25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir greinargóð svör. Við hans svör kemur í ljós, hvernig lítur út um fyrsta liðinn, sem hann gaf okkur upp og verður auðsjáanlega eitt aðalatriðið í skýrslu ríkisstj., og ég vil nú minna menn á, hvernig þessi fyrsti liður var.

Hann áætlaði, hver áhrif það hefði á ríkisbúskapinn, ef grunnkaup hækkaði um 7%. Það mundi þýða 12 millj. kr. á ári, og ef grunnkaup hækkaði um 26%, þá mundi það þýða 42 millj. kr. á ári, miðað við ríkisbúskapinn 1956. Ég spurði síðan: Miðast þetta eingöngu við kauphækkun hjá þeim verkamönnum, sem nú standa í deilum? Hæstv. forsrh. sagði: Nei, þetta miðast við að hækka laun til allra starfsmanna ríkisins um 7% eða um 26%. M. ö. o.: Þær tölur, sem hæstv. ríkisstj. gefur hér upp, standa alls ekki í neinu verulegu sambandi við sjálfa þá deilu, sem nú er háð, heldur við kostnaðinn af þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. álítur að hún muni leggja til að gera, svo framarlega sem lægst launuðu verkamennirnir fá einhvers staðar á milli 7% og 26% kauphækkun, og þetta náttúrlega setur málið á alveg nýjan grundvöll. Þá erum við ekki að ræða hér í dag um vinnudeiluna, sem hér stendur yfir núna, heldur erum við að ræða um þær ráðstafanir, sem við ætlum að gera til hækkunar á kaupi starfsmanna ríkisins á næsta ári. Og á meðan við hér á Alþ. erum að ákveða um hækkun til starfsmanna ríkisins á næsta ári, á að stöðva alla vertíðina við Faxaflóa, ef ríkisstj. fær að ráða því. Ég vil taka það fram, að það nær ekki nokkurri átt að setja þessi mál svona upp. Það verður ríkisstj. og stjórnarflokkar og stjórnarandstæðingar að gera upp við sig á sínum tíma, hvað þeir gera viðvíkjandi starfsmönnum ríkisins. En vandamálið, sem liggur fyrir að leysa í dag, er kauphækkun til þeirra verkamanna, sem nú standa í vinnudeilum. Og þá vil ég leyfa mér að skjóta hér fram útreikningi til þess að reyna að lagfæra þennan útreikning hjá hæstv. ríkisstj.

Ef um 7% grunnkaupshækkun væri að ræða, þá átti það að kosta 12 millj. kr. á ári. Hvað eru nú laun allra starfsmanna ríkisins? Ég veit það ekki nákvæmlega, en mér fróðari menn hér á þingi segja mér, að það muni vera nokkuð yfir 100 millj. kr. Hvað mikið yfir 100 millj. kr., get ég ekki sagt nákvæmlega. Það þýðir, að af þessum 12 millj. kr., sem ríkisstj. segir að það kosti ríkisbúskapinn á næsta ári að verða við 7% grunnkaupshækkun hjá verkamönnum, eiga a. m. k. 7 millj., en kannske 8 eða 9 millj. að fara til starfsmanna ríkisins með 7% grunnkaupshækkun til þeirra. Þessi áhrif á ríkisbúskapinn eru þá þannig, að það væru 3 millj., máske 4, það þori ég ekki að segja nákvæmlega, sem um væri að ræða með verkamenn. En það eru 7 eða 8 millj. eða kannske meira af þessu, sem eru laun starfsmanna ríkisins, 7% grunnkaupshækkun til þeirra. Ég vil vekja athygli á því, að ríkisstj. reiknar þetta þarna inn í þeirri skýrslu, sem hún leggur hér fyrir.

