16.11.1955
Sameinað þing: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (2176)

78. mál, Alþingistíðindi

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í till. þessari er gert ráð fyrir breyttri tilhögun á útgáfu Alþingistíðinda og nýmæli varðandi fréttir frá Alþingi.

Í till. er gert ráð fyrir því, að Alþingi álykti að fela forsetum þingsins að sjá um, að þingtíðindi verði prentuð og gefin út hálfsmánaðarlega um þingtímann og höfð til sölu á almennum bókamarkaði. Enn fremur er gert ráð fyrir, að daglega verði gerður stuttur útdráttur úr þeim umræðum, sem fram fara á Alþingi, og sá útdráttur birtur í þingfréttum ríkisútvarpsins, auk þess sem hann sé sendur þeim blöðum, sem óska að fá hann til birtingar að einhverju eða öllu leyti.

Til skamms tíma var ritun þingræðna þannig, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að þingskrifarar önnuðust hana, ýmist með því að hraðrita ræður þingmanna eða skrifa þær á venjulegan hátt. Misbrestur mikill vildi verða á því, að ræður þingmanna væru ritaðar nákvæmlega, auk þess sem það dróst oft lengi hjá þingskrifurum að skila handritum að ræðum þingmanna. Mátti segja, að þá væri þegar af þeirri ástæðu nær útilokað að haga útgáfu þingtíðinda þannig, að þau birtust nokkurn veginn samtímis þinghaldinu. Fyrir nokkrum árum var hins vegar gerð hér á mjög mikilvæg skipulagsbreyting, sem ég hygg að allir séu sammála um að hafi gefizt mjög vel. Nú eru ræður þingmanna teknar á segulband og þær vélritaðar eftir segulbandinu samdægurs, að því er ég hygg, eða næsta dag á eftir í síðasta lagi, þannig að ræður þingmanna liggja fyrir vélritaðar, nákvæmlega eins og þeir höguðu orðum sínum, einum til tveimur dögum eftir að þær eru haldnar. Nú má að sjálfsögðu nokkuð um það deila, hvort ástæða sé til þess að haga útgáfu frétta frá Alþingi á þann veg, að allar ræður þingmanna séu gefnar út orðréttar. Um það má deila. Í öllu falli mun þykja sjálfsagt, að þskj. öll séu prentuð. Þau eru prentuð, áður en þau eru lögð fram á Alþingi, og síðar varðveittur „sats“ af þeim, þangað til þingtíðindi eru gefin út í heild.

Að því er snertir útgáfu þingskjala og grg. með þeim, er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að gefa þau út í bókarformi eða bæklingsformi jafnóðum og þinghaldið stendur, og nú, eftir að hinn nýi háttur var tekinn upp á vélritun þingræðna, ætti heldur ekkert að vera því til fyrirstöðu að gefa ræðurnar út svo að segja jafnóðum og þinghaldinu miðar áfram, ef á annað borð þykir rétt að gefa ræðurnar allar út. Ég hef þess vegna lagt til, að meðan þeim hætti er haldið að hafa í þingtíðindum bæði málsskjöl og grg. ásamt ræðum, verði tilhögun útgáfunnar breytt þannig, að þau verði gefin út hálfsmánaðarlega, sem mundi þá auðvitað verða í örkum, heilum örkum, og ég sé enga framkvæmdaerfiðleika á því. Í raun og veru mundi fylgja því mjög lítill kostnaðarauki. Sú fyrirkomulagsbreyting ein mundi verða gerð á, að umræður allar mundu verða prentaðar eftir tímaröð, þ. e. a. s. eftir dögum, en ekki eftir málum, en mér hefur skilizt, að í raun og veru sé útgáfu flestra þingtíðinda annars staðar einmitt háttað þannig, að umræður séu prentaðar eftir tímaröð, en ekki eftir málefnaröð, og væri sú breyting þar af leiðandi líklega ekki til hins verra og a. m. k. ekki til ósamræmis við það, sem tíðkast annars staðar. Kostnaðaraukinn af þessu mundi sáralítill verða, en á því tel ég engan vafa, að hafa mætti talsvert auknar tekjur af útgáfu þingtíðindanna, ef þessi háttur yrði upp tekinn, vegna þess að áhugi manna á því að fá Alþingistíðindin eða fylgjast með þeim mundi án efa vaxa mikið, ef fréttirnar frá þinginu, sem í þeim birtust, væru nýjar, en ekki jafngamlar og nú á sér stað. Auk þess mundi þessi háttur á útgáfu Alþingistíðinda án efa geta orðið til þess að auka mjög samband milli þings og þjóðar, samband, sem ekki er of mikið og nú er einvörðungu gegnum þingfréttir útvarpsins, sem ég vík hér að síðar, og þingfréttir blaðanna.

