma eftir forustuþjóðinni í lýðræðisbandalaginu, sem sé Bretunum og þeirra framkomu og þeirra kenningum, hvað meint sé. Það hefur auðsjáanlega ekki breytzt frá því fyrr á tímum. Við höfum ofur litla reynslu af þeim sjálfir, ekki aðeins það, að þeir hafi svikið öll loforð, sem þeir gáfu íslenzku þjóðinni, þegar þeir hertóku okkar land 1940, þannig að allt væri svikið, þannig, að Alþingi varð sjálft að mótmæla þeim svikum. Einnig sá samningur, sem Ísland gerði við Bretland með Atlantshafssamningnum, hefur verið svikinn. Ég veit ekki, hvort hv. þm. stjórnarflokkanna hafa nokkurn tíma haft fyrir því að lesa Atlantshafssamninginn. Ég býst ekki við, að þeir séu vanir að lesa þær samþykktir, sem eru lagðar fyrir þá, því síður að reyna að hugsa um þær samþykktir. Ég skal þess vegna lesa upp fyrir þá, hvernig 2. gr. Atlantshafssamningsins hljóðar:

„Aðilar munu stuðla að frekari þróun friðsamlegra og vinsamlegra milliríkjaviðskipta með því að styrkja frjálsar þjóðfélagsstofnanir sínar, með því að koma á auknum skilningi á meginreglum þeim, sem þær stofnanir eru reistar á, og með því að auka möguleika jafnvægis og velmegunar. Þeir munu gera sér far um að komast hjá árekstrum í efnahagslegum milliríkjavíðskiptum sínum og hvetja til efnahagssamvinnu sín á milli, hvort heldur er við einstaka samningsaðila eða alla.“

Þannig hljómar, með leyfi hæstv. forseta, 2. gr. í Atlantshafssamningnum, þessum bandalagssamningi Íslands og Bretlands m. a. Hvernig hafa Bretar staðið við þetta? Jú, löndunarbannið í Bretlandi er aðalframkvæmd brezku yfirstéttarinnar, brezku ríkisstjórnarinnar, á 2. gr. Atlantshafssamningsins, þannig að öll íslenzka þjóðin sem heild hefur hvað eftir annað mótmælt þessu framferði og lýst því yfir, að þetta væri svívirðing.

Við sáum á löndunarbanninu, hvers konar hræsni það var, sem bjó á bak við allan Atlantshafssamninginn, að það var ekkert annað en kröfur nokkurra stórvelda til að fá að traðka smáríki eins og Ísland undir fótum, til þess að fá að hagnýta það sem herstöð, til þess að fá að arðræna það sem hálfgerða nýlendu, og það var það, sem Bretarnir ætluðust til. Þeir ætluðust til þess, að við kæmum skríðandi til þeirra, knékrjúpandi, eins og þegar þeir settu Framsóknar- og Alþýðuflokksstjórninni 1934 stólinn fyrir dyrnar með lánsbanninu þá. Þeir ætluðust til þess, að við yrðum að beygja okkur og biðja þá um hjálp. Þeir ætluðust til þess, að við yrðum að selja landhelgina, til þess að Bretar afléttu löndunarbanninu. Hverjum var það að þakka, að við þurftum þess ekki? Okkur datt ekki í hug að gera það, og það hvarflaði ekki að okkur. Hverjum var það að þakka, að við erum ekki upp á Breta komnir í dag? Það er að þakka sósíalísku ríkjunum í heiminum, Sovétríkjunum og þeim ríkjum, sem hafa sýnt það, að þau vilja gera viðskiptasamninga við Ísland, að þau vilja starfa með Íslandi, að þau vilja tryggja möguleika Íslands sem annarra ríkja til fullra frjálssamlegra milliríkjaviðskipta, á sama tíma sem ríkin, sem Ísland stendur í bandalagi við, neita um slík viðskipti, og þetta eru ríkin, sem þeir menn, sem hafa haft forsvar fyrir Atlantshafsbandalagið, eins og frsm. þess 1949, Stefán Jóh. Stefánsson, lýsa yfir að Atlantshafsbandalaginu sé stefnt gegn. Því var lýst yfir beinlínis þá hér á Alþingi, að gegn kommúnismanum í heiminum, gegn sósíalismanum í heiminum og þeim ríkjum, þar sem hann hefur sigrað, væri Atlantshafsbandalaginu stefnt, og þá er það svona, að ríki, sem við höfum gengið í Atlantshafsbandalagið með, brjóta samningana á okkur, þau setja löndunarbann á okkur, þau níðast á okkur. En sósíalísku ríkin, sem lýst var yfir að Ísland ætlaði að fara að berjast við; það eru þau, sem segja: Við viljum almenn viðskipti í heiminum, aukningu á samvinnu þjóðanna á milli, til þess að auka gagnkvæmt þeirra velmegun og bæta þeirra hagsmuni. Ég held, að það væri tími til kominn, að eitthvað af þingmönnum stjórnarflokkanna færi eitthvað að hugsa í þessum efnum og léti ekki teygja sig eins blindandi og þeir hafa gert fram að þessu. Við höfum getað boðið brezku ræningjunum byrginn, m. a. vegna þess, að við höfum óbeint verið í bandalagi við þá aðila, sem okkur var sagt að við ættum að berjast gegn. Við höfum tekið upp viðskiptasamstarf við þá menn og þær þjóðir, sem okkur var sagt að við ættum einmitt að fara að stríða á móti.

Ég býst við, að dæmið um Bretland sem forusturíki lýðræðisins í þessum efnum mætti nægja. Ef menn héldu, að það væri einhver undantekning, líka á þessum síðustu fimm árum, þá skal ég aðeins minna hv. þm. á, hvernig franska yfirstéttin, hvernig Frakkland hefur þessi síðustu fimm ár, þangað til nú í sumar, staðið í alls sjö ára styrjöld til þess að reyna að halda niðri þjóðinni í Indó-Kína, sem var að berjast fyrir sínu frelsi, þar til franska yfirstéttin nú loks síðasta sumar gafst upp á því. Og ég vil minna á, að meira að segja smáríki eins og Holland, sem var voldugt nýlenduríki, var þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið stimplað af Sameinuðu þjóðunum sem árásaraðili, sem ríki, sem hafði ráðizt á önnur ríki. Svona var samsetningin á þessu bandalagi, sem reynt var að telja þjóðinni trú um að væri svo óttalega mikið varnarbandalag. Hins vegar er það vitanlegt, að voldugasta ríki Atlantshafsbandalagsins og það ríki, sem ræður mestu um, að nú er svo komið, að lögð er fyrir Alþingi Íslendinga till. um að taka Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið, er Bandaríkin.

