02.02.1956
Efri deild: 60. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

118. mál, ný orkuver og orkuveitur

Frsm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og þetta frv. ber með sér, er það frv, til l. um breyt. á eldri l. um sama efni. Þessar breyt., sem hér eru fram bornar, eru í samræmi við þær tæknilegu rannsóknir, sem gerðar hafa verið síðan fyrri lögin voru samþ. N. hefur borið brtt., sem felast í þessu frv., saman við eldri lög um þetta efni og orðið ásátt um að mæla með því, að frv. verði samþ. En n. hefur jafnframt orðið sammála um að bera fram tvær brtt. á þskj. 333, og eru það smávægilegar orðabreytingar, sem n. virtust vera eðlilegra orðalag en er á frv. eins og það lá fyrir. Þó vil ég geta þess, að ég tel rétt, að fyrri brtt. af þessum tveimur verði dregin til baka þangað til við 3. umr. málsins, að tækifæri gefst til þess að bera hana nánar saman við frv., af ástæðum, sem ég hef fengið upplýstar síðan brtt. kom fram.

Ég hef enn fremur leyft mér að bera hér fram brtt. við 5. gr. Það má e.t.v. segja, að sú brtt. sé ekki nauðsynleg. Eins og hún ber með sér, er hún þess efnis, að tryggt verði eftir sem áður, að nægileg raforka verði fyrir orkusvæði Þverár í Strandasýslu, þó að háspennulína verði lögð frá Þverá suður í hreppana í Barðastrandarsýslu. Ég segi, að það kann að vera, að hún megi skoðast sem óþörf, vegna þess að það komi ekki til mála, að slíkt verði gert, að leitt verði rafmagn frá þessu orkuveri til annarra staða, án þess að séð sé fyrir því, að nægileg orka sé til fyrir sjálft orkusvæðið, sem er nálægast þessu orkuveri. En það a.m.k. sakar ekki, þó að þessi brtt.samþ., og eðlilegt, ef hún er sjálfsögð, eins og ég tel að hún sé og eins og ég tel að málið sé hugsað, jafnvel þó að hún lægi ekki fyrir.

Ég hef svo ekki frekar um þetta mál að segja. N. var og er sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. með þessum tveimur breytingum, sem ég hef fyrr minnzt á. Óska ég eftir, að atkvgr. um aðra þeirra verði frestað til 3. umr. Svo hef ég leyft mér að bera fram þessa brtt., sem ég hef áður minnzt á.