20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2602)

156. mál, samvinnunefnd

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd til þess að leiðrétta smávægilegan misskilning, sem fram kom í ræðu hv. þm. S-Þ. (KK). Hann taldi, að enda þótt tilgangur þeirra tveggja till., sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, hefði verið sá sami, þá hefði þó sá meginmunur verið á þeim till., að í till. okkar sjálfstæðismanna, sem samþykkt var fyrir 3 árum, hefði einungis verið gert ráð fyrir rannsókn á greiðslugetu atvinnuveganna í eitt skipti fyrir öll. Þetta er ekki rétt. Í till. stendur að vísu, að ríkisstj. skuli leita aðstoðar og samvinnu við samtök launþega og atvinnurekenda um framkvæmd rannsóknarinnar, sem skuli lokið fyrir 1. nóv.1953. Það, sem þessi grein tillögunnar á við, er fyrst og fremst það, að á þessum tíma, sem þarna er greindur, var gert ráð fyrir því, að rannsókn hefði verið framkvæmd og grundvöllur fundinn, sem síðan yrði byggt á í framtíðinni. Aðalrannsóknin, sem till. gerði ráð fyrir, átti sem sagt að hafa farið fram á tæpu ári. En síðan vakti það fyrir flm. sem einnig kemur greinilega fram í grg. till. og í framsöguræðum fyrir henni á þingi, að til þess var eindregið ætlazt af flm., að áframhaldandi rannsókn yrði framkvæmd á grundvelli þeirrar niðurstöðu, sem upprunalega rannsóknin hafði leitt til.

Mér er það alveg ljóst, og ég er alveg sammála hv. þm. S-Þ. (KK) um það, að það er tiltölulega lítið gagn að því að framkvæma slíka rannsókn í eitt skipti fyrir öll; tímarnir breytast og mennirnir með, aðstæðurnar í þjóðfélaginu, afrakstur atvinnutækjanna, tæknin o. s. frv. Allt þetta breytist, og það verður að taka nýja afstöðu með breyttum viðhorfum til þessara atriða.

Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram alveg greinilega, vegna þess að þessi ummæli féllu hjá hv. þm. S-Þ.

Ég vil ítreka það, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. 2. þm. Reykv., að fyrir okkur, sem tókum þetta mál fyrst upp hér á hv. Alþ., vakti það fyrst og fremst að tryggja samkomulag milli stétta, milli vinnuveitenda og launþega um réttláta skiptingu arðsins af atvinnutækjunum. Þetta er það grundvallaratriði, sem fyrir okkur vakti, og ég veit, að þó að okkur hv. 2. þm. Reykv. greini á um það, hvernig þjóðfélagið skuli rekið, hvort hér eigi að vera séreignarþjóðfélag eða sósíalistiskt þjóðfélag, þá greinir okkur trauðla á um það, að æskilegt sé, að stéttirnar — í þessu tilfelli atvinnurekendur og launþegar - geti komið sér saman um það, hvað sé réttlát skipting arðsins. (GJóh: Og þær geta það aldrei.) Þær geta það aldrei, segir hv. 4.landsk. þm. Ég álít að þessi ummæli byggist á of mikilli bölsýni. Við höfum horft á bæði okkar þjóðfélag og önnur þjóðfélög þroskast og þróunina skapa sífellt jafnari og betri lífskjör. Það, sem hefur verið að gerast, er þess vegna ekkert annað en það, að arðskiptingin í þjóðfélaginu hefur smám saman orðið réttlátari. Mannkynið í heild og fólkið í okkar þjóðfélagi hefur einnig verið að feta sig áfram að þessu takmarki, réttlátri skiptingu arðsins af starfi sínu, hvort sem það starfar að sköpun hans með hug eða hendi. Ég hef þá trú, alveg gagnstætt þeirri skoðun, sem fram kom í ummælum hv. 4. landsk., sem er sanngjarn og góðgjarn maður, að þetta sé engin skýjaborg. Og við megum umfram allt ekki líta á það sem nauðsyn, að stéttir þjóðfélagsins þurfi sífellt að slást um arðinn af eigin starfi, þær þurfi að berjast um það, kannske árlega, kannske annað hvert ár, kannske þriðja hvert ár, hversu hátt tímakaupið eigi að vera, hversu langt orlofið eigi að vera o. s. frv.

Ég álít, að við verðum að treysta því, að stéttirnar geti komið sér saman um þetta. Ég álít, að reynsla liðins tíma sanni það, að þróunin hafi verið að færa okkur nær og nær þessu takmarki. Og í þeirri trú styð ég þá tilraun, sem gerð er með þessari till., og leyfi mér að vænta af henni nokkurs árangurs til góðs, ekki fyrir neina einstaka stétt í okkar landi, heldur fyrir allar stéttir og til sköpunar vinnufriði og samvinnu milli stétta, sameiginlegra átaka til farsældar fyrir það fólk, sem byggir þetta land.