Það er því sannfæring mín, að þessi nýi háttur á útgáfu þingtíðindanna mundi verða til bóta, mundi verða til þess að gera þjóðinni kleift að fylgjast betur með því, sem gerist á löggjafarsamkomunni, og það ætti um leið að geta orðið til þess að treysta hornsteina þess stjórnkerfis, sem við búum við og höfum að sjálfsögðu áhuga á að efla sem bezt.

Annar liður tillögunnar er um það, að daglega verði gerður stuttur útdráttur úr þeim umræðum, sem fram fara á Alþingi, og birtur í þingfréttum ríkisútvarpsins, auk þess sem hann sé sendur blöðum, sem þess kunna að óska.

Svo sem kunnugt er, starfar nú á vegum forseta Alþingis einn þingfréttamaður, sem segir landslýð fréttir í ríkisútvarpinu af því, sem gerist á löggjafarsamkomunni. Hann mun kostaður af Alþingi, og að því er mér hefur skilizt, fær hann sama kaup og alþingismenn, en þær fréttir, sem birtar eru í ríkisútvarpinu, eru aðeins frásögn af þingmálum, sem fram koma, og útdráttur úr grg. með þingmálum. Um það hefur oft verið rætt opinberlega, t. d. í blöðum, að þessum þingfréttum ríkisútvarpsins væri ábótavant. Ég vil ekki láta þetta misskiljast þannig, að sá fréttamaður, sem því starfi gegnir, gegni því ekki vel samkvæmt þeim reglum, sem um starf hans hafa verið settar, heldur á hinn veg, að með þeim reglum sé starfi hans sniðinn of þröngur stakkur, vegna þess að hann á aðeins að hafa það hlutverk að segja frá þingmálum og greinargerðum. Hins vegar víkur hann aldrei að umræðum, sem fram fara á Alþingi. En að því er ég bezt veit, telja allar útvarpsstöðvar í nágrannalöndum, a. m. k. þar, sem ég hef haldið uppi spurnum um þetta efni, það skyldu sína að takmarka ekki fréttaflutning frá löggjafarsamkomunni við málsskjöl einvörðungu, heldur láta hann einnig taka til umræðna, sem fram fara. Meira að segja er oft hafður sá háttur á, t. d. í Noregi, að því er mér var sagt í sumar, að útvarpað er í mjög vinsælum útvarpsþáttum frásögnum frá löggjafarsamkomunni, þar sem fléttað er inn í ræðuhlutum þingmanna sjálfra, stuttum ummælum þingmanna sjálfra, sem útvarpað er af segulbandi, og var mér tjáð, að þessi útvarpsþáttur í Noregi væri mjög vinsæll og hefði með þessu móti tekizt að koma á nánara sambandi milli þings og þjóðar en hefði tekizt með þeim aðferðum, sem áður var beitt við fréttaflutning frá Stórþinginu.

