03.11.1954
Sameinað þing: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. Str. talaði hér nokkur orð áðan, nokkrar hugleiðingar, sumpart út af því, sem ég hef sagt, sumpart út af málinu almennt. Hann sagðist hafa ferðazt nokkuð út um land undanfarið, hefði þar bæði orðið var við kvartanir um atvinnuleysi og hins vegar líka, að því er mér skildist, nokkrar kvartanir um á sumum stöðum, að það vantaði vinnuafl.

Það er rétt, að á nokkrum stöðum úti á landi er atvinnuleysi, og tiltölulega víða sverfur það að, en það sverfur að vegna þess, að það er ekki hugsað um að byggja upp íslenzkt atvinnulíf á þessum stöðum. Það er ekki hugsað nægilega um að koma upp hraðfrystihúsum, að tryggja rekstur togara og fjölga togurunum þar. Það er talað um þetta, það eru bornar fram þáltill. um jafnvægi í byggð landsins, það er flutt jafnvel af öllum flokkum till. hér í þingi um kaup nýrra togara, en undanfarin ár hafa allar slíkar till. verið drepnar. Á sama tíma hefur ríkisstj. beinlínis haft það verk með höndum og falið sínum trúnaðarmönnum að taka fólk utan af landi og flytja það til Keflavíkurflugvallar. Það hefur m. ö. o. með aðgerðaleysi ríkisstj., með því að stöðva framfarirnar, sem byrjað var á fyrir 10 árum úti um land, verið skapað eymdarástand víða úti á landi, þannig að menn eru að flýja landsbyggðina. Hvað liggur næst að gera á þessum stöðum?

Það liggur næst að byggja þar upp, koma þar upp hraðfrystihúsum, að fjölga þar togurum, fjölga bátum og sjá til þess, að atvinnulífið — íslenzka atvinnulífið — á þessum stöðum blómgist. Ástandið á þessum stöðum er þess vegna ekki röksemd fyrir því, að það sé nauðsynlegt að hafa íslenzkt vinnuafl á Keflavíkurflugvelli.

Hvernig er svo hins vegar ástandið á þeim stöðum, þar sem mikið er að gera, eins og hér við Faxaflóa? Hv. þm. Str. reyndi ekki að hrekja það, sem ég hélt hér fram í gær, að hér skorti vinnuafl, ekki hundruð, heldur þúsundir manna, að hér vofði það yfir og hefur jafnvel verið svo undanfarið, að það hefur ekki verið hægt að reka t. d. hraðfrystihúsin á Suðurnesjum með vinnuafli af Suðurnesjunum, og öllum er kunnugt, hvernig hefur verið um bátana og marga togarana, að það hefur jafnvel orðið að taka útlendinga á þá. Þetta þýðir, að eigi að taka „fullt tillit“ til íslenzkra atvinnuvega, eins og stendur í yfirlýsingu ríkisstj. og þessum svokölluðu samningum, þá verður að stórminnka, ef ekki að taka svo að segja allt íslenzkt vinnuafl burt af Keflavíkurflugvelli. Hér hefur ekki fengizt nein yfirlýsing frá hálfu hæstv. ríkisstj. um, hvernig hún ætli að framkvæma þennan samning, en allir sjá nú sem stendur, að eigi íslenzkt atvinnulíf að halda áfram að blómgast og sérstaklega ef á að byggja upp atvinnulífið úti um land, þá þarf það á öllu sínu vinnuafli að halda. Ég tek eftir því, að hæstv. ríkisstj. og hennar málsvarsmenn hafa reynt að hliðra sér hjá því að ræða þetta mál, og það er eðlilegt, vegna þess að þetta er málið, sem annars vegar veldur mestum vandræðum hér syðra og mestum ótta úti um allt land hjá öllum þeim mönnum, sem vilja, að íslenzkt atvinnulíf úti um land geti blómgazt. Þeir horfa á eftir vinnuaflinu fara suður á Keflavíkurflugvöll í ónauðsynlega eða skaðlega vinnu þar og horfa jafnvel upp á, að ekki verði hægt að gera út báta á svo og svo mörgum stöðum úti á landi í vetur, ef svona verður látið halda áfram, en engin yfirlýsing kemur frá ríkisstj. um, hvernig hún ætli að framkvæma þetta og taka fullt tillit til íslenzkra atvinnuvega. Hún staðfestir bara, að það sé 2391 maður á Keflavíkurflugveili. En ætlar hún sér að láta helminginn af þeim eða 2/3 af þeim eða 3/4 af þeim fara burt á næstunni? Ekkert liggur fyrir.