Það er ef til vill ekki óþarfi fyrir okkur á því stigi, sem við stöndum nú, með vaxandi andúð íslenzku þjóðarinnar á Bandaríkjunum og hernámi þeirra á okkar eigin landi, að gera okkur ljóst, hve mikil, ör og ill þróun hefur orðið í Bandaríkjum Norður-Ameríku á þessum síðustu árum. Við skulum muna það úr síðustu styrjöld, að Bandaríkin stóðu þá vinstra megin við Bretland, að Bandaríkin og þeirra ágæti forseti, Roosevelt, stóðu á móti nýlendukúguninni, stóðu á móti því, að haldið væri áfram þeirri nýlendukúgun, sem Bretland þá gerði sig sekt um, að Roosevelt stóð með því, en Churchill á móti því, að reynt yrði að hafa eftir styrjöldina samstarf við sósíölsku ríkin í heiminum. Mönnum hættir við í dag, þegar McCarthy-isminn og annað slíkt setur brennimark sitt á Bandaríki Norður-Ameríku, að gleyma því oft, að einu sinni voru þessi ríki í broddi fylkingar í sókn mannkynsins fram á við, að einu sinni voru þessi ríki sjálf undirokuð nýlenda, sem áttu ágæta foringja í sinni frelsisbaráttu, einu sinni háðu þessi ríki róttæka styrjöld á máti yfirstétt þrælaeigenda til þess að brjóta þrælahaldið á bak aftur. Mönnum hættir við að gleyma þessu stundum, þegar svartnætti fasismans í dag er að byrja að grúfa yfir Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þess vegna er okkur nauðsynlegt að horfast í augu við, að hér á Íslandi þurfum við, sem þar að auki erum í návígi við ameríska auðvaldið og hervaldið, sérstaklega að gera okkur ljóst, hvað þarna er að gerast. Sú þróun, sem á sér stað í Bandaríkjunum sérstaklega hratt þessi síðustu fimm ár, er þróun til fasisma eða þróun til einræðis auðvaldsins. Þar vex ofstækið með hverju ári. Þar er hafinn trylltur vígbúnaður, sem er að áliti auðhringanna amerísku það eina, sem getur firrt þá hættunni af kreppu. Gróði amerísku auðhringanna er í dag eins og það væri styrjöld. Samsvarandi allri þessari þróun byrja svo hinar pólitísku kúgunarráðstafanir. Bann á kommúnistaflokki Bandaríkjanna er þegar að miklu leyti fram komið. Ofsókn allra frjálslyndra afla í Bandaríkjunum er nú þegar farin að setja brennimark fasisma á þessi ríki í augum allra frjálslyndra manna í veröldinni. Þekktustu listamenn heimsins, eins og Paul Robeson, fá ekki að koma út fyrir Bandaríkin; þau eru orðin fangabúðir, fangabúðir fyrir þeirra fremstu menn og beztu. Við skulum gera okkur ljóst, að þessi þróun í Bandaríkjunum á að áliti ráðamannanna þar að færast yfir á ríki eins og Vestur-Þýzkaland, enda byrjuð þar, og á ríki eins og Ísland og önnur slík.

Meðan þetta gerist inn á við, að fasisminn grípur þannig meira og meira um sig í Bandaríkjunum, hvað er þá að gerast út á við hjá þeim? Út á við hefur ameríska auðvaldið auðsjáanlega sett sér það mark að brjóta undir sig ýmist nýlendur gömlu stórveldanna í Evrópu, eins og Englands, Frakklands eða slíkra, eða gera ríki, sem áður voru sjálfstæð, að sínum nýlendum. Bandaríkin setja sér auðsjáanlega nú að verða voldugasta nýlenduríki veraldarinnar, en að skipuleggja sína nýlendukúgun með nokkuð öðrum hætti, ef hægt væri, heldur en Bretland, Frakkland og gömlu nýlenduríkin í Evrópu hafa gert. Og við höfum einmitt á þessu ári séð áþreifanlegasta dæmið um, hverja afstöðu Bandaríki Norður-Ameríku taka gagnvart lýðræði og þjóðfrelsi. Við höfum séð það um eitt smáríki í Ameríku, Guatemala, — ríki, þar sem var frjálslynd stjórn, ríki, þar sem fátækir bændur studdu ríkisstjórn, sem var að úthluta til þeirra jörðum. Hvað var gert viðvíkjandi Guatemala á þessu ári? Það var af hálfu Bandaríkja Norður-Ameríku skipulögð innrás í þetta land til þess að steypa stjórn þess af stóli. Og því var lýst yfir um leið, að Bandaríki Norður-Ameríku mundu ekki þola það, að það, sem þau kalla „kommúnistiskt ríki“, risi upp í Ameríku. Kommúnistískt var það kallað á sama hátt og Ólafur Thors eða Hermann Jónasson mundu vera kallaðir kommúnistar. Það var kallað kommúnismi, svo framarlega sem einn bóndi, eins og einhver bóndi í Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum, færi fram á það að mega eignast jörð og það væri skipt upp stóru jarðnæði, sem einn auðhringur ætti, á meðal svo og svo margra bænda. Því var lýst yfir, að ef ríkisstjórn í sjálfstæðu landi, sem setti lög um slíkt, dirfðist að gera það, þá væri rétt að ráðast á hana með vopnavaldi og steypa henni. Hvað þýddi þessi yfirlýsing, og hvað þýddi þessi staðreynd viðvíkjandi Guatemala? Hún þýddi það, að Bandaríki Norður-Ameríku lýstu því yfir, að þau þola ekki lýðræðið, þau þola ekki það, að þjóðirnar fái sjálfar að nota sinn kosningarrétt til þess að kjósa sér ríkisstjórn að sínu skapi og að sú ríkisstj. fái að framkvæma þá hluti, sem kjósendum hennar hefur komið saman um að fela henni. Það væri svipað og ef t. d. alþýðu-framsóknarríkisstjórn hér á Íslandi, eftir að Árnessýslan hefði verið orðin eign eins einasta amerísks landsdrottins, hefði tekið upp á því að skipta jörðunum í Árnessýslu upp á milli bændanna, sem yrkt hafa jörðina, eða slík alþýðu-framsóknarstjórn hefði tekið upp á því að þjóðnýta eitt fyrirtæki, sem amerískur aluminium-hringur hefði átt hér á Íslandi, auðvitað hvort tveggja gegn því að borga skaðabætur til þessara amerísku hringa.