Ég vil enn fremur taka annað fram. Það er verið að segja okkur, að 12 millj. kr., ef um 7% grunnkaupshækkun væri að ræða, væri allt of mikið fyrir ríkisbúskapinn á ári, þegar verið er að tala um vinnudeilur hjá verkamönnum. En fyrir nýár vorum við að samþykkja hér á Alþ. að úthluta 12 millj. kr. bara til starfsmanna ríkisins og það eftir tillögu ríkisstj. og þá var aldrei minnzt á, að 12 millj. kr. væru mikið fyrir ríkið. Það kom ekki eitt orð, ekki einu sinni frá fjmrh., að 12 millj. kr. væru mikið fyrir ríkið. En í dag á það að vera mikið fyrir ríkið að borga 12 millj. kr. á ári í sambandi við vinnudeilur. Og þegar farið er að kryfja þetta til mergjar, þá sýnir sig, að það væru svona 3–4 millj., sem um er að ræða til verkamanna, en 7–8 millj. kr. eða meira til starfsmanna ríkisins í viðbót við 12 millj. kr., sem við vorum að úthluta fyrir nýár. Þá ógnaði engum að úthluta 12 millj. kr. til starfsmanna ríkisins. — Ef við reiknuðum hins vegar með 26% grunnkaupshækkun, sem hæstv. forsrh. sagði að mundi kosta ríkissjóð 42 millj. kr., þá er auðséð, að af þessum 42 millj. kr. færu yfir 30 millj. kr. til starfsmanna ríkisins. Hvað á að þýða að vera að leggja þetta svona fyrir okkur? Það er ekki þarna um að ræða þá vinnudeilu, sem núna stendur yfir. Það er ekki um það að ræða, hvort verkamennirnir, sem framleiða allan þann fisk og vinna alla þá vinnu, þar sem allir embættismennirnir fá greidd sín laun með peningunum, sem þeir skapa, og verðmætunum, sem þeir skapa, eigi að fá að vinna og fá sómasamlegt kaup. Það er um það að ræða, hvort Alþ. ætli eftir á, þegar verkamenn séu búnir að fá grunnkaupshækkun, að láta ganga til allra starfsmanna ríkisins samsvarandi. Þetta eru tvö ólík mál, og þetta eru mál, sem verður að taka fyrir á tvennan ólíkan hátt.

Svo er annað í þessu, sem ég vil benda á. Hæstv. ríkisstj. hafði fyrir nýárið, þegar hún var að láta 12 millj. kr. til embættismannanna, þann undarlega hátt á, að hún lét hæst launuðu embættismennina, sem höfðu 60–70 þús. kr. í árslaun, fá 6–7 þús. kr. til viðbótar, en hún lét lægst launuðu starfsmenn ríkisins, sem höfðu eins og láglaunamenn, jafnvel undir Dagsbrúnarkaupi, fá 500–600 kr. á ári. Ég lagði til að breyta þessu þá, en það fékkst ekki gert. Þess vegna álít ég þetta rangt, og þetta eigum við að taka fyrir á sínum tíma. Við eigum ekki að taka þetta fyrir núna; við eigum bara að taka verkamannakaupið núna. Það er það eina, sem við eigum að gera. Við getum deilt um það á sínum tíma, hvernig við eigum að hafa það viðvíkjandi starfsmönnum ríkisins, eftir hvaða reglum við ætlum að úthluta til þeirra, hvort við ætlum að láta þá lægst launuðu fá uppbætur, hvort við ætlum að minnka við þá hæst launuðu eða annað slíkt; það verðum við að deila um á sínum tíma. En þessa deilu eigum við að leysa út af fyrir sig.

Að öðru leyti hef ég ekki miklar athugasemdir við þetta að gera. Það er eðlilegt, að tryggingarnar hækki. Um verðlagseftirlitið eru skiptar skoðanir, eins og vant er.

Út af því, sem kom hér fram hjá hv. 8. landsk. (BergS), vil ég aðeins minna á, að allar verðlækkunaraðgerðir eru algerlega í höndum stjórnarvaldanna. Verkamenn hafa ekki að öðrum að ganga en atvinnurekendum í sínum kröfum, og verkamönnum er meira að segja í vinnulöggjöfinni bannað að gera kröfur, sem þýða það að knýja löggjafarþingið t. d. til aðgerða eins og verðlækkana.

Ég ætla ekki hér að fara að della um það, hvort „praktiskt“ sé að gefa eftir tolla, svo sem til raforkuframkvæmda. Það mundi þýða að mínu áliti, ef þeir væru gefnir eftir, að létta þó nokkuð á þeim byrðum, sem velta smám saman yfir á þessar raforkuframkvæmdir, en það er sérstakt mál.

Aðalatriðið, sem ég álit að við ættum nú að reyna að koma okkur saman um, er að leysa þessa deilu án þess að tengja annað við hana, semja við þá verkamenn, sem nú eru í deilu, við þá verkamenn, sem standa í því að framleiða á dýrmætasta tímanum fyrir Ísland allt það verðmæti, sem við byggjum okkar þjóðarbúskap og okkar ríkisbúskap á.