Þá gaf hv. þm. Str. þá yfirlýsingu, að ríkisstj. hefði sett fram þá kröfu, að Íslendingar tækju að sér rekstur radarstöðvanna, Bandaríkin hefðu neitað. Bandaríkin höfðu notað þar sama yfirvarpið og í sambandi við ferðir hermanna hingað til Rvíkur, það séu hernaðarleyndarmál. M. ö. o.: Hvar sem Bandaríkin koma sér upp einhverjum stöðvum hér um land eða láta jafnvel einhverja hermenn sína vera að flækjast hér og þar hér um land, þarf hún ekki annað en að segja: Þetta er hernaðarleyndarmál — og þá á íslenzka ríkisstj. að beygja sig í duftið.

Ég held, að þau svör, sem fást í þessum efnum frá Bandaríkjastjórn, sýni það greinilega, að við hana er ekki til neins að tala um þessa hluti. Það eina, sem er við hana að segja, er: Þá verður þessum stöðvum lokað, og það verða engir menn þar. — Svona er ekki hægt að halda áfram. Það hefur varla, meira að segja frá sjónarmiði þeirra, sem hafa talið nauðsynlegt að setja upp þessar herstöðvar hér, verið til þess ætlazt frá upphafi, að Bandaríkin lýstu því yfir: Ja, þetta álít ég nú hernaðarleyndarmál, og þess vegna vil ég hafa mína hermenn hér að eilífu. — Ég held, að það hafi jafnvel ekki verið tilgangur þeirra, sem gengust fyrir því, að hernámssamningurinn var gerður, en hins vegar munn þeir reka sig á það og hafa þegar rekið sig á það, þegar þeir eru að reyna að semja við Bandaríkin um einhverja aðferð til þess að framkvæma þennan hernámssamning heldur skár fyrir Íslendinga, að það er ekki hægt við þau að semja. Bandaríkin ætla sér að sitja fast og standa fast á því valdi, á þeim ítökum, sem þau hafa fengið. Þau segja bara: Jú, radarstöðvar, það er hernaðarleyndarmál; þessa fjóra staði úti um land þarf ég. Ef ég þarf aðra fjóra í viðbót á næstunni, þá verða það líka herstöðvar. Og Íslendingar verða þá að beygja sig út frá þessu sama. Þetta er nauðsynlegt.

