16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

1. mál, fjárlög 1955

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við frv. til fjárlaga fyrir næsta ár.

1. brtt. mín er á þskj. 297,XVI, við 16. gr., til sjóvarnargarðs í Ólafsvík, 200 þús. kr.; til vara 100 þús. kr.

Á síðastliðnu þingi skrifaði ég hv. fjvn. bréf fyrir hönd hreppsnefndar Ólafsvíkurhrepps og mæltist eindregið til þess að fá nokkurt framlag til byggingar sjóvarnargarðs í Ólafsvík. Hv. fjvn, taldi sig ekki þá geta sinnt þessu máli, sökum þess að það lægi ekki áætlun fyrir frá vitamálaskrifstofunni, sem gert var ráð fyrir að mundi annast undirbúning, áður en framkvæmdir yrðu hafnar.

Nú í sumar skrifaði hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps til vitamálaskrifstofunnar og óskaði eftir, að þessi áætlun yrði gerð, og lagði mjög fast að skrifstofunni, að þetta yrði gert, áður en þing kæmi saman. Því miður fékk hreppsnefndin það svar frá skrifstofunni, að hún sæi sér ekki fært að verða við þeirri ósk, sökum þess að allir eða flestir verkfræðingar hennar væru komnir úr þjónustu skrifstofunnar og hún hefði þess vegna ekki mann til þess að senda vestur til að annast þetta undirbúningsstarf.

Það verður tæplega hægt að slá þessu verki lengur á frest, og þó að hv. fjvn. hafi ekki getað orðið við ósk minni, þá trúi ég því ekki, fyrr en á reynir, að hv. alþm. muni ekki vilja ljá liðsinni sitt til þess, að hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps verði veitt fjárhæð nú á fjárlögum til að geta hafið starfið á næsta ári. Þetta mikilvæga starf verður að sjálfsögðu ekki unnið, nema áður komi til áætlun frá vitamálaskrifstofunni um það, hvernig verkið skuli unnið, en það er mjög aðkallandi vegna þeirra stóru skemmda, sem eru þegar orðnar á landi Ólafsvíkurhrepps og aukast með hverju ári. Verður það þeim mun tilfinnanlegra fyrir þetta bæjarfélag, þar sem það er mjög landlitið, eins og allir vita, sem eitthvað þekkja til legu þorpsins.

Ég treysti því þess vegna, að hv. alþm. ljái lið sitt til þess, að þessi till. verði samþ.

Í öðru lagi hef ég flutt brtt. á þskj. 305 við 13. gr. Það er nýr liður, brúargerð á Mjósund í Helgafellssveit, 300 þús. kr.

Ég skrifaði hv. fjvn. með ósk um það, að þessi fjárveiting yrði tekin upp í fjárl. og það sérstaklega sökum þess, að ekkert brúarfé er veitt í mitt kjördæmi að þessu sinni. En fjvn. tjáði sig ekki geta orðið við þessari ósk.

Í sambandi við væntanlega brú á Mjósund er um að ræða töluvert kostnaðarsamt verk. Það má gera ráð fyrir, að þessi brú komi til að kosta 6–8 hundruð þús. kr., og þar sem gert er ráð fyrir, að vegurinn að Mjósundum verði fulllagður eftir tvö ár, er mjög nauðsynlegt, að nú þegar verði byrjað að leggja fé til brúarinnar, þannig að hægt sé að hefja brúarsmíðina um líkt leyti sem vegurinn verður kominn að Mjósundum.

Ég vænti góðra undirtekta hv. alþm. um að ljá þessari till. minni jáyrði sitt.

Í þriðja lagi er ég með till. við 15. gr., lið XXX,12. Það er til lúðrasveitar Stykkishólms til kaupa á hljóðfærum, að fyrir 5 þús. kr. komi 8 þús. kr.

Hv. fjvn. hefur verið óvenjulega rífleg í sambandi við fjárframlög til lúðrasveita. Hún gerir tillögur um að bæta þremur lúðrasveitum inn á fjárlfrv. og að framlag til þeirra verði ákveðið 8 þús. kr. Sama gildi einnig um tvær lúðrasveitir, sem framlag fengu á fjárlögum yfirstandandi árs, 5 þús. kr. hvor, að þeim verði einnig veittar 8 þús. kr. á fjárl. næsta árs. Hv. fjvn. lætur því lúðrasveit Stykkishólms eina sitja eftir með 5 þús. kr. Mér finnst ekki hægt að una þessu, sérstaklega þegar fullyrða má, að lúðrasveit Stykkishólms er talin ein með betri lúðrasveitum hérlendis, og vil því eindregið mælast til þess, að hún fái sama framlag og hinar fimm lúðrasveitirnar, eða fjárveitingunni breytt úr 5 þús. kr. í 8 þús. kr.

Þá höfum við hv. þm. Dal. (ÁB) og ég endurtekið brtt. okkar, sem við fluttum við 2. umr. fjárl., um breytingu við 13. gr., að veittar verði til Heydalsvegar 300 þús. kr., eða til vara 200 þús. kr. Ég held, að öllum hv. þm. sé kunn nauðsyn þess, að þessi vegur verði lagður hið fyrsta, og þarf ég litlu að bæta við það, sem ég sagði hér í framsögu við 2. umr. fjárlaganna.

Ég treysti því að minnsta kosti, að minni upphæðin, sem ég nefndi, til vara, 200 þús. kr., fái samþykki hv. Alþingis.