13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

2. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Efnisákvæði þessa. frv., sem hér liggur fyrir, er um það að bæta einum fastráðnum kennara við í Stýrimannaskóla Íslands. Það er þó ekki ráðgert, að þessi viðbót muni ein út af fyrir sig, ef ekki kemur annað til, þurfa að hafa aukinn kostnað í för með sér, þar sem aukaeða stundakennsla við þennan skóla er nú svo mikil, að fullt rúm er fyrir einn fastan kennara þar til viðbótar. En það er talin þörf á því að fá þetta nýja kennaraembætti stofnað til þess að fá mann til að mennta sig sérstaklega í þeim efnum, sem til þessarar kennslu eiga að heyra, en nú er skortur á sérfróðum mönnum í því skyni. Er talið af skólastjóra stýrimannaskólans og öðrum þeim, er bezt til þekkja, að ekki muni fást maður til að leggja stund á þessi fræði, þau atriði sjómannafræðinnar, sem hér er um að ræða, nema því aðeins að tryggt sé, að hann geti fengið fasta stöðu að því aukanámi loknu, sem hann þarf á sig að leggja. Það er því ekki áhorfsmál um, að nauðsyn er á að samþykkja þetta litla frv. — Úr því að þörf var á að leggja það fram, var svo tekin upp í það eins konar leiðrétting á gildandi lögum, þar sem búið var að ákveða áður, að gefa ætti út þessi lög í einu lagi, en þá kom í ljós, að nokkur atriði voru þar úrelt, svo að ekki þótti ástæða til að gefa lögin út í því úrelta fyrirkomulagi, og eru önnur ákvæði frv. en það, sem ég gat um, varðandi stofnun þessa eina starfs, ekki annað en leiðréttingar til samræmis við það, sem nú er. Hitt er svo annað mál, að nokkurt íhugunarefni kynni að vera í sambandi við þetta frv. og önnur fleiri, er ég vildi vekja hér athygli á.

Eins og nú er ákveðið í lögum, þá heyrir stýrimannaskólinn undir atvmrn. Eftir þá skiptingu, sem gerð hefur verið á atvmrn., heyrir skólinn undir samgmrn. Og það er ætlazt til í því frv., sem hér er lagt fram, að það verði nú lögfest. En að mínu viti er það mikið áhorfsmál, hvort það er skynsamlegt að láta samgmrn. og atvmrn. sem landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti fara með verulegan hluta af skólamálum landsins, — hvort það er ekki skynsamlegra að sameina þetta allt í menntmrn. Eðlilegt sýnist, úr því að búið er að koma upp sérstöku ráðuneyti, sem eingöngu á að fjalla um menntamál, eins og nú er búið að gera og hefur staðið í allmörg ár, að þá væru fleiri og fleiri af skólunum teknir undir það ráðuneyti. Ég vek athygli á þessu hér til íhugunar og umhugsunar, en ekki vegna þess að ég geri um það till. til breytingar á þessu stigi. Þvert á móti ætlast ég til, að samkv. þessu frv. verði það lögfest, sem nú er í framkvæmd. En um leið og ég geri þá tillögu, vil ég vekja athygli á því, að hér er um töluvert vafamál að ræða, hvort það er skynsamlegt að hafa þennan málaflokk, skólamálin, dreifðan undir önnur rn. með þeim hætti, sem nú er gert. Í því sambandi skiptir ekki, hver með hvern málaflokk fer hverju sinni, heldur einungis það, hvað er skynsamlegt varðandi frambúðarstjórn málanna. Ég hygg því, að eðlilegt væri, að sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, íhugi einnig þessa hlið málsins.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr., og læt það afskiptalaust, til hvaða nefndar það fer. Sennilega er það, miðað við núverandi skipun, í beztu samræmi, að það fari til sjútvn., þó að hér sé í raun og veru hreint menntamál, sem ætti þá að fara til menntmn., en þarna rekast menn á þann klofning, sem er í löggjöfinni.