10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (3012)

208. mál, launalög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er kunnugt, að ein stétt starfsmanna í þjónustu ríkis og ríkisstofnana, verkfræðingar, hefur lagt niður störf og gengið úr vistinni. Þetta er auðvitað afleiðing af því, að þeir telja launakjör sín samkv. launalögum vera orðin óviðunandi með öllu. Með öðru móti er ekki hægt að skýra þetta óvenjulega atvik, að heil stétt skuli hafa sagt upp störfum hjá ríkinu.

Nú er vitað, að þegar hafa skapazt mikil vandkvæði af þessu, en aðallega koma vandkvæðin af því í ljós, að verkfræðingarnir hafa lagt niður störf sín og farið til annarra starfa, á næsta ári. Það er alveg áreiðanlegt, að það verða mikil vandkvæði á því fyrir vitamálastjórnina að framkvæma verk við hafnargerðir, þegar hún hefur ekki haft sína verkfræðilegu þjónustu á þessu yfirstandandi ári. Sama er að segja hjá vegamálastjóra, og alveg sama sagan endurtekur sig hjá raforkumálastjóra, og er þarna sjálfsagt um tugi starfsmanna að ræða, sem hafa átt að annast tæknilegan undirbúning að mannvirkjum hjá ríkinu og ríkisstofnunum, sem einmitt ættu að koma til framkvæmda á næsta ári, en þá bitna á okkur afleiðingarnar af þessu ástandi.

Í sambandi við þetta mál, sem hér liggur nú fyrir, langar mig því til að spyrja hæstv. ríkisstj., úr því að ekki er von á launalögum frá henni á þessu þingi og allt situr þannig við það sama við þau óheyrilega lágu launakjör, sem starfsmenn ríkisins eiga nú við að búa, hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst að ná aftur verkfræðingunum í þjónustu sína, svo að afstýrt verði alvarlegum afleiðingum af því að vera verkfræðingalaus á þessu ári. Hvaða ráðstafanir eru undirbúnar af hæstv. ríkisstj. til bráðabirgða til þess að leysa þetta mál, eða hyggst ríkisstj. að komast af án verkfræðinga, þangað til ný launalög hafa verið sett einhvern tíma á næsta ári?