Það, sem var að gerast í þessu landi, var, að það var verið að brjóta lýðræðið á bak aftur, án þess að lýðræðisflokkarnir hér á Íslandi hreyfðu mótmælum, án þess að stjórnin hér á Íslandi, sem kallar sig lýðræðisstjórn, segði eitt einasta orð, án þess að hún léti sinn fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum knýja fram, að þetta svívirðingarathæfi Bandaríkjastjórnar og auðhringa hennar væri stöðvað. Og ég vil minna þá hv. þm., sem muna það langt, á að muna 1936. Ég vil minna þá á, hvað þá var að gerast. Þá var eitt ríki í Evrópu, þar sem sósíaldemókratísk og svona framsóknarsinnuð bændastjórn hafði setzt að völdum á lýðræðislegan hátt og tók að taka nokkuð af jörðum aðalsins á Spáni til þess að skipta upp á milli landlausra bænda, og við munum, hvað var gert þá? Þá voru þó Framsfl. og Alþfl. enn þá þannig, að þeir stóðu á móti því, sem þar var að gerast, þó að íhaldið fyndi auðvitað blóðið renna til skyldunnar að standa með Franco. Það var alveg sama atriðið, sem var að gerast í Guatemala í ár, eins og það, sem gerðist á Spáni fyrir 18 árum. Það var sami harmleikurinn, sem var að endurtaka sig. Það var það, að eins og lýðræðið hafði sigrað á Spáni 1936 og var barið niður af herjum einræðisins, eins var verið að fara að í Guatemala.

Bandaríki Norður-Ameríku höfðu sama hlutverk með höndum í Guatemala í ár og Hitler og Mussolini 1936–38 gagnvart Spáni. Það var verið að myrða lýðræði hjá einni smáþjóð, sem hafði vonazt eftir því, að hún mætti sjálf fá að njóta ávaxtanna af auðnum í sínu landi.

Guatemala er nýtt dæmi og táknrænt. Og ég sé á öllu, að það hefur komið við Framsfl., þó að hann e. t. v. kinoki sér við opinberlega að viðurkenna það. Guatemala og aðfarirnar þar eru lærdómsrík dæmi fyrir Ísland í dag. Við höfum amerískan her hér á Íslandi. Við höfum yfirlýsingu frá Framsfl., frá flokki hæstv. utanrrh., um, að Sjálfstfl., íhaldið, stefni að því að ná eitt völdunum hér á Íslandi, skapa sér einræði hér á Íslandi, og muni ekki kinoka sér við að nota útlendan her til þess. Við höfum yfirlýsingu frá Framsfl., birta í málgagni hans, Tímanum, þar sem því er lýst yfir, að slíkur flokkur sé Sjálfstæðisflokkurinn, eins og hann kallar sig, og við höfum dæmin fyrir okkur frá þessu ári um, hvernig farið er að við að steypa lýðræðisstjórnum. Það er enn þá handhægara hér á Íslandi en það var í Guatemala. Þar var herinn að mestu leyti utan við landssteinana. Hérna er hann innan landssteinanna. Og Sjálfstfl., eftir að hann væri kominn í hreinan meiri hluta á Íslandi, eins og hann er að dreyma um, væri máske ekki í neinum vandræðum með að vitna í 4. gr. Atlantshafsbandalagsins, — ég veit ekki, hvort hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa nokkurn tíma haft fyrir því að lesa þá grein. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa hana upp. Hún er stutt:

„Aðilar munu hafa samráð sín á milli, hvenær sem einhver þeirra telur friðhelgi landsvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.“

Það liggur fyrir yfirlýsing frá Bandaríkjunum um, að þeir telji pólitísku sjálfstæði og öryggi ógnað, þegar einhvers konar framsóknaralþýðuflokksstjórnir taki völdin í löndum. Þá er handhægt eins og í Guatemala að beita her til þess að steypa þeim, 4. gr. í Atlantshafssamningnum þægileg til slíkrar notkunar. Reynslan, sem búið er að skapa í brezka Guyana og sérstaklega í Guatemala, gefur fyrirmyndirnar um þetta.

Þetta vildi ég aðeins minna á, ef einhver maður hér í þinginu ætlaði að fara að reyna að telja okkur trú um, að lýðræðinu í veröldinni væri að einhverju leyti hjálpað með því, að Bandaríkin og Bretland tækju okkur með í Atlantshafsbandalagið og héldu áfram þeirri pólitík, sem þau hafa rekið þar á undanförnum árum, og bættu svo Þýzkalandi við.

Nú er máske rétt fyrir okkur, þegar við sjáum sjálfir, hve lítið Bandaríkin meina með öllu sínu snakki um lýðræði, að gera okkur ljóst, hvað það sé þá í stórveldapólitík, sem Bandaríkin meina með því að óska nú eftir Vestur-Þýzkalandi inn í Atlantshafsbandalagið, og koma þannig að þeim raunhæfari hlutum í þessu sambandi. Hver var seinasti aðilinn, sem Bandaríkin gerðu bandalag við? Það var Spánn, Franco-Spánn. Bandaríkin eru, eins og þið vitið, nýbúin að gera samning við Franco Spán, — ég efast ekki um, að það sé til að vernda lýðræðið, — og Bandaríkin munu núna vera að hefja miklar heræfingar á Atlantshafi með Spáni. Samtímis hafa allar kröfur Francos gegn Bretum farið mjög vaxandi. Og Bandaríkin hafa greinilega lýst því yfir, að Spánn sé tryggasti bandamaður þeirra á meginlandi Evrópu. Bandaríkjunum er fullljóst, að England og Frakkland, Noregur og Danmörk, máske meira að segja Ísland, séu ótryggir bandamenn. En Spánn er öruggur bandamaður fyrir lýðræðið í veröldinni.

Hver er aðferð Bandaríkjanna í sambandi við það að fá Spán í bandalag með sér? Spánn er e. t. v. ekki þýðingarmestur fyrir Bandaríkin í því stríði, sem þau hefur oft langað til að koma af stað við sósíalistísku ríkin í heiminum, en Spánn er hins vegar þýðingarmikill sem ógn við Frakkland og England. Og við, sem munum Hitlerstímann, munum eftir bardagaaðferð Hitlers í þessu sambandi. Bardagaaðferð Hitlers var sú að vinna Spán, steypa lýðræðisstjórninni á Spáni, koma á einræðisstjórn á Spáni og fá þar með öruggan bandamann á Spáni á móti Frakklandi. Og Hitler rak þessa bardagaaðferð sína með slíkum klókindum, að honum tókst að fá ensku og frönsku stjórnina til að hjálpa sér við þetta, fá þær til þess að svíkja lýðræðið á Spáni, þegar það barðist upp á líf og dauða. Og Bandaríkjum Norður-Ameríku er að takast þetta sama í dag. Bandaríkjum Norður-Ameríku helzt það uppi að gera bandalag við Franco-Spán, gera bandalag við fasismann á Spáni, án þess að England og Frakkland hreyfi legg né lið, án þess að þau mótmæli einu orði, án þess að þau hafi nokkuð við það að athuga, að auðvitað sé Atlantshafsbandalagið ágætis lýðræðisbandalag eftir sem áður. Bandalagi Bandaríkjanna við Spán er beint ekki hvað sízt gegn Frakklandi og Englandi, ef þau tvö ríki skyldu fara að verða óþægari en þau eru nú. Og nú, eftir að Bandaríkin eru búin að fá Franco-Spán, búin að fá fasismann í opinbert bandalag við sig, á að taka næstöruggasta bandamann Bandaríkjanna á meginlandi Evrópu, hálffasistiskt Vestur-Þýzkaland. Með öðrum orðum: Bandaríkin eru smám saman að hirða allar leifarnar af fasisma Hitlers, Spán, Vestur-Þýzkaland, Japan. Það er verið að endurreisa Anti-Kominternbandalagið undir forustu Bandaríkjanna, sem sjálf með hverjum mánuði sem líður eru að verða meira og meira fasistisk.

