06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (1674)

85. mál, mannanöfn

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég get tekið undir öll þau rök, sem hv. 1. þm. Árn. flutti fram gegn þessu frv. Hann gat þess, að þegar deilur hafa staðið hér á undanförnum þingum varðandi þá skyldu manna, sem fá íslenzkan ríkisborgararétt, að skipta alveg um nafn, var ágreiningurinn milli okkar, sem þá deildum, um það eitt, hvort eðlilegt væri að láta fulltíða menn skipta algerlega um nafn, þó að þeir bæru útlent nafn. Um hitt var enginn ágreiningur milli okkar, sem fastast deildum þá um það mál, að sjálfsagt væri, að niðjar hinna nýju ríkisborgara bæru íslenzk nöfn, sem væru algerlega að hinum forna íslenzka nafnasið. Ég minnist engrar raddar í þeim deilum um, að eðlilegt væri og réttmætt, að hin útlendu ættarnöfn fengju áfram að lifa í tungunni og með þjóðinni. Þær deilur, sem um það mál stóðu, eru í raun og veru algerlega óskyldar kjarna þessa máls. Og mér er það mikil ánægja, að við hv. 1. þm. Árn., sem hart deildum í því máli, skulum nú snúa bökum saman í andstöðu okkar við þetta frv.

Nýmæli þessa frv. er fyrst og fremst það, að nú skal vera lögheimilað að taka upp ný ættarnöfn. Þetta frv. er að ýmsu leyti miklu ýtarlegra frá almennu lagalegu sjónarmiði en gildandi lög um ættarnöfn og að nær öllu leyti betra en gildandi lög, að þessu aðalatriði undanteknu, ef nú á að heimila að taka upp ný ættarnöfn.

Hæstv. menntmrh. sagði í framsöguræðu sinni, að höfuðgalli núgildandi laga væri sá, að þau hefðu reynzt óframkvæmanleg, höfuðkostur þessa frv. væri sá, að það væri framkvæmanlegt. Þetta er rökstuðningur, sem er ofar mínum skilningi. Hvað var það, sem var óframkvæmanlegt eða hefur reynzt óframkvæmanlegt í gildandi lögum? Menn hafa brotið gildandi lög á þann hátt, að menn hafa tekið ólögleg ættarnöfn, og nú er mér spurn: Halda menn, að menn geti ekki eftir sem áður tekið sér ólögleg ættarnöfn? Hvað er það í þessum lögum, sem kemur í veg fyrir það, að menn haldi áfram að taka sér ólögleg ættarnöfn? Halda menn, að það sama ríkisvald sem hefur ekki hingað til getað staðið gegn töku ólöglegra ættarnafna muni geta það framvegis? Geta þeir menn, sem hafa ekki hingað til treyst sér til þess að meina mönnum töku ólöglegra ættarnafna, gert það framvegis? Halda menn, þó að menntmrh. eða dómsmrh. fái heimild til að samþykkja víss ættarnöfn, að honum vaxi þá svo ásmegin í baráttunni gegn ólöglegum ættarnöfnum, að hann mundi þá geta bannað það, sem hann hingað til gat ekki bannað eða vildi ekki banna? Ég skil ekki þessar röksemdafærslur. Hafi ekki verið hægt hingað til að meina mönnum töku ólöglegra ættarnafna, af því að yfirvöldunum þyki það ganga of nærri persónulegu frelsi manna eða eðlilegum réttindum manna að fá ekki að ráða sínu nafni, þá geta menn það auðvitað ekki heldur framvegis. Þessi lög breyta engu um það. Heimildin, sem rn. er fengið til þess að viðurkenna sum ættarnöfn, breytir engu getu þess sama rn. til þess að hindra menn í að taka sér ólögleg ættarnöfn.

Það á að vera höfuðröksemd fyrir þessu frv., að það sé framkvæmanlegt. En ég fæ ekki skilið ákvæði 10. gr. þess öðruvísi en þannig, að nú eigi allir þeir íslenzkir ríkisborgarar, sem bera ólögleg ættarnöfn, að leggja þau niður. Í 10. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögleg ættarnöfn, sem íslenzkir ríkisborgarar bera nú, mega haldast.“

Síðan segir í 11. gr.:

„Ættarnöfn skulu vera íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu.“

Þessi tvö ákvæði er ómögulegt að skilja öðruvísi en þannig, að ólögleg ættarnöfn, sem nú eru borin af íslenzkum mönnum, skuli lögð niður, að þeir menn, sem þau bera, skuli skipta um nafn. Hvernig er hægt að segja, að þessi lög séu framkvæmanleg, það verði nú allt í einu framkvæmanlegt að láta menn leggja niður ólögleg ættarnöfn, þegar menn hafa sagt, að höfuðgalli fyrrverandi laga sé, að þau hafi verið óframkvæmanleg, að þetta hafi ekki verið hægt? Hér er um svo augljósa rökvillu að ræða, að mig furðar satt að segja á því, að hún skuli vera fram borin af manni eins og hæstv. dómsmrh.

