07.11.1955
Efri deild: 14. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1413)

9. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað frv. um matsveina- og veitingaþjónaskóla á þskj. 9. Eins og nál. ber með sér, hefur n. orðið sammála um að mæla með því óbreyttu. Haraldur Guðmundsson, 4. þm. Reykv., var ekki viðstaddur á fundinum, en 1. þm. Eyf. ritar undir með fyrirvara og mun skýra afstöðu sína.

Umgetinn skóli var stofnaður með lögum nr. 82 1947 og heyrir að lögum til undir samgmrn., en með frv. þessu er ætlazt til, að hann falli undir menntmrn., sem flestir skólar tilheyra og þar á meðal húsmæðraskólar í kaupstöðum, en matsveinaskólinn er að sjálfsögðu mjög skyldur slíkum stofnunum. Auk þess virðist eðlilegt, að sem flestir skólar verði settir undir menntmrn., því að menn, sem þar starfa, verða kunnugri en aðrir starfsmenn sérstaklega þessum málum, og því fleiri og fjölbreyttari sem starfsemin er, því fleiri skólar sem falla undir menntmrn., því betur hafa menn kynni af skólamálum almennt og hafa betur fyrir augum samband þessara skóla við kennaraval og annað.

Þetta girðir þó ekki fyrir, að aðrir ráðherrar en menntmrh. geti fjallað um mál einstakra skóla, þegar svo ber undir.