Illt var að setja okkur Íslendinga inn í Atlantshafsbandalagið, bandalag nýlendukúgaranna í veröldinni. Enn verra er að bæta nú Vestur-Þýzkalandi, hálffasistisku Vestur-Þýzkalandi þarna inn í og fara þannig, auk þess sem fasistisku öflin vaxa í Ameríku, að gera Atlantshafsbandalagið mun fasistiskara en það var áður. Og við skulum nú athuga, hvað Bandaríkin ætla sér með því að taka á þennan hátt Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið.

Það er tvenns konar tilgangur með því: Í fyrsta lagi sá, sem alltaf hefur verið mjög opinber og alltaf er sá hættulegasti í sambandi við Atlantshafsbandalagið. Það er sá tilgangur að fá sem sé með Vestur-Þýzkalandi hæfilega hermannasveit, sem hægt sé að beita gegn sósíalistisku ríkjunum í því heimsstríði, sem Bandaríkin vilja reyna að hleypa af stað við þann þriðjung mannkynsins, sem nú þegar hefur komið á hjá sér sósialistisku skipulagi. Þetta höfum við rætt það oft, að ég ætla ekki að gera það frekar að umtalsefni. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að það, sem Bandaríkin og þeirra fasistar á Spáni og Vestur-Þýzkalandi stefna að með sinni pólitík, er hvað snertir baráttuna við sósíalistisku ríkin að undirbúa það að hleypa af heimsstyrjöld, og okkur hlýtur að vera ljóst, hver afleiðingin er af því. Þar er hins vegar við það voldugt afl að eiga, að það er ekki að vita, hvenær Bandaríkin og þessi ríki þora að leggja til slíkrar skelfingar.

En það er annað, sem er auðséð líka: Með því að fá nú Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið miða Bandaríkin auðsjáanlega að því að fá þannig aðila á meginlandi Evrópu, sem hægt sé að beita gegn Frakklandi og Englandi, og jafnvel fyrst og fremst gegn Frakklandi. Og af hverju? Af hverju hugsa Bandaríkin sér að geta notað Vestur-Þýzkaland sérstaklega á móti bandamönnum sínum í Vestur-Evrópu? Í fyrsta lagi af því, að auðmannastéttir Englands og Frakklands hafa sýnt sig nokkuð nízkar á það að gefa upp þær nýlendur, sem þær hafa í heiminum, eða að sleppa þeim forréttindum, eins og í sambandi við brezka heimsveldið, sem þau hafa tryggt sér í sambandi við sín efnahagsmál. Bandaríkin hafa alltaf verið að knýja á með að ná frá Englandi þeim nýlendum, sem það áður átti, ná tökum á þeim og ná þannig undir sig þeim auðlindum, sem brezka auðvaldið hafði sölsað undir sig víða um heim. Sömuleiðis er með það franska. Af eðlilegum ástæðum er enska og franska auðmannastéttin nokkuð nízk í þessu sambandi, og það er litlum efa bundið, að þýzka auðvaldið og rýtingur þýzka hervaldsins að baki Frökkum á að vera beitt vopn til þess að knýja Frakkland og England til þess að láta að vilja Bandaríkjanna í þessum efnum.

Þá er önnur ástæða til þess, að Bandaríkin sjá sér nauðsynlegt að fá Vestur-Þýzkaland til þess að geta beitt því gagnvart Englandi og Frakklandi. Þess hefur nokkuð orðið vart, að enska auðmannastéttin gerir sér ljóst, að nýtt heimsstríð mundi þýða algera tortímingu fyrir brezku þjóðina. Brezka auðmannastéttin virðist í ríkari mæli gera sér það ljóst, og það er meira en sagt verður um íslenzku auðmannastéttina. Þar af leiðandi er brezka auðmannastéttin og öll brezka þjóðin hrædd við nýtt heimsstríð, hrædd við nýtt atómstríð. Og þess vegna, eins og greinilega hefur komið fram í yfirlýsingum brezka utanrrh., Mr. Edens, hefur brezka stjórnin jafnvel afstýrt því, þegar Bandaríkin hafa verið komin á fremsta hlunn með að hleypa af stað nýrri heimsstyrjöld, eins og í sambandi við Indó-Kína. Bandaríkjastjórn þykir Bretastjórn vera of þung í taumi, hvað þessa hluti snertir, þykir hún ekki nógu talhlýðin. Þess vegna vill Bandaríkjastjórn fá sterkara vald en Frakkland og önnur slík á meginlandi Evrópu til þess að geta otað þeim út í þá hluti, sem brezka og franska stjórnin máske ekki fengjust út í, og til þess að geta hótað þeim með slíku. Með öðrum orðum: Það, sem brezka og franska stjórnin á ýmsan hátt, ekki sízt á síðasta ári, hafa beint eða óbeint gert að því að hjálpa til að koma í veg fyrir, að þá brytist út heimsstyrjöld, á að koma í veg fyrir að endurtaki sig. Bandaríkjastjórn vill koma í veg fyrir, að slík óhöpp eins og það, að heimsstríð verði hindrað, endurtaki sig, með því að fá nú Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið. Og í þriðja lagi: Vestur-þýzkur her er í augum Bandaríkjastjórnár, að undanteknum spánska hernum, og hann er lélegur, sá eini her á meginlandi Evrópu, sem hún gæti treyst. Það yrði ekki hægt fyrir Bandaríkjastjórn að treysta á lönd eins og Frakkland og Ítalíu í styrjöld, sem Bandaríkjastjórnin sigaði leppstjórnunum þar út í, vegna þess, hvernig alþýðan í þessum löndum er á móti auðvaldinu í þessum löndum og þó sérstaklega á móti Bandaríkjaauðvaldinu. En vestur-þýzkur her, skólaður með því móti að brjóta á bak aftur í Þýzkalandi allt frjálslyndi, alla róttækni, öll mannréttindi, er her, sem Bandaríkjastjórn gæti treyst á, og það er slíkur her, sem hún treystir þýzku herforingjunum til að skapa. Enn fremur: Bandaríkjastjórn er ekki viss um, hvers konar þróun kunni að verða á næstunni í Vestur-Evrópu. Það er engan veginn loku skotið fyrir, að í kosningum í Frakklandi, Ítalíu eða slíkum löndum verði vinstri flokkar í slíkum meiri hluta, að þeir myndi vinstri stjórnir, róttækari stjórnir en alþýðufylkingarstjórnin 1936 var, og svo framarlega sem slíkt gerðist, þá þykir mér ekki ólíklegt, að Bandaríkjastjórn þætti gott að vitna í 4. gr. Atlantshafsbandalagsins til þess að siga vestur-þýzkum her inn í Frakkland undir stjórn alþýðufylkingar.

