31.10.1955
Neðri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (1904)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á dagskránni, og raunar það næsta á dagskránni einnig, en það er frv. til laga um breytingu á lögum um útsvör, eru þess eðlis, að þau eru í rauninni sama málið.

Þetta frumvarp, frv. til breyt. á lögum nr. 46 frá 1954, um tekjuskatt og eignarskatt, er að efni til um það, að atvinnutekjur þær, sem skattþegnar hafa af eftir-, nætur- og helgidagavinnu við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar, skuli undanþegnar skattgreiðslum.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er augljóslega sú, að það virðist vera í hæsta máta ósanngjarnt, að þar, sem vinna er mjög mikil við framleiðslustörf og menn verða að leggja mjög hart að sér, til þess að verðmæti fari ekki forgörðum frá þjóðfélaginu, sé sú kaupgreiðsla, sem þeir fá fyrir það, skattlögð óhóflega mikið til ríkissjóðs eða til bæjar- og sveitarfélaga.

Þetta frv. var flutt hér á síðasta þingi, en fékk þá ekki neina afgreiðslu, eins og raunar mörg önnur frv. stjórnarandstöðunnar, sem hafa verið látin bíða langt fram yfir það, sem hægt er með nokkrum rökum að verja. Við stjórnarandstæðingar hér á þingi teljum okkur eiga fulla kröfu á því, að mál þau, sem við berum fram, séu tekin til afgreiðslu, en þingið skjóti sér ekki endalaust undan því að taka afstöðu til þeirra.

Þetta frv. er hér endurflutt, og eins og tekið er fram í grg. þess, er það nú sýnu brýnna en áður, þar sem greinilegt er, að f sumum verstöðvum landsins rekur að því, að a.m.k. landverkamenn munu um það er lýkur neita að vinna 16 og upp í 20 klst. á hverjum sólarhring að þessari framleiðslu, ef greiðsla sú, sem þeir fá fyrir þetta, fer að meira en hálfu til opinberra aðila og þeir halda ekki einu sinni eftir sem svarar dagvinnukaupi við sín erfiðu verk.

Það má vel vera, að hér á Alþingi og í nánasta umhverfi Alþingis sé litið svo að, að það sé ekki mikil þörf á því að vernda íslenzka þegna fyrir of mikilli vinnu, því að sannast að segja virðist þess nú ekki mikil þörf i þessari stofnun eða nánasta umhverfi hennar. En það breytir ekki því, að víða er ósleitilegar unnið en hér um þessar slóðir, og vel megum við leiða hugann að því. að þar sem menn sitja á sínum viðskiptastólum við skrifborð sín eða í öðrum forstjórasætum og taka góðar tekjur fyrir, þá hafa þeir, sem það gera, velflestir lag á því að láta a.m.k. allt það, sem mætti kalla umframvinnu, ekki koma undir skattlagningu, og er þá aðeins vægt til orða tekið. En margir slíkir munu telja sjálfsagt, að sjómennirnir á vélbátunum, sem verða að standa stundum svo að mánuðum skiptir, oft svo að vikum skiptir, við störf sín langmestan hluta sólarhringsins í sleitulitlu erfiði, eða verkafólkið, sem kemur aflanum í verðmæti í landi og stendur við það, eins og ég hef áður tekið fram, stundum 16–20 klst. á sólarhring, dögum og vikum saman, greiði fyllstu skatta. Vel megum við skilja, að það er ekki síður þörf á því, að slíkir aðilar, sem sýna þessa þjóðhollustu, hafi möguleika til þess, að sá hluti af tekjum þeirra, sem þeir fá fyrir þá vinnu, sem er fram yfir það, sem hóflegt má teljast, sé undanþeginn skatti.

