02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (2703)

202. mál, verðlagsuppbót úr ríkissjóði

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. 1. landsk. þm. (GÞG) hefur vikið að fsp. sínum á þskj. 33, sem varða verðuppbætur úr ríkissjóði, og eins og hann réttilega tók fram, var nokkrum hluta þeirra svarað af hæstv. landbrh. þann 19. okt. Ég leyfi mér að víkja að því, sem til mín er beint af þessu.

Spurt er: „Hversu miklar verðuppbætur hafa verið greiddar úr ríkissjóði á útfluttar vörur, það sem af er þessu ári, og hversu miklu er gert ráð fyrir að þær nemi samtals á árinu?“

Svarið er: Með bréfi, dags. 29. sept. 1954, gaf ríkisstj. síldarsaltendum á Suðvesturlandi fyrirheit um verðuppbætur á saltaða sunnanlandssíld, 7500 smálestir til Rússlands og 1000 smálestir til Póllands. Uppbætur þessar skyldu nema allt að 15 kr. á tunnu, 100 kg nettó, á alla síldina, að viðbættum þar að auki 4 shillings og 9 pence á Rússlandssíldina, sem stafaði af því, að verðið á síld til Rússlands var lægra en annað. Síðar var gefið fyrirheit um 20 kr. verðuppbætur á hverja tunnu, sem seld yrði til annarra landa. Í samræmi við þetta var tekin á 16. gr. B. 11 fjárlaganna fyrir árið 1955 2 millj. og 100 þús. kr. fjárveiting til uppbóta á útflutta sunnanlandssíld.

Þessar upphæðir urðu í reyndinni ekki nema 1 millj. 751 þús. kr.

Þá hefur ríkisstj. heitið verðuppbótum á útflutta sunnanlandssíld, sem söltuð verður eða hefur verið og er verið að salta á þessu hausti. Verðuppbætur á þá síld, framleiðsluna í haust, nema 100 kr. á hverja tunnu á fyrstu 55 þús. tunnur saltsíldarinnar, en 75 kr. á hverja tunnu, sem þar er saltað fram yfir. Á sama hátt hefur ríkisstj. heitið að verðbæta hverja smálest af frystri síld til útflutnings af haustvertíðinni á Suðvesturlandi með 400 kr. á smálestina, og magnið er allt að 2000 smálestum.

Loks hefur ríkisstj. heitið, að greidd skuli uppbót á reknetasíld, sem veidd er af útilegubátum í austurdjúpi á þessu hausti og söltuð er um borð. Skal uppbótagreiðslan nema 22 kr., miðað við uppmælda tunnu af fersksíld. Uppbætur þær greiðast á þá síld, sem veidd hefur verið eftir 20. ágúst 1955.

Með þessu vona ég að hv. flm. hafi fengið þær upplýsingar, sem hann óskaði eftir.