Nú er augljóst mál, að það er vandi að gera, þótt ekki sé nema örstuttan útdrátt — eða kannske einmitt þeim mun meiri vandi sem hann er styttri — af því, sem sagt er í umræðum. En þó tel ég, að það væri engan veginn óvinnandi verk, að tveir starfsmenn kæmust yfir þetta og gætu lokið því á mjög stuttum tíma, eftir að þingfundum er lokið. Þingið hefur nú þegar einn starfsmann við þetta og þyrfti því að bæta öðrum starfsmanni við. Ég hef jafnvel látið mér detta í hug, að það gæti orðið án nokkurs kostnaðarauka fyrir Alþingi, því að ekki er óeðlilegt, að ríkisútvarpið sjálft annaðist greiðslu kostnaðar í þessu sambandi. Nú sér Alþingi ríkisútvarpinu fyrir föstum dagskrárlið alla virka daga vikunnar, að laugardögum undanteknum, meðan Alþingi situr, og væri því í raun og veru alls ekki óeðlilegt, að útvarpið tæki að sér að kosta þann viðbótarstarfsmann, sem til þess arna þyrfti. Sá kostnaðarauki þyrfti ekki að vera verulegur, því að um fullt starf væri ekki að ræða, auk þess sem maðurinn mundi aðeins starfa um þingtímann. Hér væri því um kostnað að ræða, sem ekki þyrfti að nema meiru en við skulum segja 20 þús. kr., og svo mikið er hér um að ræða í aðra hönd, að ég tel ekki áhorfsmál, að í þann kostnað ætti að leggja. Fyrst og fremst tel ég, að í hann ætti að leggja vegna þess, að þingfréttir ríkisútvarpsins, sem mikið er á hlustað, mundu með því verða miklum mun meira lifandi en þær eru núna, auk þess sem fréttaflutningurinn yrði rækilegri og sannari en hann getur orðið með þeirri tilhögun, sem nú er í þessum efnum.

Í þessu sambandi mætti raunar einnig geta þess, að sá háttur er á hafður að skýra ekki frá fyrirspurnum í þingfréttum ríkisútvarpsins. Það er ekki ákvörðun fréttamannsins, sem þar liggur til grundvallar, heldur gömul ákvörðun forseta. Ég hygg, að sú ákvörðun hafi verið tekin, þegar á því tók að bera fyrir mörgum árum, að sérstaklega einn þm., að því er ég held að óhætt sé að segja, hafði nokkra tilhneigingu til þess að misnota þingfréttatímann á þann hátt að bera fram spurningar, sem mætti kalla tvíræðar, og var þá sá háttur upp tekinn að hætta að skýra frá fyrirspurnum í þingfréttunum. Segja má, að það sé mjög eðlilegt, meðan ekki er sagt frá umræðum, þ. e. a. s. meðan ekki er sagt frá svörum. Það er auðvitað óeðlilegt að skýra frá spurningum, sérstaklega ef þær gætu gefið tilefni til ýmiss konar grunsemda, skulum við segja, ef ekki er sagt frá þeim svörum, sem ráðherrar gefa við spurningunum. Það tvennt heyrir auðvitað saman, og tel ég, að þann sið ætti að taka upp, þótt ekkert annað væri að gert, að skýra í þingfréttum útvarpsins frá fyrirspurnum og svörum ráðherra við þeim.

Ég tel, að höfuðþýðing þess, að gerður yrði stuttur útdráttur úr umræðum, væri fyrir þingfréttir ríkisútvarpsins. En ef sá útdráttur væri gerður á annað borð, þá tel ég sjálfsagt að gefa dagblöðunum kost á að fá þennan útdrátt til birtingar, og mundi það án efa auðvelda dagblöðunum að hafa fréttaburð sinn frá löggjafarsamkomunni ýtarlegri, ef svo ber undir, ef þau óska þess, og í öllu falli réttari og nákvæmari en nú á sér stað, þar sem þessi útdráttur yrði auðvitað gerður af fullkomnu hlutleysi gagnvart því, sem fram kemur í umræðunum. Með þessu á ég auðvitað ekki við það, að dagblöð öll ættu að taka upp þann sið að skýra einvörðungu hlutlaust frá því, sem gerist í umræðum á Alþingi. Með því móti mundu blöðin ekki sinna nema öðrum þætti þess hlutverks, sem þau nú hafa og auðvitað eiga að hafa, en þennan þátt má ekki vanrækja. Hann er ekki síður mikilvægur, hann er enn mikilvægari en hinn þátturinn, sem þau hafa og eiga að hafa, að túlka það, sem fram kemur í umræðum á Alþingi, veita á því skýringar og segja sína skoðun á því, hvort það sé gott eða illt, rétt eða rangt. Í lýðfrjálsu þjóðfélagi er auðvitað sjálfsagt, að blöð séu ekki einvörðungu fréttablöð, heldur hafi einnig skoðanir á því, sem gerist, og leiðbeini lesendum um það, hvaða skoðanir þeir eigi einnig að hafa á því, sem sagt er eða gert er. En mér hefur fundizt og er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun, að hlutverk blaðanna tek ég þar ekkert blað undan — hafi fyrst og fremst verið að túlka, oft og einatt á mjög einhliða hátt, það, sem gert er, en láta hitt sitja á hakanum, að skýra hlutlaust frá því, sem sagt hefur verið eða gert hefur verið, en hvort tveggja þarf að haldast í hendur, ef vel á að vera.