Hv. þm. Str. sagði út frá því, sem ég minntist hér á, að frá kosningunum í fyrra hefði verið bætt við fimm nýjum herstöðvum, þar af fjórum radarstöðvum, ef ég tók rétt eftir, að um þessar radarstöðvar hefði verið samið í þeim upphaflega samningi, þannig að það væri raunverulega bara spursmál um Njarðvík sem herstöð, hvort nokkuð hefði bætzt við. Má ég spyrja: Í hvaða upphaflegum samningi er samið um þessar radarstöðvar? Það, sem við höfum fyrir okkur, þingmenn, eru lög um lagagildi varnarsamnings, sem gerður var 5. maí 1931. Í þeim samningi er ekki nokkur skapaður hlutur um neinar radarstöðvar og var aldrei lýst yfir í sambandi við þann samning, þegar hann var löggiltur hér á Alþingi, um neinar radarstöðvar. Ég get a. m. k. ekki með bezta vilja munað það, og það er ósköp vel vitað af öllum þeim, sem um þessi mál hafa fjallað, að lengst af hefur í sambandi við þessi mál verið talað um þrjá staði, sem þeir sérstaklega höfðu hugsað sér að gera ítök í, þ. e. Keflavíkurflugvöll, Hvalfjörð og að einhverju leyti Skerjafjörð. Ég get ekki með bezta vilja munað eftir því, að nokkurn tíma hafi verið á það minnzt í sambandi við hernámssamninginn frá 1951, að þar hafi verið talað um radarstöðvar. Hvað meinar nú hv. þm. Str., þegar hann segir: „í upphaflegum samningi?“ Er til einhver annar samningur? Hefur verið gerður einhver annar samningur, einhver samningur, sem er hernaðarleyndarmál? Hefur verið gerður samningur 1951, sem Alþingi hefur aldrei fengið að vita af og er það mikið leyniplagg enn þá, eins og ferðirnar hingað til Reykjavíkur, að það megi enn þá ekki skýra frá honum, nema hv. þm. Str. hafi orðið á að ljóstra upp einu hernaðarleyndarmálinu til? Þetta þætti mér mjög vænt um að fá upplýsingar um og hvort maður megi þá skilja það þannig, að í þessum upphaflega leynisamningi hafi Njarðvíkurstöðin ekki verið, heldur sé þarna ný stöð til komin, en að radarstöðvarnar hafi verið þar í. Og það væri nú kannske ekki fjarri lagi að fá þá líka að vita, hvort það sé enn þá fleira í þessum upphaflega samningi. Ég held, ef ég hef ekki misskilið þetta, að þá þurfi hv. þm. Str. að gefa nokkru nánari upplýsingar um, hvað hann meinti.

Viðvíkjandi ferðunum til Reykjavíkur er sagt, að þær séu miklu færri en áður, og það er sagt, að hver hermaður fari ekki nema einu sinni til tvisvar sinnum hingað til Reykjavíkur, svo er sagt, að það sé ógurlegt hernaðarleyndarmál, hvað það séu margir menn á Keflavíkurflugvelli, og svo er tilkynnt um leið, að það sé að vísu sagt frá þessu í útvarpsumræðum, en það sé allt í lagi, þegar það sé ekki utanrrh., sem geri það. Það fer þá að verða heldur þægilegt að fá upplýsingarnar, ef þær eru óbeint staðfestar á þennan hátt frá manni, sem á að vita um hlutina, eins og hv. þm. Str., og raunverulega gert heldur lítið úr öllum þessum hernaðarleyndarmálum, eins og ég býst nú líka við að sé kannske rétt að gera.

Þá talaði hv. þm. Str. um Keflavíkurflugvöllinn, að hann væri bæði fyrir þrýstiloftsflugvélar og sprengjuflugvélar, og um hitann, sem skapaðist þar, er þrýstiloftsflugvélarnar væru að taka sig á loft. Hann komst svo að orði á eftir í sambandi við allan útbúnað vallarins, að það væri nú að vísu þarna meira um vörn að ræða. Alltaf er það nú heldur að minnka, sem staðhæft er í sambandi við þessa hluti. Ég hafði lýst því, hvernig þessi völlur væri hugsaður og gerður sem árásarflugvöllur, en hv. þm. Str. vill nú gjarnan láta líta svo út, að það sé meira um vörn en árás að ræða. En allt ber þetta að sama brunni. Mennirnir, sem fyrir tveim árum slógu hér í borðið og lýstu því yfir, að það kæmi aldrei nokkurn tíma til mála, að þetta væri nokkur skapaður hlutur annað en vörn, eingöngu varnarflugvöllur og allt bandalagið eingöngu varnarbandalag, eru nú auðsjáanlega sjálfir farnir að sjá, enda staðreyndirnar á Keflavíkurflugvelli þannig, að þeir geta sjálfir ekki lengur efazt um, að það sé árásarundirbúningur, sem þarna er framkvæmdur, þó að hitt sé sjálfsagt, að þegar menn ráðast á, þá þurfa þeir alltaf að vera við því búnir að verjast á eftir. En hvað sá árásarundirbúningur þýðir fyrir Íslendinga, og hvað af vörninni, sem á eftir árásinni kæmi, getur hlotizt fyrir Ísland, hliðra þeir sér hjá að minnast á af eðlilegum ástæðum.