Í 11. gr. segir, eins og ég sagði áðan, að ættarnöfn skuli vera íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu, en ekki aðeins mörg ólögleg ættarnöfn, sem nú eru borin, eru annaðhvort erlend eða ekki samkvæmt lögmálum íslenzkrar tungu, heldur einnig mörg löglegu ættarnöfnin, þannig að í raun og veru er alger mótsögn milli 10. og 11. gr., þar sem 10. gr. löghelgar löglegu ættarnöfnin, sem nú eru borin, þó að útlend séu eða ekki rétt að lögum íslenzkrar tungu, en 11. gr. segir, að ættarnöfn skuli vera íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu. Svona lagasmíð tel ég ekki sæmilega.

Hér er auðvitað mikill vandi á ferðum. Um það er ég hæstv. dómsmrh. algerlega sammála. Málið er mjög vandasamt. Eins og oft vill verða um jafnvandasöm mál og hér er á ferðinni, er ekki til lausn, sem kunni ekki að orka einhvers tvímælis, en sú lausn, sem hér er um að ræða, er svo stórgölluð, að til hennar má ekki hverfa.

Hvað á þá að gera í þessu máli? Ég vildi eindregið lýsa fylgi mínu við skoðun minni hluta mannanafnanefndarinnar, sem hv. 1. þm. Árn. einnig lýsti eindregnu fylgi sínu við, en hugmynd minni hlutans, próf. Alexanders Jóhannessonar, er sú, í samræmi við skoðanir, sem ég hef áður sett fram hér á Alþ. hvað eftir annað í umræðum um nöfn erlendra ríkisborgara, að öll ættarnöfn, sem nú eru borin, eigi að hverfa úr tungunni, að öll ættarnöfn, hvort sem þau eru útlend eða íslenzk, eigi að hverfa úr tungunni, þó ekki með þeim hætti, að nokkrum fullvöxnum manni skuli skylt að breyta um nafn, heldur þannig, að þau hverfi í næstu kynslóð. Það mætti t.d. fara svo hægt í sakirnar að miða aðeins við ófædd börn, leggja ekki nafnbreytingarskyldu á herðar nokkurra barna, en láta ættarnöfnin hverfa með þeirri kynslóð, sem ófædd er, þegar lagaákvæði um þetta yrðu sett. Það má segja, að í slíku stórmáli sem þessu, sem varðar alla framtíð íslenzku þjóðarinnar og íslenzka tungu og snaran þátt íslenzkrar menningar, skipti ekki máli, hvort breytingin taki fullt gildi einum mannsaldri eða einum, tveimur eða þremur áratugum fyrr eða síðar. Aðalatriðið er það, að einhvern tíma sé mörkuð rétt stefna, sem á sínum tíma komist fullkomlega í framkvæmd. Ég tel engan efa leika á því, að stefna eigi að því, að íslenzk kunga verði ættarnafnalaus. Hin forna íslenzka nafnvenja, að menn kenni sig til föður síns, er svo snar þáttur íslenzks máls og íslenzkrar menningar, að í hann eigum við að halda fast. Ættarnöfn á Íslandi komu til skjalanna í kjölfar erlendra yfirráða, í kjölfar íslenzkrar undirgefni undir erlend áhrif, mér liggur við að segja að sumu leyti í kjölfar íslenzks skriðdýrsháttar fyrir erlendum venjum. Ættarnöfnin eru ekki í samræmi við íslenzka málvenju. Þau raska mikilvægum grundvallarþætti í eðli íslenzkrar tungu. Ættarnöfn eru yfirleitt notuð þannig, að þau eru óbeygð eða þá að þau eru í hæsta lagi höfð í tveim föllum, og er hvort tveggja alveg óíslenzkt að eðli.

Hv. 1. þm. Árn. minntist á ákvæði 7. gr., sem ég er honum alveg sammála um að er alveg fráleitt, þar sem erlendri konu, sem gift er Íslendingi, sem hefur ekki ættarnafn, er heimilað að kenna sig til föður eiginmannsins, þ.e., að það skuli vera lögfest, að kona geti verið son. Að lögfesta nafn eins og Guðrún Jónsson t.d. tel ég ekki koma til nokkurra mála. Slík nöfn hafa nokkuð tíðkazt, en eru öll ólögleg. Rök ráðamanna fyrir því að hafa ekki gert neitt í þessu eru þau, að það hafi ekki verið framkvæmanlegt að knýja fólk, sem tekið hafi upp slík nöfn, til að breyta um nöfn, og nú á ráðið að vera einfaldlega það að leyfa þeim að bera nöfn, sem eru slík skrípi, að mér vitanlega hefur enginn mælt slíku bót opinberlega. Þetta er að gefast algerlega upp fyrir erfiðleikunum. Ég játa, að hér er um vanda að ræða, en svona fullkomlega uppgjöf gegn vandanum má ekki sýna.

Ég skal ekki orðlengja frekar um málið á þessu stigi þess, en taka undir þau ummæli hv. 1. þm. Árn., að ég treysti hv. menntmn. til þess að gerbreyta aðalefni þessa frv., þ.e. því, að heimilað skuli að taka upp ættarnöfn. Ég treysti henni til þess. Í samræmi við þær skoðanir, sem áður hafa komið fram í umræðum um skyld mál, tel ég, að á því sé sem betur fer lítil hætta, að þessi hv. deild láti þetta frv. óbreytt frá sér fara.