Ég gat þess áðan, að mér hefði fundizt þessi túlkandi þáttur í starfi blaðanna vera allt of áberandi, og álít það vera slæmt, einkum og sér í lagi ef ekki er leitazt við að láta grundvöll túlkunarinnar vera rétta frásögn af því, sem raunverulega hefur átt sér stað. En svo að segja í hverri viku má finna þess eitt eða fleiri dæmi í einhverju af blöðum bæjarins, að beinlínis sé skýrt rangt frá því, sem gerist í umræðum á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Mér hefur dottið í hug að nefna um þetta eitt dæmi, ekki til þess í sjálfu sér að segja, að eitt blað sé sekt í þessu efni og öll önnur saklaus, — ég skal taka það skýrt fram, að um þetta eru öll dagblöð höfuðstaðarins sek að meira eða minna leyti, sumpart vafalaust af óaðgætni eða sökum ekki nógu góðra starfsskilyrða þeirra manna, sem þessi störf annast, en stundum kannske af því, að löngunin til þess að túlka á ákveðinn hátt nær yfirhöndinni við þessi störf, sem auðvitað eru vandasöm og viðkvæm. Mér hefur dottið í hug að nefna hér eitt dæmi og finnst þá eðlilegast að taka stærsta blað landsins, langstærsta blað landsins, sem í þessum efnum ætti auðvitað að hafa bezt skilyrði til þess að haga fréttamennsku sinni þannig, að óaðfinnsluvert væri. Vil ég nefna dæmi úr umræðum, sem hér fóru fram fyrir skömmu, þ. e. a. s. um ríkisútgáfu námsbóka. Þar sagði ég nokkur orð um frv. ríkisstjórnarinnar um ríkisútgáfu námsbóka, og sagði þar m. a. þessar setningar, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi ákvæði 2. gr. um skipun námsbókanefndarinnar vildi ég aðeins láta þess getið, þó að einstakar greinar eigi ekki að ræða við 1. umr., að ég tel hæpið að láta Prestastefnu Íslands tilnefna einn mann í námsbókanefnd, og þau rök, sem hæstv. ráðherra flutti fyrir því, sannfærðu mig ekki. Prestar höfðu áður fyrr miklu hlutverki að gegna í barnafræðslunni, en nú hafa þeir engu hlutverki að gegna lögum samkvæmt í barnakennslunni. Í þeim efnum hefur verið gerð gagngerð skipulagsbreyting, og nú eru engin tengsl — bókstaflega engin tengsl — milli hinnar almennu barnafræðslu og prestastéttarinnar í landinu. Ég tel því miklu eðlilegra, að þeirri grundvallarreglu verði haldið, sem er í núgildandi lögum, að framhaldsskólakennarar fái hér að leggja orð í belg og eigi hér sinn fulltrúa. Það eru ekki rök gegn því, að útgáfan starfi ekki á framhaldsskólasviðinu. Framhaldsskólakennararnir hafa einmitt mikla þekkingu á því, hvernig kennslubækur barnastigsins eiga að vera úr garði gerðar, því að þeir taka við börnunum síðar inn í sinn skóla og vita því, hvaða kröfur er eðlilegt að gera til barnanna, þegar þau koma inn í miðskólana og gagnfræðaskólana eða menntaskólana eða sérskólana. Þess vegna tel ég mjög miður farið, ef allur tillöguréttur allra framhaldsskólakennaranna, sem hafa einmitt sérstaklega góða aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig námsefni barnastigsins á að vera, verður algerlega niður felldur.“

