04.05.1955
Sameinað þing: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (2637)

98. mál, Geysir

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Þegar þessi till. var hér til síðari umr., var ég ekki viðstaddur, en þá var talað um till. af hv. form. fjvn., svo að ég þarf ekki að fara nánar út í þá hlið málsins, því að ég veit, að hann hefur skýrt till. eins og hún lá þá fyrir.

Mér hefur verið tjáð, að ýmsir hv. alþm. hafi fundið þessari till. það til foráttu, að n. hafi fellt úr það ákvæði, sem var í till. áður um það, að ríkissjóður ætti að bera kostnaðinn af þeim rannsóknum, sem þá var gert ráð fyrir í till., og talið varasamt að samþykkja hana af þeim ástæðum.

Ég skal gera nokkra grein fyrir því seinna, hvernig háttað er með fjárhagshlið þessa máls, og held, að það sé óhætt fyrir hv. alþm. að samþykkja till. af þeim ástæðum.

Geysir hefur um langan aldur verið eitt af merkustu náttúrufyrirbrigðum þessa lands og kannske alheimsins og er heimsfrægt fyrirbæri, sem á fáa líka eða engan. Hann hefur fram undir þetta gosið nokkuð reglulega, þó dálítið misjafnt á ýmsum árabilum, því að maður veit, að það hefur ýmislegt áhrif á hann, t. d. að jarðskjálftar hafa áhrif á hann í þá átt, að eftir jarðskjálftana 1896 gaus hann miklu örar og betur en áður. En nú í seinni tíð hefur borið á eins konar þreytu hjá Geysi, og hann hefur gosið sjaldnar og ekki eins vel og hann gerði áður, þrátt fyrir það að nú í seinni tíð hafi verið farið að láta í hann ýmis örvandi lyf til þess að reyna að pína hann til að gjósa betur, svo sem sápu og annað slíkt. En nú er svo komið, að það hefur orðið mjög oft erfitt að fá hann til þess að sýna tign sína og veldi, hann hefur stundum legið niðri um langan tíma, og gosin eru orðin miklu minni og ekki eins fögur og áður var. Till. miðar í þá átt að reyna að ráða bót á þessu, en hvort slíkt er hægt, skal ég ekki um segja.

Fyrir Geysi hefur lítið verið gert, svo að segja ekki neitt. Hann hefur lengst af verið í einkaeign og allt fram að 1930 fylgt með jörðinni Haukadal í Biskupstungum, hinu forna óðali Haukdæla, en 1930 eða þar um kring var Haukadalur seldur erlendum manni, sem þá keypti jörðina og Geysi með. Aðeins skömmu eftir það kaupir Sigurður Jónasson forstjóri Geysi og gefur hann íslenzka ríkinu, og síðan er Geysir ríkiseign og er búinn að vera það í rúm 20 ár. En sem betur fór, kom jörðin líka aftur til skila, því að sá erlendi maður, sem keypti hana, gaf hana seinna íslenzku skógræktinni, svo að nú er hið forna, fræga býli líka orðið eign Íslendinga aftur. En ekkert var gert þangað til 1950, að þá lét þáverandi forsrh. gera skipulagsuppdrátt af Geysi og næsta nágrenni, og auk þess fól hann Trausta Einarssyni prófessor að lagfæra afrennslisskálina á Geysi, og það hefur hvort tveggja verið gert. 1953 er svo skipuð n., svonefnd Geysisnefnd, 6 mönnum, sem eiga að sjá um og varðveita þennan góða og göfuga hver og stýra þar framkvæmdum, sem gerðar kunna að verða á hverasvæðinu. N. er skipuð 6 mönnum, og hún hefur unnið að þessum umbótum síðan við Geysi. Auk þess sem búið er að gera uppdrátt af landinu, er búið að girða það að mestu leyti. Það er búið að setja þar bílastæði, og er núna ráðið að leggja veg um svæðið frá gistihúsinu og upp að hitasvæðinu. Þetta hefur allt kostað peninga, og fé hefur verið veitt á fjárlögum núna undanfarandi 5 ár, síðan 1951, á hverju ári til þessara framkvæmda, sem gerðar hafa verið, og til þess hafa verið veittar s.l. 4 ár 212 þús. kr., og nú eru þar að auki á fjárlögum þessa árs 80 þús. kr. Geysisnefndin hefur eytt í ýmsar framkvæmdir þarna austur frá, bæði í það að girða landið, merkt ýmis hættusvæði, sem þar hafa verið á staðnum og hafa valdið oft áður slysum af brunahættu, og nú á n. í sjóði 69 þús. kr., minnir mig, eða rúmlega það, auk þeirrar upphæðar, sem nú er veitt á fjárlögum, sem er 80 þús. kr. N. hefur því nú til umráða 150 þús. kr. á þessu ári til sinnar starfrækslu.

Fjvn. átti um þetta tal við formann nefndarinnar, hr. Birgi Thorlacius, og taldi hann engin vandkvæði á því að taka við till. og láta athuga það, sem þar er farið fram á, eftir föngum, þó að ekki væri veitt til þess fé núna sérstaklega í till. Ég held því, að það sé óhætt fyrir hv. alþingismenn að samþ. hana eins og hún liggur fyrir og það komi ekki að sök, þótt það hafi verið fellt úr henni, að ríkissjóður ætti að kosta framkvæmdirnar, því að það verður gert annaðhvort af n. eða þá öðrum, ef eitthvað er hægt að gera í þessu efni, sem till. fer fram á.