Hins vegar ber því ekki að neita, að allur tónn, raunar bæði hjá hæstv. utanrrh. og hjá hv. þm. Str., í þessum umræðum hefur verið með allt öðrum blæ en vant hefur verið þegar þessi alvörumál hafa verið rædd hér á Alþ. undanfarið. Í fyrsta lagi ber að fagna því, að hæstv. utanrrh. hefur séð ástæðu til þess að gefa hér skýrslu fyrir Alþ. um þessi mál og stofna til umræðna um þau, og það ber að fagna því einnig, hvernig þessar umræður hafa farið fram. Og ég vil alveg sérstaklega taka undir það, sem hv. þm. Str. sagði, að það er nauðsynlegt, að við getum rætt þessi mál okkar á milli hér í þinginu, án þess að það sé farið út í venjuleg flokkahnotabit og alls konar ofstæki og vitleysu í því sambandi.

Mér sýnist bæði þær umr., sem hér hafa farið fram, og ekki sízt sú ræða, sem hv. þm. Str. hélt hér áðan, benda greinilega til þess, að innan stjórnarherbúðanna séu menn, fleiri og fleiri, að átta sig á því, að það þurfi að verða breyting á þessum málum hér á Íslandi. Og ég vil að vissu leyti undirstrika það, sem hv. þm. Str. kom inn á í niðurlagi sinnar ræðu, þó með nokkrum breyttum forsendum. Hann dró upp þá mynd, að það gæti létt af okkur Íslendingum þeirri byrði, þeirri hættu og þeirri vansæmd, sem hernámið er, ef vissar breytingar yrðu í Vestur-Evrópu. Ég veit nú ekki, hvort hann hefur gert sér alveg ljóst, hvaða breytingar það eru, sem vænlegastar eru til þess að valda slíkum létti byrðanna fyrir okkur hér á Íslandi. Ég held, að hans hugmyndir um, að hið núverandi svokallaða bandalag Vestur-Evrópu, sem var Brüssel-bandalagið, muni hjálpa mikið í þessu sambandi, muni reynast tálvonir. Brüssel-bandalagið eða Vestur-Evrópubandalagið mun að öllum líkindum ekki verða miklu langlífara en Evrópuherinn svokallaði varð, og jafnvel þó að það kæmist á með einhverjum breytingum frá því, sem nú er, þá er jafnvel efasamt, að það gæti nokkuð gott af því hlotizt. En það er aftur á móti annað, sem við skulum gera okkur ljóst að er að skapast í Vestur- og Mið-Evrópu: Annars vegar sú sterka hreyfing hjá þýzku þjóðinni, bæði í austur- og vesturhluta landsins, um sameiningu landsins, svo sterk, að á móti þeirri hreyfingu verður ekki staðið. Sá flokkur í Þýzkalandi, sem hatrammast stendur á móti þeirri sameiningu, flokkur Adenauers, stórtapar í hverjum einustu kosningum, sem fram fara þar. Það verður ekki til lengdar staðið á móti því, að þýzka þjóðin, næstfjölmennasta þjóðin á meginlandi Evrópu, sameinist, verði eitt ríki. En það er hins vegar um leið gefið, að það er óhugsandi, að Þýzkaland verði aftur eitt ríki, öðruvísi en að það ríki verði hlutlaust svæði í þeim átökum, sem talað er um á milli austurs og vesturs, enda engin þjóð í Evrópu betur til þess fallin, þegar hún væri búin að finna leið til þess að sameinast og hefði áhuga á því að dragast ekki inn í nein hernaðarbandalög og geta búið að sínum auðlindum og sinni tækni við friðsamlega framleiðslu án þess að þurfa að íþyngja sér með hernaðarframleiðslu. Og við skulum gera okkur ljóst, að sameinað Þýzkaland, hlutlaust í átökunum á milli austurs og vesturs, mun hafa við hlið sér England og Frakkland, sem reka sjálfstæðari pólitík en þau ríki hafa gert á undanförnum árum gagnvart Bandaríkjunum. Það blandast engum manni hugur um, sem fylgist með pólitíkinni í Evrópu, að í Frakklandi hefur orðið breyting hvað þetta snertir, breyting, sem utanrrh. Bandaríkjanna, herra Dulles sjálfur, hefur hvað greinilegast viðurkennt með fjandskap sínum við núverandi stjórn Frakklands, og hins vegar hvernig Bretland meira og meira stefnir að því að taka sjálfstæða forustu fyrir þeim Vestur-Evrópuríkjum, sem því vilja fylgja, án þess að fara eftir því, sem Bandaríkjastjórn vill. Við skulum gera okkur ljóst, að Vestur-Evrópa og Þýzkaland, sameinað sem hlutlaust land þarna á milli, þetta tvennt er það, sem kemur til með að skakka leikinn í þessum efnum. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Str., að okkur Íslendingum er að því stórhagur, að það skapist á þennan hátt í Vestur- og Mið-Evrópu ný afstaða hjá þessum þrem stóru þjóðum þar, Englendingum, Frökkum og Þjóðverjum, sem þýða ýmist, að stærsta þjóðin af þeim yrði hlutlaus í átökunum á milli austurs og vesturs, eins og þau eru kölluð, og hin taki upp mun sjálfstæðari pólitík en verið hefur gagnvart Bandaríkjunum, eins og þau hafa meira og meira verið að stefna að á undanförnum tveim árum. Þetta þýðir möguleika fyrir okkur Íslendinga að létta af okkur byrðunum. En þó að þessar forsendur skapist á þennan hátt, sem ég nú hef reynt að gera grein fyrir þeim, og þó að við séum ekki alveg sammála um, hvað til þess þurfi, að fullnægjandi forsendur skapist þarna, þá vil ég segja hv. þm. Str. eitt: Við Íslendingar erum ekki að fullu sloppnir, þó að ríki í Vestur- og Mið-Evrópu skapi þannig hlutlaust svæði eða skapi slíkt veldi á einn eða annan hátt á milli „Golíatanna“, eins og hann komst að orði, að við ættum ekki þess vegna vegna „hættunnar frá austri“, sem þeir hafa verið að tala um, að þurfa að hafa hér amerískan her lengur. Hann gengur í þessum sínum röksemdaleiðslum út frá því, að ástæðan til þess, að hernámssamningurinn var gerður og amerískar herstöðvar reistar á Íslandi, hafi verið hætta á árás austan að. En herstöðvarnar á Íslandi voru bara ekki skapaðar undir þessum forsendum, þó að bæði honum og öðrum hafi verið talin trú um, að þetta væru forsendurnar. Herstöðvarnar á Íslandi voru skapaðar út frá þeim forsendum, sem lágu til þess, að Ameríkanar heimtuðu hér þær herstöðvar 1945. Og mér er nær að halda, að þeir hafi kúgað Englendinga til að semja um það strax 1944, þegar Englendingar afhentu Bandaríkjamönnum herstöðvar í sinum eigin nýlendum í Vesturheimi til 99 ára, að Englendingar féllust á það, að þeir svo að segja hlutuðust til um, að það yrðu herstöðvar hér á Íslandi til 99 ára fyrir Bandaríkin.

