31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (3249)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Mín athugasemd getur vissulega verið stutt. Ég get tekið undir það með öðrum hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað á undan, að það var vissulega um nokkra sérstöðu að ræða hvað viðvíkur þessum atvinnurekanda, Loftleiðum, og að sjálfsögðu ber að taka ákveðið tillit til þess. Hins vegar vildi ég skýra örlítið nánar það, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) benti á hér áðan.

Eins og málum er komið, hafa Flugvirkjafélagið og Félag íslenzkra atvinnuflugmanna kosið sína 2 mennina hvort til þess að ræða þessi mál ásamt 2 fulltrúum frá samninganefnd verkalýðsfélaganna og fulltrúa frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Hins vegar mun vera á misskilningi byggð sú ályktun hæstv. flugmrh. hér áðan, að félagsfundir flugvirkja og flugmanna hafi áður samþykkt fyrir sitt leyti að veita þessa undanþágu. Það mun hafa verið látið í það skína af fulltrúum þeim, sem hann sat fundi með á sínum tíma, að til þessara hluta gæti komið, en þó með því skilyrði, að alþýðusamtökin og þau verkalýðsfélög önnur, sem bundizt hefði verið samtökum við, veittu leyfi til þess. Þann sama dag sem hæstv. flugmrh. átti áður nefndan fund með delluaðilum, var haldinn fundur í samninganefnd verkalýðsfélaganna, þar sem þessi mál voru tekin fyrir og ákveðið að standa við fyrri afstöðu um að bjóða Loftleiðum upp á sömu býti og öðrum vinnuveitendum í landinu, sem þegar höfðu samið og gert samninga við verkalýðsfélögin um fullar kröfur þeirra. Samninganefnd verkalýðsfélaganna sá sér ekki annað fært, eins og málin stóðu þá, nema reynt væri, hvað ríkisstj. hefði til málanna að leggja og hvað hún vildi til vinna, að málið leystist, að hún gengi af sinni hálfu til móts við verkalýðsfélögin í þessu mikla vandamáli, sem enga greinir á um að leysa þurfi. En hún vildi fá að vita jafnframt, hverjar væru fórnir af hálfu atvinnurekenda og þá sér í lagi ríkisstj., sem hafði í þessu tilfeili mjög góða aðstöðu til þess að beita áhrifum sinum í þá átt. Af eðlilegum ástæðum bera forráðamenn Loftleiða nokkurn kvíðboga fyrir því, að ef samið yrði upp á fullar kröfur verkalýðsfélaganna, mundu olíuhringarnir og Vinnuveitendasambandið beita sínum áhrifum til þess, að stöðvunin væri í gildi eftir sem áður, þ. e. a. s. með verkbanni. Og á þetta benti hv. 2. þm. Reykv. mjög skilmerkilega hér áðan, og ég er þess fullviss eftir þær viðræður, sem fram hafa farið í samninganefnd verkalýðsfélaganna við þessa deiluaðila, að það stendur ekki á því, að samningar verði gerðir, heldur hvað þessir samningar mundu fela í sér. Þau atriði, sem samningarnir fælu í sér, væru e. t. v. þau atriði, sem Vinnuveitendasambandið mundi gera athugasemdir við, en ekki sérstaklega samningana sjálfa. Að samningar væru sérstaklega gerðir, mundi Vinnuveitendasambandið ekki geta sett sig upp á móti. En það mundi áreiðanlega setja sig upp á móti ákveðnum hlutum, sem þar yrðu, eins og t. d. að gengið væri að fullum kröfum verkalýðsfélaganna. Og Vinnuveitendasambandið mundi í krafti sinna samtaka á þeim forsendum banna olíufélögunum að afgreiða nauðsynlegt benzín til Loftleiða.

Þessi fundur, sem ég minntist á að ætti að halda í dag með delluaðilum ásamt fulltrúum úr samninganefnd verkalýðsfélaganna og tveim fulltrúum frá vinnuveitendum, mun nú vera að hefjast, og er það áreiðanlega sameiginleg ósk okkar allra, sem þar verðum, að viðunanleg lausn geti fengizt í þessum málum. Ég vil þó ítreka það, sem hefur komið fram hér í umræðunum á undan, að vel er þess vert, að stutt sé á þjóðhollustu og þegnskap annarra aðila í þessari deilu en einungis verkalýðsfélaganna.

Og ég held, að enginn sá maður, sem vill raunhæft hugsa um þessi mál, hvernig þau hafi borið að til þessa, geti ásakað verkalýðssamtökin um, að þau hafi ekki sýnt fullan þegnskap í þeirri deilu, það sem af henni er. Ég vil því eindregið mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún reyni að beita áhrifum sinum til vinnuveitendasamtakanna á þann hátt, að samningar mættu takast og Loftleiðir gætu á ný hafið starfsemi sína, sem við erum allir sammála um að sé mjög nauðsynlegt og félaginu lífsskilyrði.