Frá þessum ummælum er skýrt með eftirfarandi setningum í stærsta og víðlesnasta blaði landsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðal ákvæða í frumvarpinu má nefna það, að til þess er ætlazt, að prestastefna kjósi fulltrúa í námsbókanefnd.“ Þetta er feitletrað og tveggja dálka. „Er það sjálfsagt, að prestar hafi tillögurétt um námsbækurnar, svo mikla þýðingu sem þær hafa á allt andlegt uppeldi þjóðarinnar. Gegn þessu risu talsmenn vinstri flokkanna með miklu offorsi. Urðu þeir furðu taugaæstir og bölsótuðust gegn því, að guðstrú og góðir siðir mættu hafa sín áhrif á námsbókaútgáfuna. Gegnir afstaða þeirra furðu.“

Svo segir síðar í greininni, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir ræðu Bjarna Benediktssonar ráðherra tóku til máls Gylfi Þ. Gíslason og Lúðvík Jósefsson. Vildu þeir tafarlaust láta víkka svið útgáfunnar, svo að hún næði yfir gagnfræðastigið eða a. m. k. yfir allt skyldunámið, og tóku ekkert tillit til röksemda um, að slíkt gæti verið athugavert, meðan útgáfan ekki gegnir hlutverki sínu betur en nú er. Þá snerust þeir báðir hatrammlega gegn því ákvæði, að prestar mættu tilnefna mann í útgáfustjórn, virtust þeir alls ekki geta þolað það.“

Þessar setningar — (Gripið fram í.) Ég hef enga ástæðu haft til þess að bera annað á tungu minni en það, sem ég hef í hjarta mínu, og í hjarta mínu var ekkert annað en það, sem ég lét koma fram á tungu mína í þessum umræðum, svo að röntgenmynd hefði þar engu um breytt. Ég vildi aðeins nota þetta sem dæmi og skal gjarnan láta þess getið, að úr öllum dagblöðum höfuðstaðarins mætti án efa finna dæmi um það, að ekki væri rétt sagt frá, ekki nákvæmlega sagt frá því, sem hér á sér stað. En mergurinn málsins er auðvitað sá, að með slíku er engum gert gagn. Ég vel tiltölulega meinlaust dæmi, sem í sjálfu sér snertir ekki stjórnmálabaráttuna, þó að ég gæti nefnt önnur, þar sem um miklu alvarlegri og hatrammari missagnir er að ræða, en ég kaus nú heldur að velja dæmi af þessum endanum. Sannleikurinn er sá, að með þessu er engum gagn gert og allra sízt lýðræðinu í landinu og þeirri löggjafarstofnun, sem við eigum sæti á og er kjarni lýðræðisins, er hornsteinn lýðræðisins í landinu, og við viljum auðvitað, að vegur hennar sé sem mestur. Sannleikurinn er sá, að fréttaflutningur blaðanna af því, sem gerist í löggjafarsamkomunni, hefur úrslitaáhrif um það, hvaða skoðun almenningur hefur á löggjafarsamkomunni og því, sem hér gerist, og þess vegna er hér í raun og veru ekki um smámál að ræða.

Þessu hygg ég að verði bezt ráðin bót á með því móti, að Alþingi sjálft annist örstutta skýrslugerð af því, sem hér fer fram, og sjái til þess, að það birtist þjóðinni í ríkisútvarpinu, og gefi síðan blöðunum kost á því að birta þennan útdrátt líka. Ég skal enn undirstrika, að það hvarflar ekki að mér og ég teldi það beinlínis óeðlilegt, ef blöðin létu við það sitja að gera það. Það er réttur þeirra og skylda að túlka það, sem fram fer, og jafnvel að skýra frá því, hvað blöðin teldu að mundi hafa komið í ljós, ef teknar hefðu verið röntgenmyndir af þingmönnunum, meðan þeir hefðu verið að tala. Við það hef ég að sjálfsögðu ekkert að athuga. En mergurinn málsins er hitt, að það komi í ljós, þótt í örstuttum útdrætti sé, hvað raunverulega var sagt, þannig að þeir, sem lesa blöðin, geti greint á milli þess, hvað raunverulega var sagt og hvað blaðið teldi að þingmaðurinn hefði kannske viljað segja eða ætlað að segja, þó að þar sé auðvitað komið út á mjög hæpið svið.

Ég skal láta þetta nægja til skýringar á því, hvers vegna ég hef leyft mér að flytja þessa till., og leyfi mér að óska þess, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn. Ég hygg, að eðlilegra sé, að hún fari þangað, heldur en til fjvn.