Herstöðvarnar á Íslandi, sem Bandaríkin heimtuðu 1945 og þau eru að fá í gegn núna, eru herstöðvar, sem eru settar með einhliða tilliti til stórveldahagsmuna Bandaríkjanna, en ekki með tilliti til varnar Vestur-Evrópu og varnar Íslands. Þess vegna er sú hætta yfirvofandi, jafnvel þótt á einu eða annan hátt sú þróun verði í Vestur- og Mið-Evrópu, að herstöðvar hér fyrir Bandaríkin ættu að vera orðnar alveg ónauðsynlegar út frá sjónarmiði þeirra, sem héldu, að þær væru til varnar gegn árás frá austri, að Bandaríkin reyni að halda herstöðvunum hér á Íslandi áfram, og það er sú hætta, sem við verðum að horfast í augu við. Meira að segja ef Bretland og Frakkland lentu í því, sem er náttúrlega aldrei óhugsandi á milli stórvelda, að afstaðan á milli þeirra og Bandaríkjanna yrði ekki eins vinsamleg og nú, heldur jafnvel óvinsamleg, væri fyllilega sú hætta, að Bandaríkin út frá sínum stórveldishagsmunum, þó að engum manni dytti í hug lengur, að herstöðvar á Íslandi væru til varnar gegn árás, sem þeir segðu að vænta mætti frá austri, frá Sovétríkjunum, reyndu að halda hér herstöðvum vegna hugsanlegra árása þeirra sjálfra á Vestur-Evrópu eða stríðs við Vestur-Evrópu. Við skulum gera okkur ljóst, að stórveldi eins og Bandaríkin eru ekki aðeins að hugsa út frá deginum í dag, enda sýnir það það bezt, þegar þau gera kröfu til herstöðva til 99 ára. Þau eru að hugsa alllangt út í framtíðina, ekki aðeins út frá þeim pólitísku átökum, sem eiga sér stað á milli auðvaldsins í Bandaríkjunum og alþýðunnar í alþýðuríkjum heimsins, heldur líka út frá þeim hugsanlegu átökum, sem gætu átt sér stað á milli auðvaldsins í Bandaríkjunum og auðvaldsins í Bretlandi eða annars staðar í Vestur-Evrópu.