Við skulum alveg gera okkur ljóst, hvað þarna er að gerast. Það er engum efa bundið, að Bandaríkjastjórn hefur alveg ákveðna hluti fyrir augum í því, sem hún er að knýja fram nú, einnig hér á Alþingi Íslendinga.

Með öðrum orðum: Með því að fá Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið ætlar Bandaríkjastjórn sér að tryggja endurvakinn nazisma, endurvakið hervald í Vestur-Þýzkalandi, sem hægt sé að nota, hvort heldur er til þess að hleypa af stað heimsstríði austur á bóginn eða til að beita kúgunarráðstöfunum gagnvart Frakklandi og öðrum Vestur-Evrópuríkjum, ef þau væru óþæg við Bandaríkin. Þetta er tilgangurinn, og þessi tilgangur kom ef til vill einna greinilegast í ljós, þegar Bandaríkin settu fram þá hótun, að svo framarlega sem Vestur-Þýzkaland yrði ekki tekið inn í Atlantshafsbandalagið, þá mundu Bandaríkin sjálf hervæða Vestur-Þýzkaland og gera samning við Vestur-Þýzkaland á sama hátt og það hefur gert við Spán.

Nú skulum við svo gera okkur ljóst, Íslendingar, þegar það líklega í eina skiptið kemur til okkar kasta að ráða því, hvort hálfnazistískt Þýzkaland verður endurhervætt eða ekki, hvað er að gerast í Vestur-Þýzkalandi.

Í Vestur-Þýzkalandi er búið að endurvekja gamla hervaldið. Eins og hv. 6. landsk. sýndi hér greinilega fram á áðan, m. a. með tilvitnunum í yfirlýsingar þýzka verkalýðssambandsins, er búið að endurvekja þýzka hervaldið, og það er verið að skapa gömlu nazistunum möguleika til þess að taka aftur að sér forustuna, og nú vil ég biðja hv. þm. um að muna: Hvað var Hitler? Hitler var framkvæmdastjóri fyrir hervaldið og auðvaldið þýzka. Hervaldið og auðvaldið þýzka lifir enn. Og hervaldið og auðvaldið þýzka eru nú að skapa sér nýja framkvæmdastjóra. Þeir eru auðsjáanlega meir og meir að taka meira að segja upp sama búninginn og Hitler. Það er sami þjóðarhrokinn, sem nú er aftur að ryðja sér ti1 rúms í Vestur-Þýzkalandi. Það er sama landvinningastefnan, sem núna reisir þar upp höfuðið aftur. Á stórum fundi í Vestur-Þýzkalandi hljómaði nú nýlega aftur orðið: „Gyðingasvín“, endurtekið í kór frá þeim mönnum, sem telja sig brautryðjendur fyrir lýðræðissinnað Þýzkaland. Gyðingaofsóknirnar eru þegar í undirbúningi, kommúnistaofsóknirnar eru þegar hafnar. Frv. ríkisstjórnarinnar um bann á kommúnistaflokknum liggur þegar fyrir þinginu. Stjórn Vestur-Þýzkalands hefur ekki haft fyrir því einu sinni að kveikja í ríkisþingshúsinu núna til þess að fá einhverja átyllu til slíks. Morgunblaðinu gefst ekki einu sinni tækifæri til að ásaka kommúnistaflokk Þýzkalands um að hafa kveikt í ríkisþingshúsinu á ný.

Það verður ef til vill sagt við okkur í þessum umræðum, ef hæstv. ríkisstj. treystir sér yfirleitt nokkurn tíma út í nokkrar umr. um þessi mál, að núna sé gerður samningur við Vestur-Þýzkaland, núna sé gerður samningur við herra Adenauer. Það hafa engir slíka sögu af samningsrofum eins og valdhafar þeir, sem nú drottna í Vestur-Þýzkalandi. Þýzka hervaldið og þýzka auðvaldið hefur allan þann tíma, sem okkar kynslóð hefur lifað, sýnt sig fyrst og fremst í því að svíkja hvern einasta samning, sem við það er gerður, og segja um leið og hver samningur upp úr samningssvikunum var gerður: Já, þetta voru nú seinustu svikin hjá mér.

Það er engum efa bundið, að jafnvel þótt í flokki Adenauers væru einhverjir menn, sem af heilum hug gerðu sér það í hugarlund, að þeir mundu hindra endurvakningu nazismans í Þýzkalandi, þá verða slíkir menn í minni hluta. Þróunin, sem á sér stað í Vestur-Þýzkalandi núna með degi hverjum, talar alveg sínu máli. Jafnvel þótt Mr. Adenauer sjálfur hefði í huga, að það væri ekki meiningin að endurvekja alveg nazismann, þá sér maður það á þróuninni í því ríki, að hún kemur til með að leiða til þess. Það eina, sem getur hindrað slíka þróun, er vaxandi vald verkalýðshreyfingarinnar, þýzka verkalýðsins í Vestur-Þýzkalandi, og nú er byrjað á því að berja vestur-þýzka verkalýðinn niður. Það er ekki af engu, að þýzku sósíaldemókratarnir, formaður þeirra Ollenhauer og það verkalýðssamband, sem þeir stjórna, senda út viðvörunarorðin til Vestur-Evrópu núna. Þeir þekkja það, hvað þýzki hernaðarandinn og þýzka hervaldið og þýzka auðvaldið þýðir. Krupp er orðinn jafnvoldugur og hann var áður, en hann hefur núna sterkari ameríska bandamenn en hann hafði 1939.

Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, að það væri náin samvinna milli Bretlands, Frakklands og Vestur-Þýzkalands um þennan samning og framkvæmd á honum. Má ég minna hæstv. utanrrh. á, að það var náin samvinna á milli brezku og frönsku ríkisstj. og Hitlersstjórnarinnar í Þýzkalandi um að gera Münchensamninginn 1938? Það var náin samvinna, og hvert leiddi sú samvinna? Hvað þýddi sú samvinna? Að meira að segja blindingjarnir í Vestur-Þýzkalandi hafa séð, að með Münchensamningnum voru þeir að gera tilraun til að grafa sjálfum sér gröfina, voru þeir að reka Hitler af stað. Og það er Münchensamningurinn, sem er að endurtaka sig með þessum samningi við Vestur-Þýzkaland núna. Það er verið að koma þýzka hervaldinu aftur á laggirnar, og það er verið að fá þýzka hervaldinu það atómvopn í hendurnar, sem það vantaði í síðasta stríði til þess að geta unnið það, og það er meiningin, að Ísland eigi að samþ. það. Það er meiningin, að það sé Ísland, sem eigi að leggja blessunina yfir það, þegar Ísland getur hindrað það, að þetta þýzka hervald verði nú látið fá atómvopnin, sem Hitler vantaði, þegar hann var að berjast. Ég veit, að Bandaríkjastjórn treystir því í dag, að Vestur-Þýzkaland snúi vopnum sínum til austurs, það muni ráðast á Austur-Þýzkaland, Tékkóslóvakíu, og önnur þau lönd, sem Hitler trampaði blóðugast undir fótunum áður. Ég veit, að Bandaríkjastjórn ætlast til þess. En ég vil vara ykkur við. Við höfum upplifað það einu sinni áður, að hervaldinu og auðvaldinu í Þýzkalandi þótti réttara, praktískara og handhægra að snúa fyrst vopnum sínum á móti Frakklandi og til Danmerkur, móti Noregi, og það getur orðið svo enn. Vestur-þýzka hervaldið og auðvaldið vill gjarnan ráðast á, þar sem garðurinn er lægstur. Ég vara ykkur við.

Þróunin á næstu árum getur leitt það yfir okkur, sem þið gerið ykkur ekki í hugarlund í dag, því að þið eruð aldrei vanir, meiri hlutinn hér á Alþingi, að hugsa einn einasta mánuð fram í tímann, þegar þið gerið ykkar samþykktir um þessi mál. Ég veit hins vegar, að Vestur-Þýzkaland og Bandaríkin gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja sér sterkari aðstöðu á Íslandi í dag en þeir hafa haft áður, og við sjáum þríhyrninginn, sem á að mynda. Við sjáum Spán, við sjáum Vestur-Þýzkaland, við sjáum Ísland. Það er góður þríhyrningur í kringum Frakkland og England fyrir fasistiskt hervald Ameríku, Spánar og Vestur-Þýzkalands á móti þeim ríkjum, sem þið talið mest um sem lýðræðisríki þessarar aldar. Athugið þið bara, hvað þið eruð að gera. Það er ekki til neins að koma á eftir og fara að segja við íslenzku þjóðina, að þið hafið verið blekktir. Það er ykkar verkefni að hugsa í dag og sjá fótum ykkar forráð. Það er of seint, eftir að búið er að gera Ísland að einu slíku virki, jafnvel í innbyrðis styrjöld kapitalisku ríkjanna í Vestur-Evrópu. Við skulum þess vegna ekki reyna að blekkja sjálfa okkur neitt um, hvernig það Vestur-Þýzkaland verður, sem rís upp með þeirri þróun, sem þar er nú, og með þeim áhrifum, sem Bandaríkin beita þar nú.

Hæstv. utanrrh. sagði, að með þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, væri verið að auka friðarhorfurnar í heiminum. Má ég minna hæstv. utanrrh. á, að Mr. Eden, utanríkisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í þinginu í sumar, að það hefði minnstu munað, að Bandaríkin gerðu styrjöldina í Indó-Kína að kjarnorkustyrjöld, og Bretland raunverulega hefði komið í veg fyrir það, sem hins vegar hefði þýtt, að þá hefði farið af stað heimsstyrjöld? Svona tæpt hefur friðurinn staðið hvað eftir annað, og nú á að taka Vestur-Þýzkaland inn í Atlantshafsbandalagið og fá þýzku herforingjunum atómvopn í hendur, að því er hæstv. utanrrh. segir til þess að auka friðarhorfurnar. Má ég minna hæstv. utanrrh. á, af því að við þekkjum báðir dálítið til Þýzkalands eftir 1918, hvað viðkvæðið var hjá þeim, sem sáu, hvert þá stefndi, og var það þó snemma séð á þeim árum, sem við vorum báðir í Þýzkalandi þá? Það var hafður að máltæki titill á einni bók eftir frægan þýzkan höfund, sem hljóðaði svo: Der Kaiser ging, die Generalen blieben (Keisarinn fór, hershöfðingjarnir voru kyrrir). Og það sýndi sig á endanum, 1933, að herforingjarnir með Hitler sem framkvæmdastjóra tóku þar völdin og steyptu heiminum út í skelfingar síðustu heimsstyrjaldar. 1945 gerðist það sama aftur: Hitler ging, und die Generalen blieben (Hitler fór, en hershöfðingjarnir voru eftir). Og það er búið að endurreisa þá í Vestur-Þýzkalandi. Það sama herforingjavald er komið upp aftur. Og það eruð þið, mínir herrar, meiri hlutinn á Alþingi, sem ætlið að fá þessum hershöfðingjum, sem tvisvar sinnum eru búnir að steypa Evrópu út í styrjöld á okkar kynslóð, atómvopnin í hendur. Sjálfir fara þessir herforingjar ekkert dult með, hvað þeir ætla sér. Þið þurfið ekki að afsaka ykkur með því, að þeir séu neitt að ljúga að ykkur. Þeir vita alveg, hvað þeir ætla að gera, enda tala þeir eins og stríðsbrjálaðir menn, og svo segir hæstv. utanrrh. við okkur: Þetta er allt undir öruggu eftirliti Englands og Frakklands. — Þegar Þýzkaland væri búið að koma aftur upp fjölda herdeilda með atómvopn í hönd, þá ættu þessar fjórar herdeildir Bretlands á meginlandinu að hafa eitthvað að segja, eins og það séu allir búnir að gleyma Dunkerque. Nei, við skulum alveg gera okkur ljóst, að hafi friðurinn verið í hættu í sambandi við styrjöldina í Indó-Kína, þá er verið að gera leik að því að stofna honum í hættu með því að vopna nú herforingjaklíkuna og endurreisa þýzka herinn.

