02.05.1955
Neðri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

143. mál, almenningsbókasöfn

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði rætt nokkuð um brtt., sem ég flutti við 4. gr., sem sumpart var umorðun, en sumpart nokkur merkingarbreyting, og ég var yfirleitt mjög efins í því, hvort rétt væri að setja þessa gr. inn, og hafði bent á, að þar sem það hefur hingað til verið frjálst fyrir bókasöfnin, hvers konar bóka væri til þeirra aflað, þá hafa bókasöfnin viða um land borið nokkurn blæ af þeim áhugamönnum, sem hafa beitt sér fyrir þeim, og ég hafði sérstaklega minnzt á bókasafnið í Húsavík og þann svip, sem Benedikt á Auðnum hafði á það sett. Ég álít það dálítið varasamt, eins og þarna er gert, að vera að binda í lögum þessi allströngu fyrirmæli um, hvers konar bóka eigi að afla, gera það að skyldu svo að segja fyrir bókasöfnin og reyna þannig að skapa ákveðna stefnu um slíkt í staðinn fyrir að lofa því að vera nokkru frjálsara. Það er náttúrlega gott að segja, að það eigi að gefa mönnum kost á að lesa góðar bækur, en það er nú eins og einn karl sagði einu sinni: Góðar bækur eru góðar, þegar þær eru góðar. — Menn eru nú kannske ekki alveg sammála um alltaf, hvað sé gott. Til er bókasafn á landinu, þar sem forráðamennirnir hafa hælt sér af því, að aldrei hafi nokkur bók eftir Halldór Kiljan Laxness komið inn á það safn. Og svo eru aftur sumir, sem álíta hann góðan rithöfund. Þannig getur þetta verið með bækur, svo að það er ákaflega varasamt að ætla að móta slíka stefnu sem þarna er gert, og ég held, að þessi litla till. mín, þó að hún breyti ekki miklu, sé þó í rétta átt.

Ég verð að segja það almennt viðvíkjandi þessu frv., að ég álit, að það hefði verið miklu betra, ef það hefði verið sent til umsagnar hinna ýmsu forráðamanna bókasafna úti um land og hreppsnefnda og hefði fengið að biða næsta þings, ekki sízt af því, að mikið af þessu frv. á nú hvort sem er ekki að koma í framkvæmd fyrr en um næstu áramót. Það hefur oft verið hafður sá háttur á áður, þegar hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram frumvörp, sem fela í sér allmiklar kerfisbreytingar eða skapa nýtt kerfi, þar sem kerfi hefur ekki verið fyrir, að slík frv. hafa ekki verið afgreidd á fyrsta þingi, sem þau hafa verið lögð fyrir, heldur hefur almenningi og fulltrúum hans úti um land gefizt tækifæri til þess að athuga þessi mál nánar. Ég álít, að það hefði verið ákaflega gott, ef þannig hefði líka verið farið að við þennan lagabálk, ekki sízt vegna þess, að það er margt, sem til framfara horfir í honum, og þess vegna alveg óþarfi að flaustra of mikið af, þannig að annað fari með, sem er ekki eins nauðsynlegt.

Ég man eftir, að t.d. lagabálkur mikill og merkilegur, sem að flestu leyti horfði til mikilla framfara, lá hér fyrir okkur ein tvö eða þrjú þing, — það var lagabálkurinn um hegningarlögin og breytinguna á þeim, — áður en hann væri afgreiddur. Þá var í þeim bálki, eins og hann var upprunalega lagður fyrir, ákvæðið um opinberan ákæranda, sem mætti nokkurri mótspyrnu, þó að yfirgnæfandi meiri hluti þings og ég held bara svo að segja allt þingið væri sammála um allar þær breytingar í frjálslyndara horf, sem fólust í hegningarlagabálknum. Síðast lagði hæstv. dómsmrh. lagabálkinn um hegningarlögin fyrir þannig, að hann tók út kaflann um opinbera ákærandann, og þá gekk frv. mjög greiðlega í gegnum þingið.