Afstaða Íslands og amerískar herstöðvar á Íslandi geta eins haft þýðingu fyrir Bandaríkin gagnvart Bretum. Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að jafnvel þó að svo færi, að slíkar forsendur sköpuðust í Vestur-Evrópu, hvort heldur það yrði nú með þeim hætti, sem hv. þm. Str. gerði sér vonir um, eða með þeim hætti, sem ég var að draga hér upp mynd af, þá yrðum við Íslendingar eftir sem áður að standa á því að losa okkur við amerísku herstöðvarnar hérna, þó að Bandaríkin vildu halda þeim áfram. Þetta skulum við fyllilega gera okkur ljóst.

Hitt þykir mér aftur á móti vænt um, að einmitt sú þróun, sem nú er að verða í Vestur-Evrópu, hvaða myndir sem hún kann nú að taka á sig á næstunni, er nú þegar að skapa forsendur fyrir því, að þeir menn hér á Íslandi, sem voru með hernáminu 1951, sjái nú, að það sé tími til kominn að létta því hernámi af, að segja þeim hernámssamningi upp, og það er það, sem verður eina lausnin á öllum þeim vandamálum, sem við höfum verið hérna að ræða um, hvernig sem við spjöllum um þetta, hvort sem við tökum hernaðarleyndarmálin sum alvarlega eða frekar í gamni, hvernig sem við ræðum um vandamál vinnuaflsins á Íslandi, hvernig sem við ræðum um allt það, sem yfir vofir, ef þessar herstöðvar yrðu einhvern tíma notaðar af hálfu Bandaríkjanna. Við komumst alltaf að þeirri niðurstöðu, að þessi hernámssamningur verður óþolandi og þess vegna sé um að gera að nota frá sjónarmiði þeirra, sem upprunalega féllust á samninginn, þá friðsamlegu þróun, eins og þeir kalla það, í alþjóðamálum, sem nú er, til þess að losa okkur við þennan samning, — og frá sjónarmiði okkar hinna. sem alltaf höfum álitið þennan samning ógæfu, að vinna að því að búa þjóðina undir að losa sig við hana, búa hana undir það andlega með því að gera henni nægilega ljóst, hver hætta og hver smán þessi samningur er og allt það ástand, sem af honum skapast, og búa hana undir það efnahagslega að vera aldrei oftar upp á það komin að þurfa svo að segja, eins og gert var fyrir tveimur árum úti um land, að segja við íslenzka menn, sem ekkert frekar mundu vilja gera en að byggja upp atvinnulífið í sínum kaupstöðum og sveitum, að þeir skuli bara fara suður á Keflavíkurflugvöll til þess að byggja þar fyrir ameríska dáta.

Eina lausnin, hvernig sem við veitum þessu máli fyrir okkur, verður þess vegna, undir hvaða forsendum sem við gerum það, að segja þessum samningi upp, hætta þessu hernámi og láta ameríska herinn fara burt.