Við skulum svo enn fremur gera okkur ljóst og hugsa það rækilega, að hervæðing Vestur-Þýzkalands er slík ögrun við sósíalistisku ríkin í Austur-Evrópu, að nálgast friðslit. Við skulum alveg gera okkur ljóst, að þau ríki og þær þjóðir Evrópu, sem þjáðust mest undir árás Hitlers, vita bezt, hvað endurreisn þýzka hervaldsins þýðir. Þess vegna gera þessi ríki og þessar þjóðir heiminum alveg ljóst nú,-hvað það þýðir, ef Vestur-Þýzkaland verður tekið inn í Atlantshafsbandalagið og verður hervætt á ný. Þjóðirnar í Austur-Evrópu, sem Hitler trampaði undir fótum, gera sér ljóst, að það dugi ekki að horfa aðgerðalaust á, að þýzka hervaldið verði endurreist og Þýzkaland vopnað að nýju. Ég vil, að menn geri sér ljóst, að styrjöldinni 1945 er formlega séð enn ekki lokið, — það er aðeins vopnahlé, sem gert hefur verið, — að enn sem komið er eru Sovétríkin í bandalagi við Frakkland og England um að ráða niðurlögum þýzka hervaldsins. Með samningum eins og í Yalta og Potsdam er slegið föstu, að þýzki „militarisminn“ skuli upprættur með öllu og England og Frakkland samningslega skuldbundin til þess að vinna að því með Sovétríkjunum að uppræta þýzka „militarismann“, þýzka hervaldið, með öllu, og að endurhervæðing Vestur-Þýzkalands þýðir þess vegna að koma hervaldinu þýzka aftur á fót, því hervaldi, sem öll styrjöldin 1939–45 var háð gegn. Við skulum gera okkur þetta ljóst, hvað sem hæstv. ríkisstj. vill gera með það.

Þá vil ég víkja að einni hlið þessa máls, sem ég býst annars ekki við að við ræðum sérstaklega mikið hérna. Það er sú hlið, sem snýr meira að þýzku þjóðinni og okkur Íslendingum. Við skulum alveg gera okkur það ljóst í sambandi við þennan samning, að með þessum samningi er Þýzkaland endanlega um a. m. k. marga áratugi klofið í tvennt. Þýzku þjóðinni er sundrað. Eftir að þýzku auðmannastéttinni og þýzku herforingjunum í Vestur-Þýzkalandi hafa verið fengin aftur vopnin í hendur, koma þeir til með að beita harðari og harðari ráðstöfunum gegn þýzku alþýðunni í Vestur-Þýzkalandi, koma til með að búa sig undir styrjöld austur á bóginn eða vestur á bóginn. En um friðsamlega sameiningu Austur- og Vestur-Þýzkalands verður auðsjáanlega ekki að ræða. Og við skulum alveg gera okkur ljóst, Íslendingar, hvort við viljum leggja okkar lóð í vogarskálina, þegar það er á okkar valdi og valdi okkar einna, við getum einir ráðið því, hvort þýzka þjóðin verður klofin á þennan hátt í tvennt, hvort við viljum vinna það níðingsverk á þýzku þjóðinni, á þýzku alþýðunni, að kljúfa hana þannig í tvo hluta.

Samþykkt þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, er sá argasti fjandskapur við þýzku þjóðina, sem nokkurn tíma hefur verið lagt til að fremja hér á Alþingi. Hann er tilræði gagnvart þjóðareiningu Þýzkalands, gagnvart einni menntuðustu og gáfuðustu þjóð í Evrópu, þjóð, sem er okkur skyld, og þjóð, sem við höfum oft átt margt sameiginlegt með. Hins vegar býst ég við, að það séu varla til meiri andstæður hvað allan þjóðararf og lífsafstöðu snertir innan germanska kynstofnsins heldur en yfirstéttin í Vestur-Þýzkalandi og við Íslendingar. Við Íslendingar höfum vanizt því frá upphafi vega að skoða alþýðuna sem þjóðina, að líta á lýðræðið, ef það orð væri ekki misnotað, sem ráð hins vinnandi fólks, völd alþýðunnar sjálfrar. Yfirstétt Vestur-Þýzkalands er auðmenn og junkarar, sem hafa meira að segja í sínu máli gefið yfirstétt Evrópu öll harðsvíruðustu orðin yfir yfirstétt, orðið „herrenvolk“, orðið „herrenmensch“. Allar hugmyndirnar, sem nazisminn mest breiddi sig út yfir, voru til hjá þýzka „aristokratíinu“ áður, — allt var þetta það, sem þýzka yfirstéttin, junkararnir og auðmennirnir þýzku öldum saman höfðu skapað og alið á sem hugmyndaheim herramannsins, sem drottnar yfir alþýðunni. Yfirstétt Vestur-Þýzkalands hefur í síðustu 1000 ár fyrst og fremst vanizt því að geta trampað á alþýðu Þýzkalands, trampað á henni pólitískt og andlega.

Við Íslendingar höfum aldrei eignazt þann hugmyndaheim, sem vestur-þýzka yfirstéttin er alin upp í. Það eru ekki til meiri andstæður innan germanska kynstofnsins en íslenzka þjóðin og vestur-þýzka yfirstéttin hvað þetta snertir. Og við sjáum, hvernig vestur-þýzka yfirstéttin nú er að byrja á því að banna verkalýðsflokkana í Þýzkalandi. Við Íslendingar höfum vanizt því frá upphafi vega að skoða friðinn sem eitt æðsta hnoss. Það hefur verið afstaða okkar þjóðar sem vinnandi þjóðar að líta á það sem gæfu að eiga frið og öðlast frið og fá að njóta friðar. Vestur-þýzka yfirstéttin hefur tignað stríð, hefur tignað hermennsku og tignar hana enn og reynir að ala þjóðina, sem hún drottnar yfir, upp í hermennsku-andanum.

Það eru ekki til meiri andstæður innan germanska kynstofnsins en íslenzk þjóð og vestur-þýzka yfirstéttin. Við Íslendingar höfum verið vanir því frá upphafi vega að líta á mennina sem jafnréttháa. Við höfum skoðað manngildið sem sjálfsagðan hlut. Og okkur hefur þótt sjálfsagt, að bóndinn og verkamaðurinn gætu sýnt fulla djörfung gagnvart höfðingjunum. Vestur-þýzka yfirstéttin hefur slíkan hroka til að bera, að í hvert skipti sem maður kemst í kynni við hann, þá ógnar manni sá hroki álíka mikið og manni blöskrar undirgefnin, sem hefur tekizt að skapa hjá hluta af þýzku alþýðunni gagnvart þessum hrokafullu drottnum. Það er engin tilviljun með orð eins og kadavergehorsam eða önnur slík orð, sem þýzkan ein leggur til. Mál þýzku yfirstéttarinnar hefur lagt til í Evrópu öll auvirðilegustu dæmin um undirgefni, um alla þá eiginleika, sem við Íslendingar hötum mest. Þýzka alþýðan hefur þar til nú, að hluti af henni hefur losnað undan kúguninni, aldrei megnað að gera byltingu, sem gæti bylt aðlinum og auðvaldinu í Þýzkalandi frá völdum. Borgaralega byltingin sjálf komst aldrei í gegn í Þýzkalandi. Og við búum að því enn þá, að þýzka yfirstéttin er þess vegna sú harðsvíraðasta og ófyrirleitnasta í Evrópu.