Ég held, að það ákvæði, sem er í þessu frv. um bókasöfnin viðvíkjandi bókafulltrúa hjá fræðslumálastjóra, sé misráðið og hefði ekki átt að vera í því, og ég fæ ekki séð, að fræðslumálastjórnin gæti ekki rækt það, sem falið væri með þessu frv., án bókafulltrúans. En svo fremi sem bókafulltrúi eigi að vera, þá álít ég, að það, sem hann eigi fyrst og fremst að vinna fyrir bókasöfnin í landinu, sé að geta leiðbeint þeim í bókasafnsmálum. Við þurfum ekki sérstaklega mann til þess að leiðbeina um bókaval. Það er ekki það, sem við erum fyrst og fremst að óska eftir. Við álítum, að fólkið og forráðamenn safnanna um land allt hafi almennt nokkurt vit á því að velja sér bækur, og það verður hver að fá að velja nokkuð eftir sínum smekk og eftir óskum fólksins í þessu sambandi og eftir því viti, sem forráðamennirnir hafa á því að velja góðar bækur, hvað sem þeim kann nú að finnast góðar bækur. Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt stefna að ætla að fara að setja það í fræðslumálaskrifstofuna í hendi eins manns fyrst og fremst að eiga að leiðbeina um bókavalið. Hitt aftur á móti, ef það á endilega að vera embættismaður í skrifstofu fræðslumálastjóra, sem sér um þessa hluti, þá álít ég, að hann eigi að hafa vit á því, hvernig eigi að skipuleggja bókasöfn skynsamlega, hvernig sé heppilegt að hafa kerfið í bókasöfnunum, og hann þurfi þess vegna að vera vel að sér um, hvers konar aðgreining sé heppilegust á bókum, hvers konar reglur viðvíkjandi flokkun þeirra, hvers konar reglur viðvíkjandi útlánum og allt mögulegt annað slíkt, og það sé einmitt þeir hlutir, sem bókafulltrúi alveg sérstaklega þyrfti að geta leiðbeint vel með, þ.e. sjálfur rekstur bókasafnanna. Erlendis er þetta ein af sérgreinum. Menn læra á sérstökum stofnunum að vera bókaverðir. Og eigi að vera maður, sem hér á sérstaklega að hafa með þessa hluti að gera, þá álít ég, að hann eigi fyrst og fremst að hafa einhverja sérmenntun hvað snertir rekstur bókasafna. Við erum ekki að biðja um neinn mann, sem eigi að vera einhvers konar forráðamaður um bókavalið og annað slíkt, heldur alveg sérstaklega mann, sem hefði einhverja sérmenntun í því, hvernig eigi að reka bókasöfn, því að það efast ég ekki um að þarf gjarnan að leiðbeina mönnum með, og það eru því miður ekki margir menn í landinu, sem hafa hana. Þess vegna hef ég á þskj. 655 orðað þá brtt. við 30. gr., sem segir, að menntmrh. skuli skipa sérstakan bókafulltrúa í skrifstofu fræðslumálastjóra, að á eftir þessu komi: „Skal hann hafa sérmenntun hvað snertir rekstur bókasafna.“ Það þótti mér raunverulega vera sú minnsta krafa, sem er hægt að gera, ef þarna á að fara að hafa sérstakan embættismann, sem ég nú hins vegar álít að við hefðum vel getað komizt af án, en um það virðist hins vegar vera mjög ákveðinn meiri hluti hér á Alþ.

Þessa brtt. vildi ég þess vegna vona að menn gætu fallizt á. Hinar brtt., sem ég flyt, aðra með hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) og hina á þskj. 681, vona ég að hv. d. geti líka orðið við að samþ., en ég skal vissulega viðurkenna, að það eru nú komnar svo margar brtt. í sambandi við þetta mál, að það virðist alveg glöggt, að þetta mál hefði átt að fá betri athugun en það þegar hefur fengið,en við það verður máske ekki ráðið héðan af. Það hefði þó verið bezta meðferð málsins. En ef ekki fæst að fresta samþykkt þess, þá álít ég þó, að þessar brtt., sem ég þarna hef flutt ásamt öðrum, mundu bæta nokkuð úr þeim göllum, sem eru á þessu frv., og hjálpa þannig til þess að gera það, sem annars hvað stefnu þess snertir er gott frv., mun betra en það ella hefði orðið.