27.10.1954
Sameinað þing: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í D-deild Alþingistíðinda. (2987)

206. mál, mæðiveiki

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Á Hólmavík gerðist fyrir fáum árum sá atburður, að mæðiveiki kom upp í fé þar skömmu eftir að fjárskipti höfðu farið fram á þeim slóðum. Þetta þóttu váleg tíðindi, sem vonlegt var, og drógu um skeið mjög úr vonum manna um það, að takast mætti að útrýma mæðiveiki með fjárskiptum. Ef ég man rétt, var öllu fé slátrað í þorpinu, og virtist hafa tekizt að hefta útbreiðslu veikinnar að því sinni. Varð nú hvergi vart mæðiveikieinkenna um hríð í þeim héruðum, þar sem fjárskipti höfðu farið fram. En á s.l. sumri fundust á bæ einum í Stafholtstungum í Borgarfirði, að talið var, einkenni byrjandi mæðiveiki. Og í lok septembermánaðar s.l. var frá því skýrt í blöðum og útvarpi, að á bænum Hólum í Hvammssveit í Dalasýslu hefði verið slátrað kind, sem virtist hafa öll einkenni þeirrar tegundar mæðiveiki, sem kölluð er þurramæði. Fáum dögum síðar bárust fregnir af því, að á tveimur öðrum bæjum í Dalasýslu hefðu fundizt kindur, sem veikar voru af mæðiveiki. Voru hinar sjúku kindur allar fjögurra vetra gamlar, en sjö ár munu hins vegar vera liðin síðan fjárskipti fóru fram á þessu svæði. Loks hefur nú alveg nýlega orðið vart mæðiveiki í kind á bænum Hlíð í Hjaltadal í Skagafirði.

Ekki þarf mörgum orðum að því að eyða, hve uggvænleg þessi tíðindi eru. Þau héruð, sem hér um ræðir, byggja flest afkomu sína að mjög verulegu leyti á sauðfjárrækt. Margir bændur munu enn í allmiklum skuldum vegna niðurskurðar og fjárskipta, en voru hins vegar á góðum vegi með að rétta við, hefði allt gengið áfallalaust. En nú virðist það blasa við fólki í þessum héruðum, að bústofn þess sé öðru sinni í hættu. Og bændur víðs vegar um land hljóta að óttast það, að mæðiveiki geti blossað þar upp, þótt mörg ár séu liðin frá fjárskiptum.

Þar eð ég veit, að fjöldi bænda bíður eftir svari við því, hvaða ráðstafanir nú verði gerðar til að freista þess að vinna bug á mæðiveikinni, hef ég leyft mér að beina til hæstv. ríkisstjórnar eftirtöldum spurningum:

1) Hve víða er talið, að mæðiveiki hafi komið upp að nýju eftir fjárskipti?

2) Hvaða ráðstafanir hyggjast ríkisstj. og sauðfjársjúkdómanefnd gera til að stemma stigu við veikinni?

Ég sé ekki þörf á að fara um fsp. fleiri orðum að svo stöddu, en vænti þess, að hæstv. landbrh. svari fsp. þessari.