16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

26. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Út af því, sem síðasti ræðumaður tók fram, hv. 10. landsk., verður að líta á eitt, sem veldur ekki litlu, þegar talað er um hvíldartímann. Það er getið um það í samningunum eða tekið fram í samningunum, að hvíldartíminn skuli vera með matartímanum 12 stundir, eða vinnutími verður ekki lengri en 12 stundir. En þess ber að gæta, að þegar veður hamlar veiðum og það stundum í lengri tíma, jafnvel dag eftir dag, svo sem kunnugt er, þá er hvíldartíminn miklu lengri. Þetta er að sínu leyti dálítið hliðstætt við það, þegar bóndi eftir óþurrkatið er að reyna að bjarga heyjum og hefur vinnutíma lengri í það skiptið til þess að ná upp því, sem tapazt hefur, að það er ekki nema sanngirni í því og er ekki að jafnaði átalið, þykir þvert á móti sjálfsögð nauðsyn. Svo er með þetta, að ef við förum enn lengra niður með hvíldartímann og töpum öllum þeim dögum að auki, þar sem ekkert er hægt að starfa, þá er hætt við, að það fari illa fyrir okkur. Við yrðum að fjölga mönnum á skipunum, en samkeppnin er nú erfið á því sviði, þar sem kunnugt er, að þær fiskveiðaþjóðir, sem mest keppa við okkur, hafa annaðhvort lítið eða ekki ákvarðaðan hvíldartíma, og þess vegna komast þær af með að hafa miklu færri menn á jafnstórum skipum sínum, sem afla á sömu miðum. Við megum því gæta okkar þannig líka. Ég er ekki að mæla bót þeim þrældómi, að það séu ekki nein takmörk fyrir því, hvað hvíldin sé, en ég tel um þann áfanga, sem náð er, að það sé svo vel gengið frá því sem verið getur, og ég legg þess vegna til, að þessi brtt. okkar hv. þm. Vestm. verði samþykkt.