07.03.1956
Sameinað þing: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2205)

136. mál, atvinna við siglingar og stýrimannaskólann í Reykjavík

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessa till. til þál. er að finna á þskj. 263, og er hún flutt af mér og öðrum þm. hv. Ed., sem eiga sæti í sjútvn. deildarinnar. Ég vildi aðeins mega, með leyfi forseta, lesa till. upp, til þess að mönnum væri þá hugstætt, hvað um er að ræða, hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á lögum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum og á lögum um stýrimannaskólann í Reykjavík, með sérstöku tilliti til þess, hverra breytinga á þessum lögum sé þörf vegna þróunar síðari ára í siglinga- og fiskveiðamálum landsmanna. Enn fremur verði athugað, hversu megi á hagkvæmastan hátt auðvelda mönnum aðgang að hæfilegu námi, er veiti réttindi til skipstjórnar á hinum stærri vélbátum. Er þess óskað, að niðurstöður umræddrar endurskoðunar og till. til breytinga á lögunum verði lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Í grg. er svo rökstutt, hvers vegna till. er fram komin, og bent á þá aðila, sem aðallega ýttu við því að fá þessu máli hreyft, þ. e. fiskimanna- og farmannasambandið og Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi í Vestmannaeyjum, sem vitnað er til í grg. Óskuðu þau helzt eftir öðrum aðgerðum og fljótvirkari, þ. e. flutningi lagafrv. til að koma þessum breytingum fram. Við leituðum eftir því með viðræðum við ýmsa aðila, sem hafa mikil áhrif á þau mál, og leizt ekki heppilegt að athuguðu máli að setja strax fram breytingar á lögunum um atvinnu við siglingar og á lögunum um stýrimannaskólann, án þess að slík endurskoðun sem hér er farið fram á færi fram fyrst, og þar með var ákveðið að fara þessa leið.

Hv. allshn. hefur fallizt einróma á að mæla með því, að þessi till. verði samþykkt óbreytt, og er ég henni þakklátur fyrir það. Ég vildi aðeins bæta því við, og það vildi ég mæla til hæstv. ríkisstj., að hún léti sem allra fyrst athuga þær breytingar, sem þörf væri á að gera, í samráði við þá aðila, sem nefndir eru í grg., og aðra, sem ekki kunna að vera þar taldir, en þurfa að láta sitt álit í ljós á þessum hlutum, því að það er víst, að þróun mála í þessum efnum er orðin svo mikil og ör, að það horfir til vandræða, ef ekki verða gerðar breytingar á þeim lögum, sem hér ræðir um. Þarf hér breytingar, sem fela í sér að auðvelda mönnum aðgang að því að fá hæfileg réttindi fyrir þá stærð vélbátanna sérstaklega, sem nú er mest notuð.