Við Íslendingar höfum verið vanir því að skoða menningu sem eitthvað, sem við tignuðum og vildum gera að okkar hlutskipti. En sá maðurinn, sem Morgunblaðið á sínum tíma dáðist mest að vegna dugnaðar hans í aðgerðunum gagnvart þýzku alþýðunni, Göring, sagði: „Þegar ég heyri menningu nefnda, þá gríp ég til skammbyssunnar.“ Menning vestur-þýzku yfirstéttarinnar, Beisen Buchenwald, Auswitsch, hefur sett slíkt brennimark á Evrópu á þessari öld, að það verður seint afmáð. Og nú á síðustu vikum er verið að tigna sömu stríðsglæpamennina sem stjórnuðu fangabúðunum. Það kveða við ópin í Þýzkalandi í dag, þegar einhverjir dirfast að tala á móti hervæðingu Þýzkalands: Þú ættir heima í fangabúðunum. Þú hefur sloppið frá gasofnunum.

Ég held, að meiri hlutinn hér á Alþ. hefði gott af því að líta inn í verksummerkin, sem sjást enn þá eftir þýzka hervaldið. Ég býst við, að jafnvel hv. þingmenn meiri hlutans, sem sjaldan virðast hugsa í þessum efnum, mundu þó komast við, ef þeir kæmu inn í stofurnar í Auswitsch, þar sem barnaskórnir ná upp að loftinu, hrúgurnar af þeim, skórnir af börnunum, sem voru teknir af þeim áður en þau voru brennd í gasofnunum. Ég býst við, að brosið færi af hv. þingmönnum, ef þeir sæju leifarnar af níðingsverkunum, sem nazistarnir hafa framkvæmt, og þeir hugsuðu sig kannske tvisvar sinnum um, hvort þeir ætluðu að sleppa þessum stríðsglæpamönnum lausum á Evrópu aftur.

Við Íslendingar höfum verið vanir því, að bændur vildu verða frjálsir sjálfseignarbændur á sínum eigin jörðum. Við höfum átt bágt með að skilja þá bændur Þýzkalands, sem hafa orðið að una öld eftir öld við kúgun þýzku junkaranna, það sama junkaravald, sem enn drottnar í Vestur-Þýzkalandi í dag. Við Íslendingar erum vanir því í dag að álíta stóriðjuna, sem hér er verið að reisa, sjálfsagða sem ríkiseign, en ekki einstakra auðhringa. Í Vestur-Þýzkalandi er öll stóriðjan í eign þeirra manna, sem voru dæmdir sem stríðsglæpamenn eftir síðasta stríð, í eign örfárra auðhringa, þeirra auðhringa, sem komu af stað og reru undir tveim síðustu heimsstyrjöldum.

Þýzki verkalýðurinn veit, hvað þetta þýðir og hvert þessi þýzka yfirstétt stefnir. Þess vegna mótmælir verkalýðurinn í Vestur-Þýzkalandi því, sem nú er verið að fremja.

Og að síðustu: Ef einhver skyldi halda því fram í dag, að þrátt fyrir alla sögu yfirstéttarinnar í Vestur-Þýzkalandi væri okkur óhætt að treysta hennar samningum í dag, þá vil ég minna þá hina sömu menn á, að þó að við Íslendingar álítum griðrof eitt það svívirðilegasta, sem til sé, þá er griðrof sú bardagaaðferð, sem vestur-þýzka yfirstéttin sérstaklega skarar fram úr í.

Ég held þess vegna, að það væri rétt fyrir meiri hlutann hér á Alþ., fyrir þingmenn stjórnarflokkanna í eitt skipti — þeir hafa aldrei gert það áður — að hugsa um, hvað þeir séu að gera, að reyna að afla sér einhverrar ofur lítillar þekkingar á því, sem er ætlast til að þeir leggi dóm sinn á, að ana ekki í algeru þekkingarleysi og blindni út í það, sem ríkisstj. segir þeim að gera.

Hæstv. utanrrh. sagði, að það væri óskipt almenningsálit í Vestur-Evrópulöndunum á bak við þennan samning. Það er ekki satt, eins og hv. 6. landsk. sýndi hér greinilega fram á áðan. Það má meira að segja fullyrða, að meiri hluti Brezka verkalýðsins er á móti hervæðingu Vestur-Þýzkalands. Í atkvæðagreiðslunni í Labour Party vissu menn hvað litlu munaði, — og af hverju tókst samt sem áður þeim, sem féllust á endurhervæðinguna, að fá meiri hluta? Af því að skriffinnarnir í nokkrum af brezku Verkalýðssamböndunum gátu notað atkvæði stórra verkalýðssambanda, þar sem samböndin voru sjálf á móti hervæðingunni, til þess að greiða atkv. með henni. Það er engum efa bundið, að meiri hluti brezka verkalýðsins er á móti hervæðingu Vestur-Þýskalands, að meiri hluti frönsku þjóðarinnar, eins og hv. 6. landsk. sagði réttilega, er á móti hervæðingu Vestur-Þýskalands. Því fer fjarri, að það sé öruggt, að þessi samningur verði fullgiltur. Til allrar hamingju er það ekki öruggt. Og það er engin ástæða fyrir Ísland til þess að ana út í foraðið á undan öðrum. Ef menn endilega vilja teyma Ísland út á þá glapstigu, sem hér er lagt til, þá er a. m. k. nóg að gera það á eftir.

Einu sinni ættu þó fulltrúar á Alþingi Íslendinga að geta sýnt þann manndóm að þora að taka sjálfstæða ákvörðun, að þora að hugsa eitt mál sjálfir, brjóta það til mergjar sjálfir, komast að niðurstöðu sjálfir og gera ekki bara það, sem þeim er sagt, og það, sem þeim er skipað, án þess að hafa hugmynd um, hvað þeir séu að gera. Einu sinni ætti Alþingi Íslendinga að þora að vera sá fulltrúi friðar í heiminum að segja nei við því, að þýzki nazisminn verði endurvakinn, að þýzka hervaldinu verði fengin atómvopn í hönd. Nú höfum við valdið, og það vald eigum við að nota. Við stærum okkur af því, sem okkar forfeður hafi getað gert á örlagaríkum stundum í okkar sögu. En getum við aldrei verið menn til þess að feta í fótspor þeirra sjálfir?