23.01.1956
Neðri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Landbrh. (Steingrímur Steinþórason):

Út af þessari fyrirspurn hv. 3. landsk. (HV) skal ég taka það fram, að ég hef ekki hér við höndina lista yfir allar þær ár, sem vatnsmælingar fara fram í nú sífellt undir stjórn raforkumálaskrifstofunnar, en ég efast alls ekki um það, þar sem einmitt Haukadalsá hefur um mörg ár verið hugsuð sem raforkuver fyrir Dalasýslu, að þá sé búið að framkvæma þar vatnsmælingar um lengri tíma. Ég þekki svo vel vinnubrögð raforkumálaskrifstofunnar, að það tel ég að liggi alveg opið fyrir, og ég hygg, að það í raun og veru standi ekki í vegi fyrir, að raforkumálaskrifstofan hafi til þessa ekki viljað algerlega slá föstu, hvor leiðin væri farin, heldur er það ýmislegt annað, það eru ýmis ný tækniatriði í sambandi við þetta.

Fyrir tiltölulega fáum árum var yfirleitt reiknað með því, að hvert hérað yrði nokkuð sjálfstætt fyrir sig með sínu orkuveri, en nú hin síðustu árin virðast allar till. þessara tæknifróðu manna vera í þá átt, að það eigi að tengja orkuverin sem allra mest saman, hafa orkuverin sem fæst að unnt er og tengja þetta saman með háspennulínum og á þann hátt að gera landið eins fljótt og unnt er raunverulega að einu orkusvæði. Ég hef sannfærzt af fortölum þeirra sem algerlega ófróður maður í öllum tækniatriðum hvað þetta snertir, að þetta hljóti að vera rétta leiðin í raforkumálunum, eins og tæknin virðist nú vera komin langt áfram, og ég hygg, að það sé þetta, sem hafi haft meiri áhrif á það, hvað þetta hefur dregizt, heldur en að það hafi verið vanrækt að gera nauðsynlegar mælingar í þeim ám, sem gátu komið til greina í þessu sambandi. Þessi leið, sem nú er hugsuð og gerð er till. um hér í frv., að leggja línu frá Þverárvirkjun og til Reykhólasveitar, Króksfjarðarness og yfir Gilsfjörð um sveitirnar í Dalasýslu, er ekki beint greiðfær. M.a. verður þar að koma sæstrengur, og hann er geysidýr til raforkuflutnings, eins og við vitum, og allt þetta hefur náttúrlega sín miklu áhrif á það, hvernig þessi múl eru tekin.

Ég veit ósköp vel, alveg eins og hv. a. landsk., hve mikill órói er í þeim héruðum, sem ekki hafa fengið annaðhvort nokkra fyrirgreiðslu um rafvæðingu eða ákveðnar áætlanir um það, á hvern hátt þetta skuli gert á tiltölulega mjög fáum árum. En mér finnst samt, að við verðum að taka það með í reikninginn, að við höfum ekki stórum flokk tæknifróðra manna á að skipa í þessu efni og þeir hljóta að þurfa nokkurn tíma til þess að átta sig á hverju einstöku atriði, þannig að ekki verði um mjög mikil mistök að ræða, því að þau geta orðið dýrari en þó að rafmagn kæmi á eitthvert svæði einu eða tveimur árum fyrr, ef það svo sýndi sig, að um alvarlegt víxlspor hefði verið að ræða. — Ég get ekki gefið upplýsingar um þetta á þessu stigi, en ég get lofað hv. 3. landsk. þm. því, að hann getur fengið allar upplýsingar, annaðhvort frá mér eða á raforkuskrifstofunni, um vatnsmælingar í mörgum ám hér á landi, ég veit, að þær eru fjölmargar, og tel alveg öruggt, að Haukadalsá hljóti að vera þar á meðal.