28.10.1955
Neðri deild: 12. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

56. mál, sýsluvegasjóðir

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af okkur flm. til þess að ráða nokkra bót á þeim fjárhagsörðugleikum, sem sýsluvegasjóðirnir eiga nú við að búa. Með bráðabirgðaákvæðum, sem voru sett með lögum nr. 10 frá 1953, var sýslunefndunum heimilað, þar til nýtt fasteignamat hefði farið fram, að innheimta vegaskatt til sýsluvegasjóða með allt að 50% álagi. Þessu álagi var ætlað að mæta þeim hækkunum, sem höfðu orðið þá um allmörg ár fram til áramóta eða ársloka 1952.

Þessi hækkun bætti mikið úr, en hefur þó reynzt allvíða ófullnægjandi vegna vaxandi útgjalda sýsluvegasjóðanna, bæði til viðhalds og nýbyggingar vega. Við þetta bætist svo, að kaup vegavinnumanna og annar kostnaður við vegagerð stórhækkaði á s.l. sumri, og af þessu leiðir, að sýsluvegasjóðirnir geta nú ekki lengur staðið undir þeim útgjöldum, sem þeim er ætlað að hera, og ekki sinnt því hlutverki, sem þeir eiga að gegna. Það verður þess vegna ekki komizt hjá því að hækka vegaskattinn móts við áðurgreindar kauphækkanir og aukinn kostnað.

Í lögunum um samræmingu á fasteignamati frá siðasta Alþingi var svo gert ráð fyrir, að þegar hið nýja fasteignamat gengi í gildi, færi jafnframt fram endurskoðun á gjöldum til sýsluvegasjóða og öðrum hundraðsgjöldum af fasteignum: Við flm. teljum varlegast að gera ráð fyrir, að þessari endurskoðun verði ekki lokið fyrr en einhvern tíma á árinu 1957.

Allir kunnugir vita, að sýsluvegirnir þola ekki að bíða eftir tekjum í tvö ár, með þeim afleiðingum, að vegaviðhaldinu hraki stórkostlega, og enn fremur, að ýmsar nauðsynlegar vegabætur verði lagðar á hilluna. Það er þess vegna lagt til, að sett verði ný bráðabirgðaákvæði, sem heimill sýsluvegasjóðum tekjur á móti auknum útgjöldum, þar til áðurgreind endurskoðun hefur farið fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að mæla frekar fyrir þessu litla frv., en legg til, að því verði vísað að umr. lokinni til 2. umr. og. hv. samgmn.