Víðast í menningarþjóðfélögum nútímans tíðkast það, að löggjafinn verndar þegna sína fyrir of mikilli vinnu, bannar yfirvinnu, sums staðar að víssu hámarki, á öðrum stöðum er yfirvinna bönnuð með öllu, þannig að unninn er einungis 7–8 stunda vinnudagur, og allt, sem þar er fram yfir, er bara brot við þjóðfélagið, því að auðvitað er það svo, að öll slík vinna kemur niður á þeim einstaklingum, sem hana framkvæma, með því að þeir eldast um aldur fram eða verða mótstöðuminni fyrir sjúkdómum og hvers kyns kröm.

Auðvitað gildir það sama um okkar þjóðfélag, að æskilegast væri, að íslenzki löggjafinn gæti verndað fólk algerlega gegn óhóflegri vinnu. En ég geri ráð fyrir, að flestir muni sammála um það, að ekki hafi íslenzkt þjóðfélag efni á því um þessar mundir að takmarka vinnu við framleiðslustörfin, a.m.k. ekki við öflun fisks og fiskvinnslu, því að öll takmörkun eins og nú stendur mundi draga úr framleiðslunni, en það er fyrir þjóðfélagið sem heild ákaflega óæskilegt. Það er þess vegna það minnsta, sem þjóðfélagið ætti að sjá sóma sinn i, að láta það fólk, sem sýnir þegnskap við framleiðsluna og leggur mikið að sér, njóta þess í einhverju, og liggur þá langbeinast við, að það fái nokkur fríðindi frá ákvæðum gildandi skattalaga.

Mér er það fullkomlega ljóst, að því lagafrv., sem hér liggur fyrir og hefur inni að halda þau ákvæði, að umframvinna í þjónustu útflutningsframleiðslunnar verði undanþegin skattgreiðslum til ríkisins, kann að vera í einhverju áfátt um orðalag, og víst er um það, að til framkvæmda mundi þurfa að setja reglugerð.

Nú er að sjálfsögðu hægt að gera ráð fyrir því, að þegar slíkt ákvæði eins og þetta frv. hefur inni að halda væri komið i lög, yrði nokkur tilhneiging til þess að ganga öllu lengra í því að færa atvinnutekjur undir skattfrjálsa liðinn en hóflegt mætti telja, og yrði að sjálfsögðu að stemma stigu fyrir því með reglugerðarákvæðum.

Í frv. er talað um framleiðslustörf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar. Með því er að sjálfsögðu fyrst og fremst átt við það, að þar séu undanþegin skatti hin óhjákvæmilegustu framleiðslustörf. Það gæti auðvitað hugsazt, að einhver frystihúsaeigandi, svo að við tökum dæmi, trassaði að láta gera sér umbúðir utan um sinn fisk, þangað til í óefni væri komið, og þyrfti svo að láta vinna í einhverri prentsmiðju yfirvinnu við að prenta merkingar á sínar umbúðir eða eitthvað þess háttar. Það er ekki til þess ætlazt í þessu frv., að slík yfirvinna, sem kynni að koma fram einhvers staðar allt annars staðar en við framleiðsluvörurnar sjálfar, yrði undanþegin skatti, enda er það vinna, sem allir sjá að hægt væri að framkvæma án þess, að til yfirvinnu kæmi. Með ákvæðum frv. er átt við það, að sú vinna, sem óhjákvæmilegt er að vinna við sjálfa framleiðsluvöruna, verði undanþegin skatti, vegna þess að þjóðfélaginu er alveg brýn nauðsyn, að hún sé unnin þegar aflinn er fáanlegur og þegar fyrir liggur að vinna hann í mikil verðmæti.

Ég vænti þess svo, að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi, og ég vil enn fremur undirstrika þau varnaðarorð, sem ég hef áður viðhaft hér, að verði ekki stigið neitt skref í þessa átt, má búast við því, áður en langur tími líður, að til framleiðslutruflana komi, vegna þess að verkalýðssamtökin munu ekki leyfa yfirvinnu, næturvinnu, helgidagavinnu ótakmarkað um langa framtíð, án þess að tryggt verði, að launþegarnir sjálfir hafi verulegan fjárhagsávinning af því að framkvæma hana.

Ég vil leggja til, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. fjhn. og til 2. umr.